Líf kontóristans

Á skrifstofunni minni eru einstaka sinnum fleiri en sex. Oftast erum við fjögur og stöku sinnum fimm. En starfsmenn á svæðinu geta orðið átta, held ég, ef setið er við allar vinnustöðvar. Mér fannst einfaldast – í ljósi samkomubanns á Vestfjörðum sem nú bannar fleirum en fimm að hittast – að vera þá bara heima.

Hér erum við líka fjögur – það er enginn skóli – og ekki von á neinum. Aino gæti fengið undanþágu og farið, menntaskólakennarar eru á listanum yfir þá sem sótt geta um undanþágu, en til hvers? Í gær hittum við vini á Zoom og drukkum áfenga drykki. Ég get ekki sagt að þetta ýti mikið undir minn persónulega alkóhólisma. Ég hefði drukkið miklu meira ef þau hefðu verið hér í eigin persónu (fékk mér tvo frekar veika kokteila). Eiginlega finnst mér það næstum sorglegt. Það var allavega áreiðanlega sorgin sem veldur því að ég fékk mér ekki þriðja og fjórða.

Nadja er búin að setja upp menntaskólastofu bakvið læstar dyr í svefnherberginu. Börnin ganga laus um allt hús og raða böngsum í glugga. Þau eiga mjög marga bangsa. Ljóðaþýðingaverkstæðið er í borðstofunni, þar sit ég og hlusta á Son House á vínyl einsog hipsterinn sem ég er og sinni fyrirspurnum þeirra – milli 14 og 16 fæ ég svo meiri vinnufrið. Klukkan 11 verður tónlistartími – Aino á bassa og Aram á trommur. Þau eru að læra Babe, I’m Gonna Leave You og Zombie. Algerir snillingar. Og ekki leiðinlegt fyrir mig að vera loksins kominn í hljómsveit.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png