Lifibrauð til umhugsunar: Starfslaun og nýliðun í bókmenntum


Í Morgunblaðinu á dögunum birtist umfjöllun eftir Kjartan Má Ómarsson þar sem fram kom að á árunum 1995-2004 hafi starfslaunasjóður rithöfunda úthlutað 216 mánuðum til höfunda undir þrítugu en næstu tíu ár þar á eftir hafi sami hópur einungis fengið 39 mánuði. Þetta eru í sjálfu sér ekki nýjar fréttir – ég held að „Nýhilkynslóðin“ hafi kvabbað sig vitlausa á þessu, þótt staðan hafi í sjálfu sér verið ögn skárri 2005-2009 þegar „yngri höfundum“ var úthlutað 24 mánuðum, en hún var 2010 – 2014 þegar sama hópi var einungis úthlutað 15 mánuðum (og ekki krónu fyrsta og síðasta árið). Árið 2015 var svo 6 mánuðum úthlutað.

Ég lét hafa eftir mér í þessari grein að þjóð sem ekki sinnti yngri höfundum, fagurbókmenntaþýðingum og menningarpressu væri þjóð hvers bókmenning væri í hættu – og þá skiptir litlu hversu sterkt við „stöndum“ í augnablikinu – rétt einsog við getum átt atvinnumenn í fótbolta úti um allar trissur og verið með á alþjóðlegum mótum, ef við hunsum grunnstoðirnar er stutt í að allt heila klabbið hrynji um sjálft sig. Við erum 350 þúsund sálir og það er eiginlega kraftaverk að íslensk menning skuli til sem nokkurn veginn sjálfstætt fyrirbæri – hún er það ekki og verður ekki nema fyrir stuðning ríkisins og einhvers konar þrjósku fólksins.

Það er mikilvægt að þeim peningum sem eytt er í menningu sé eytt af skynsemi og skipting þeirra taki mið af því að við ætlum ekki bara að vera hérna næstu þrjú árin heldur næstu aldirnar og vonandi lengur. Og sú meining mín stendur alveg jafnt þótt öllum sé ljóst að það vanti meiri peninga – ef það þarf að herða sultarólina þá þurfa allir að herða hana jafnt. En þjóðin stækkar og þótt hún sé enn lítil er rétt að menningarlífið stækki til samræmis – og það gerir það auðvitað að einhverju leyti. Við erum heilum fimmtungi fleiri en við vorum árið 1995.

* * *

Þegar Auður Jóns, Andri Snær, Steinar Bragi, Gerður Kristný, Mikael Torfason, Guðrún Eva og allir hinir höfundarnir sem voru undir þrítugu og launaðir á fyrra samanburðartímabilinu komu fram á sjónarsviðið gerðist það með dálitlum látum – að minnsta kosti upplifði ég það þannig, sem unglingur. Auður var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sína fyrstu bók, Stjórnlausa lukku, önnur bók Andra var Bónusljóð – sem seldist í guðveithvaðstóru upplagi – og kom út á sama tíma og Engar smá sögur, sem var gefin út af Máli og menningu í sérstakri seríu sem var tileinkuð ungum höfundum – þar var Kristján B. Jónasson, síðar ritstjóri á Forlaginu og útgáfustjóri Crymogeu, með skáldsöguna Snákabana og Gerður Kristný með sína aðra bók, Regnboga í póstinum og ritröðinni var haldið áfram a.m.k. árið eftir með skáldsögunni Óskaslóðin eftir Kristjón Kormák. Hugsanlega voru líka fleiri bækur þarna sem ég er búinn að gleyma. Kristjón var 21 þegar bókin kom, Guðrún Eva var 22 með Á meðan hann horfir á þig ertu María Mey (og vakti talsverða athygli). Fölskum fugli Mikaels Torfasonar var fylgt úr hlaði með lúðrablæstri – Hallgrímur Helgason vígði hann fljótlega sem mikilvægasta höfund íslensks samtíma – „besta íslenska skáldsaga sem ég hef lesið í mörg ár“ – Huldar Breiðfjörð kom fram 26 ára með Góða íslendinga, sem fékk feykimikla fjölmiðlaumfjöllun. Þegar ég hitti Steinar Braga fyrst fór ég á hnén og seldi honum bók – ég beinlínis tignaði hann. Þá hefur hann verið svona 26-27 ára (og ég þremur árum yngri). Hann var dularfulla götuskáldið sem seldi bækur sínar á börum, maðurinn á bakvið Augnkúluvökva og þarna var litli ég að selja honum bók á bar.

