Keisaramörgæsir, Klæði gegn konum, Brosandi maður, Aldrei, Zizek og Peterson, Self og BBE

Fyrsta bók vikunnar var Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur. Frábær bók – aðeins köflótt einsog flest smásagnasöfn en heilt í gegn príma dæmi. Ég las hana í tveimur lotum og ég man að ég hugsaði í fyrri lotunni að stystu sögurnar væru bestar – að Þórdís nyti sín best í hinu … mig langar að segja gisna en það er ekki alveg rétt lýsing, eða hún hljómar allavega ekki nógu vel. Ég er að meina svona hemingwayískar eyður – samtöl þar sem maður er ekki alveg viss hvað er í gangi af því maður sér aldrei nema brot af heiminum. Skáldskapur sem hleranir í ókunnar veraldir. En í seinni lotunni snerist þetta við og lengsta sagan í bókinni – Leg – er besta sagan. Hún fjallar um sérstakan og sturlaðan matarklúbb, nú langar mig að líkja stemningunni við eitthvað hjá Brett Easton-Ellis, en kannski er það bara vegna þess að ég var að hugsa til hans áðan út af öðru – en það er einhver svona gegndarlaus firring í bland við kátínuþrungna heimsendastemningu.

Seinni bók vikunnar var ljóðabókin/endurminningabókin Garments Against Women eftir Anne Boyer. Anne var einu sinni í flarf-hópnum en er komin langt þaðan í dag. Ég hef þýtt lítillega eftir hana úr bókinni Romance of the Happy Workers og verið í aðdáendaklúbbnum í sennilega 15-16 ár. Ég náði því miður ekki að hitta hana á flarf-hátíðinni í New York, sem ég fór á sumarið 2008 – hún þurfti að afbóka á síðustu stundu minnir mig – en við skrifuðumst örlítið á fyrir löngu. Garments Against Women er grafalvarleg og brútal bók en það er samt einhver húmor þarna – eitthvað sem ég kann ekki alveg að skilgreina. Bókin fjallar um margt og fer víða – kapítalisminn og líkami manneskjunnar í kapítalismanum, í fötunum, í kvenfatnaðinum, og líkami manneskjunnar í sjúkdómum er í forgrunni. Anne Boyer hefur þennan hæfileika að geta starað heiminn niður án þess að blikna – og samt er hún líka að skrifa mikið um hvað hún bliknar, án þess að blikna. Skrifa um að vera uppgefin án þess að gefast upp.

Fullorðinskvikmyndaklúbbur Sjökvist horfir ekki á klámmyndir, einsog einhver gæti kannski ályktað af nafninu, heldur á fullorðinsbíómyndir með áherslu á allt utan Hollywood (hér í húsinu Sjökvist eru reknir tveir aðrir kvikmyndaklúbbar sem sérhæfa sig í barnamyndum). Fjórði fundur var haldinn í gær – fyrstu þrjár myndirnar voru Vagabond eftir Agnesi Varda, Unmarried Woman eftir Paul Mazursky, Le Fantôme de la liberté eftir Luis Buñuel og í gærkvöldi horfðum við á Hymyileva Mies eftir Juho Kuosmanen með vini okkar Jarkko Lahti í aðalhlutverki. Jarkko á hús á Flateyri – eða ég held hann hafi ekki selt það enn – ásamt fyrrverandi konu sinni. Hann var hér á síðustu páskum en við rákumst á hana á Aldrei á helginni. Myndin fjallar um boxarann Olli Mäki og tækifæri hans til að verða heimsmeistari í boxi á sama tíma og hann verður ástfanginn. Þetta er sannsöguleg og afskaplega falleg og mikil feel-good mynd. Ég veit ekki hvort það er miklu meira um hana að segja samt. Hún lýsir tíma sínum, 1962 minnir mig að hún gerist, og fjallar kannski ekki síst um óþolið fyrir athyglinni, fyrir sirkusnum – og er fyndið auðvitað í ljósi þess sirkus sem við lifum við í dag. Olli Mäki kemur frá Kokkola til Helsinki og lendir beint í heimspressunni og stöðugum myndatökum og veseni – á sama tíma og hann er einmitt hvínandi ástfanginn og getur vart um annað hugsað.

