top of page

Konur sem kjósa menn


Hér má sjá ísfirskar konur sinna útskipun á öndverðri 20. öld undir vökulu auga nokkurra karlmanna. Þessar konur voru með kosningarétt.

Ég er voða mikið í einhverju grúski þessa dagana. Eitt af því sem ég rak augun í fyrir tilviljun, í leit að allt öðru, var grein í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga, þar sem fram kemur að tvær konur hafi kosið í hreppsnefnd í Mosvallarhreppi í Önundarfirði árið 1874 – en þann rétt fengu konur ekki fyrren 1882. 35 manns kusu alls og þar af voru sem sagt þær Ingibjörg Pálsdóttir á Kirkjubóli í Bjarnadal og Steinunn Jónsdóttir á Hesti. Ekki kemur fram hvað þær kusu – en það kemur þó fram að það sé vitað, enda hafi kosningar verið opinber gjörningur og skrásett hver kaus hvað. Gera má ráð fyrir að þær hafi kosið karlmann, enda voru þeir einir í kjöri.


Ástæðan fyrir þessu er síðan forvitnileg túlkun kjörstjórnarmanna á tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi frá 4. maí, 1872, þar sem segir:

Kosningarrétt og kjörgengi til hreppsnefndar á hver búandi maður, sem hefur óflekkað mannorð, er 25 ára að aldri og er ekki öðrum háður sem hjú, ef hann síðasta árið hefur haft fast aðsetur í hreppnum og goldið til hans þarfa, stendur ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk og er fjár síns ráðandi.

Töldu kjörstjórnarmenn að konurnar tvær – sem réðu fyrir eigin búi, höfðu náð tilsettum aldri (42 og 52 ára), voru hvorki hjú, fátæklingar eða ómagar og uppfylltu önnur skilyrði – væru auk þess menn í réttum skilningi þess orðs á íslensku, þótt þær væru kannski ekki mænd upp á dönsku – einsog var sennilega sá skilningur sem lagður var í tilskipunina af þeim sem skrifuðu hana, á dönsku, eða þeim sem þýddu hana á íslensku. Enda er þetta eina dæmið um að tilskipunin hafi verið svo túlkuð.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page