Að undanskildum Augnkúluvökva, sem Nykur gaf út, og Bónusljóðum, sem Bónus gaf út, komu þessar bækur allar út hjá stærri forlögum. Því fylgir augljóslega ákveðið kúltúrkapítal sem maður getur tekið með sér í launasjóðinn, fyrir utan tilnefningar, dóma og almenna athygli. Mér sýnist að frá og með Nýhil gefi flestir ungir höfundar mestmegnis út hjá smærri forlögum – núorðið mest Tungli og Meðgönguljóðum. Sirka helmingur Nýhilhöfunda gaf reyndar líka út hjá M&M eða Bjarti.

Meðgönguljóðabækurnar eru augljóslega mjög stuttar og Tunglbækurnar ekki fáanlegar nema í litlu upplagi og bara seldar í útgáfuhófinu – hvorugt er sérlega hentugt fyrir höfunda sem eru að reyna að koma ár sinni fyrir borð. En á þessu eru svo auðvitað undantekningar. Hjá JPV kom Sverrir Norland með Kvíðasnillingana 28 ára, Kári Tulinius með Píslarvotta án hæfileika 29 ára og Hildur Knútsdóttir Slátt 27 ára, Bjartur gaf út Þar sem vindarnir hvílast eftir Dag Hjartarson 26 ára, Uppheimar gáfu út Fiðrildi, myntu og spörfugla Lesbíu eftir Magnús Sigurðsson, 24 ára, Vaka-Helgafell gaf út Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur 29 ára (sem er áreiðanlega sú í þessari upptalningu sem hefur vakið mesta athygli síðan) – og ég er áreiðanlega að gleyma mörgum.

* * *

Einhvern veginn sýnist mér bæði ljóst að höfundarnir séu almennt að debutera eldri en áður, að þeir eigi heilt yfir erfiðara með að komast inn á stóru forlögin (sem þjóna þrátt fyrir allt hlutverki hliðvarðar) og að fjölmiðlar sýni þeim minni athygli. Auðvitað getur vel verið að bækurnar séu einfaldlega ekki þess eðlis að þær fangi ímyndunarafl þjóðarinnar á sama hátt og bækur Huldars, Mikka, Auju og Evu – það er enginn áskrifandi að virðingu eða athygli, þótt hún sé augljóslega ekki heldur „bara verðskulduð“, það er ýmislegt sem þarf að koma til, ekki síst tilviljanir og heppni, en líka bara strúktúr sem tekur við fólki. Hvað sem því líður er þetta á endanum summa kúltúrkapítals sem maður kemur með inn á borð hjá starfslaunasjóðnum – eða þannig held ég að það eigi að virka (og það getur varla virkað öðruvísi).

Þá er algengara að ungir höfundar komi fyrst út í kilju, frekar á vorin en á haustin, og að þeir sinni frekar sölubókmenntum (þótt íslenskar fantasíubækur hafi kannski ekki verið að seljast mikið hingað til, finnst mér afar líklegt að þær seljist a.m.k. tvisvar til þrisvar sinnum betur en frumraunir í fagurbókmenntum, ef ekki er tekið tillit til gæða).

Kjartan gerir því skóna að þær „faglegu“ reglur sem nefndin þarf að fara eftir – um útgáfu verka, viðurkenningu og listrænt gildi hamli nýliðun. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt, a.m.k. ekki ef við berum bara saman þessi tvö tímabil. Aujurnar og Mikkarnir fengu einfaldlega miklu meiri viðurkenningu fyrir verk sín heldur en Sverrirarnir og Hildarnar, alveg frá fyrsta hvelli. Þau uppfylltu kröfurnar og rúmlega það. Svo er alls ekki óheyrt að höfundar fái starfslaun án þess að hafa gefið neitt út – þótt það sé að sönnu sjaldgæft (t.d. fékk Soffía Auður Bjarnadóttir áður en hún debuteraði).

Og þá má líka hafa í huga að sjóðurinn veitir ekki heldur öllum laun yfir þrítugu, sem eiga það skilið – þess er skemmst að minnast að Hermann Stefánsson er launalaus og það er ekkert minna en skandall og skömm.

* * *

Sú kynslóð sem nú harkar og er að fara að heltast úr lestinni er líka fyrsta kynslóðin til að hafa átt möguleika á því að hljóta námslán til að skrifa. Og þótt námslán komi ekki í staðinn fyrir tekjur þá gera þau manni samt kleift að draga andann og borga leiguna á meðan maður skrifar (ég skráði mig sjálfur tvisvar fyrir námslánum í nám sem ég stundaði aldrei, til þess að geta fengið yfirdrátt og nokkra mánuði til að skrifa – áður en ég fór svo aftur í rækjuna, sambýlin eða næturvörsluna og greiddi upp skuldir – því ég fékk auðvitað aldrei nema yfirdráttinn, enda tók ég aldrei nein próf). Þá voru heldur engir nýræktarstyrkir fyrren nýlega – þótt þeir séu í sjálfu sér varla upp í nös á ketti (og fari mest í að niðurgreiða kostnað og áhættu forlaga – sem þurfa þá ekki sjálf að greiða höfundum ritlaun).