Aldrei fór ég suður var haldin um helgina. Hápunkturinn hjá mér var þegar Salóme Katrín flutti Wuthering Heights – það var ofsalegt. Hápunkturinn hjá Aram var að sjá Bagdad Brothers – hann fór heim og náði í trommukjuðana sína og leitaði uppi trommuleikarann og fékk hjá honum eiginhandaráritun. Annars sá ég talsvert minna en ég hefði viljað – missti t.d. af Hórmónum, sem var mjög leiðinlegt, og Ayia með Ástu vinkonu minni. Ég var með matarboð á föstudeginum og við sein af stað og svo var ég á barnavaktinni og fór heim með krakkana upp úr tíu. Þá sáum við eiginlega bara Þormóð systurson minn – hann er eiginlega sigurvegari hátíðarinnar, það hefur hreinlega aldrei verið jafn fullt í húsinu og þegar hann var á sviðinu. Var ekki nokkur séns að komast inn – nema fyrir börnin sem gátu smogið sér milli lappa fólks. Á laugardeginum var ég svo að vinna á aldreibarnum og þar heyrði maður lítið sem ekkert.

Þegar ég var búinn að lesa fyrir krakkana á föstudaginn (Elías, fyrstu bókina) horfði ég á nýjasta þáttinn af Star Trek og síðan svona hálftíma á Zizek-Jordan Peterson debattinum. Ég er eiginlega ósammála öllum um það tiltæki og finnst hreinlega til fyrirmyndar að debatt sé gerð umgjörð sem hentar sjónvarpstækjum um veröld alla. UFC fyrir heilann. Svo eru hugmyndir vondar eða góðar en öll umræða um hugmyndir er góð. Peterson er eins langt frá mér í pólitík og heimspeki og nokkur maður getur orðið, og ekki finnst mér hann sérlega gáfaður, en mér finnst ekki fullkomlega gagnslaust að hlusta á hann. Kannski bara vegna þess að ég er kominn með svo mikla leið á því að hlusta á langar keðjur af stuttum hugsunum – að fá heiminn í tístum og statusum, sem hverfa jafn óðum – og ég sakna þess hreinlega að fá þannig umræðu, lifandi umræðu frekar en bókfasta, í lengri og ítarlegri skömmtum. Þegar maður er svangur er allur matur góður.

Ég hef aldrei skilið hvers vegna Zizek féll af stalli og fór að þykja hallærislegur – eiginlega finnst mér að fyrst vinsældir hans og svo óvinsældir hjá cool kids liðinu séu bæði til marks um sauðshátt samfélagsins, hvað við erum gjörn á að stökkva á eftir einhverjum bendingum um hvað sé hot og hvað sé not og finnast svo það sama og síðasta manni. Í sjálfu sér er Zizek þekktari stærð í dag en fyrir 10 árum og kannski er það bara þess vegna. En hugsun hans er aldrei óáhugaverð – ekki einu sinni þegar hann er að endurtaka gamlar lummur frá sjálfum sér, sem hann gerði mikið í þessum debatt (eða því sem ég sá af honum). Kannski var hann í þessum best off gír vegna þess að hann taldi sig hafa mikið af nýjum áheyrendum – og það gæti verið rétt.

Það sló mig reyndar líka að líberal-fólkið – GíslaMarteinarnir, sem dómínera svolítið á samfélagsmiðlum – geti ekki ímyndað sér neitt verra en að samfélagsumræðan eigi sér stað á ásinum milli svartsýnnar íhaldssemi og svartsýnnar byltingarstefnu. Líberalisminn hvílir á hamslausri bjartsýni og framfaratrú – sem felur reyndar í sér að allir sem eru ósammála þeim séu smám saman að deyja út (fun fact: nei), sem er auðvitað dálítið sínískt.

Helstu viðbrögðin sem ég sá við þessum debatt voru eins konar and-debatt – hvað gæti maður kallað það, frávísun? Twitter fylltist af fólki sem stakk puttunum í eyrun og sagði BLABLABLABLABLA LÚSERAR. Það gerði mig furðu leiðan, jafnt þótt ég gæti tekið undir að annar þeirra sé svolítill lúser – af því mér finnst þetta vera orðið viðbragðið við óttalega mörgu. Svona grobbin idíókrasía – einsog fólkið sem montar sig nánast af því að lesa ekki bækur. Maður á að lesa bækur og maður á að takast á við þær hugmyndir sem eru sentral í menningu manns á hverjum gefnum tíma.

Brett Easton-Ellis var annars að skrifa einhverja bók um hvað þúsaldarkynslóðin sé miklir aumingjar. Einhver skemmtilegasti útvarpsþáttur sem ég hef hlustað á var þegar BEE bauð til sín Ezra Koenig, gítarleikaranum í Vampire Weekend, til að debatera einmitt þetta. BEE kann að þrátta og gera það skemmtilega og – líkt og t.d. Zizek – þá segir hann frekar eitthvað heimskulegt en eitthvað óáhugavert, sem mér finnst alltaf kostur (vegna þess að hið heimskulega anímerar mann en hið óáhugaverða svæfir mann). Svo fór hann í viðtal við Sunday Times og sagði að þúsaldarkynslóðin læsi ekki bækur og þetta tók Twitter nærri sér – bara af því þau læsu hann ekki þá þýddi það ekki að þau læsu ekki bækur. Will Self var einhvern veginn dreginn inn í þetta líka – sem er í talsvert meiru uppáhaldi hjá mér en BEE.

Það sló mig að þegar þeir Self og BEE voru um tvítugt, í byrjun níunda áratugarins, var ábyggilega miklu, miklu, miklu meira lesið en í dag. Og kannski miklu, miklu, miklu, miklu meira. Í öllu falli er alveg ljóst að bókamarkaðurinn hefur hrunið á síðustu 20 árum – ekki bara kaupir fólk færri bækur og les færri bækur heldur les það færri og færri titla, lesturinn dreifist minna. Heilt yfir er það ungt fólk sem les minna – þótt t.d. í Bandaríkjunum skiljist mér að fólk lesi fleiri ljóðabækur en áður (og þær eru vel að merkja styttri og metsöluljóðlist síðustu tíu ára er umtalsvert auðveldari aflestrar en ljóðlistin tíu árin þar á undan). Ég ræddi nýlega við menntaskólakennara sem vildi meina að margir unglingar væru beinlínis stoltir af því að lesa ekki neitt – á meðan að unglingar af okkar kynslóð hefðu verið líklegri til þess að ljúga því að þeir hefðu lesið eitthvað sem þeir lásu ekki, þá lægi við að sumir unglingar í dag ýktu stöðuna í hina áttina og segðust ekki hafa lesið bækur sem þeir hefðu þó lesið.

En svo er þetta líka einhver viðhorfsbreyting. Svartsýnin á undir högg að sækja. Self og BEE finnst kannski æskan glötuð í dag en þeim fannst æskan líka glötuð árið 1985, þegar þeir tilheyrðu henni. Þeir koma báðir upp úr pönkinu, inn í kókaínbrjálæði tíunda áratugarins, í restina af einhverju tímabili sem ég sé alltaf fyrir mér sem gullöld intelektúalismans – frá svona 1970 til 1985. Það er auðvitað vel hugsanlegt að þetta sé kolrangt hjá mér. Ég var sjö ára árið 1985. Þeir líta á hlutverk sitt í heiminum – einsog margir intelektúalar hafa gert í gegnum tíðina – sem það að segja fólki til syndanna, bókstaflega, frekar en að fagna því hvað allir séu frábærir.

Ég er að spá í að lesa þessa bók hans BEE – hún er áreiðanlega ekki hálft eins leiðinleg og fólkið sem henni er stefnt gegn heldur fram.

***

Gítarleikarar vikunnar eru tveir – Adrian Smith og Dave Murray.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png