* * *

Ég þekki marga skandinavíska rithöfunda og flestir þeirra hafa sínar aðaltekjur af einhverju öðru en að skrifa bækur – þótt þeir hafi vissulega margir hærri tekjur fyrir bókarskrifin en við. Þeir kenna ritlist, skrifa gagnrýni og pistla um menningarmál (á sirka fimm til tíföldum íslenskum taxta) fyrir dagblöðin, þýða bækur, halda námskeið, ferðast um og lesa upp (þetta er sérstaklega tekjudrjúgt í Noregi – en almennt er það líka miklu betur borgað en á Íslandi), sinna lausamennsku á fréttablöðum, ritstýra tímaritum, kenna við háskóla (eru akademíkerar) og svo framvegis og svo framvegis. Rithöfundar víðast hvar harka, þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf – og höfundur sem lifir á hinum fáránlega lágu starfslaunum rithöfunda á Íslandi harkar líka, nema svo vel vilji til að hann sé einmitt ungur, barnlaus, skuldlaus og svo framvegis (ég er sjálfur tiltölulega nýbúinn að rembast í gegnum greiðslumat, þar sem mér varð dagljóst nákvæmlega hvers ég er virði og það er ekki mikið, og gengur mér þó bara nokkuð vel).

Í spjallinu við Kjartan nefndi ég ekki bara mikilvægi nýliðunarinnar heldur líka þýðingu fagurbókmennta og menningarpressu. Við þetta mætti bæta tilvist jaðarbókmennta. Hið síðastnefnda mun sennilega aldrei gefa neinum neinar tekjur, svo heitið geti – og raunar blómstra þær á Íslandi í augnablikinu, ekki síst meðal yngri höfunda, Björk Þorgrímsdóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir og fleiri eru að brillera, sjálfum finnst mér það langfrjóasta senan, þótt hún verði varla langlíf (þetta er ástæðan fyrir því að Ísland á enga „framúrstefnuhefð“ – það er engin strúktúr til að viðhalda flippinu fram yfir þrítugt).

Aukin áhersla á þýðingu fagurbókmennta og lausamennsku í menningarpressu – ef við gætum fundið einhverja peninga til að fjármagna það – gæti verið skynsamlegasta lausnin á öllum þremur (jafnvel fjórum) vandamálunum. Ungir höfundar fengju leið til að fjármagna „bókmenntalífsstílinn“ á meðan þeir vinna að fyrstu verkum sínum og „komast á spenann“; þeir gætu jafnvel lært ýmislegt mikilvægt á leiðinni og fengju meira andrými en 3-6 mánaða spretthlaup á starfslaunum gæti nokkurn tíma veitt. Það er auðveldara að henda hálfónýtu handriti og byrja upp á nýtt ef maður sér ekki fram á að þetta sé hugsanlega eini sénsinn sem maður fær – og það er líka auðveldara að leyfa sér skrítnari hluti, óvenjulegri, taka meiri fagurfræðilega sénsa.

Við fengjum síðan fleiri þýddar fagurbókmenntir sem myndu blása nýju lífi í okkar eigin bókmenntir. Og við fengjum betri og áhugaverðari menningarpressu, ef henni væri sinnt af því fólki sem ann menningunni mest (þessu fylgir auðvitað líka dálítill take-down kúltúr, en átök eru góð og bráðholl). Þá mætti eyða meiri pening í að styrkja upplestra (ekki síst upplestraferðalög, svo bókmenntirnar komist út úr 101) með það að markmiði að fólk fái laun – og svo framvegis og svo framvegis. Búa til strúktur þar sem fólki er kleift að vinna sér inn einhverjar tekjur með menningarharki (t.d. mætti byrja að rukka inn á öll þessi ljóðakvöld – eða í það minnsta láta söfnunarbaukinn ganga með ráðlögðu gjaldi – þar ætti undantekningalaust að selja bækur skáldanna og barir mættu hunskast til að gefa upplesurum frían bjór og kaffi svo þeir gangi út í plús einsog annað starfsfólk).

* * *

En það þarf samt að stækka starfslaunasjóðinn – ungu höfundarnir sem ég nefndi hér að ofan eru allir alveg að verða gamlir – þeir eru að heltast úr lestinni því þeir eiga börn sem þurfa að borða. Skandinavískari strúktúr gæti hins vegar bjargað ungu höfundunum sem eru yngri en þeir. Svo þarf að stækka þýðingarsjóð – helst margfalda hann – og hvetja dagblöðin til að ráða fleiri lausapenna í menningarblaðamennskuna, ekki bara til að gagnrýna heldur til að taka viðtöl og halda úti debatt (og í guðanna bænum ekki fleiri generíska heimsósómapistla, ég veit þetta fær læk og smelli, en þetta er bara alveg komið gott).

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png