top of page

Kastalakanónan


Nýr ríkisstjórnarsáttmáli Svía er kenndur við Tidökastala, þar sem hann var barinn saman. Tidösáttmálinn. Aðilar að þessum sáttmála eru flokkar kristilegra demókrata, frjálslyndra, hófsamra og nasista. Þeir síðastnefndu fá engan ráðherrastól en þeim mun meiri áhrif á stefnumál – fyrirfram hafði ég sagt að það væri sennilega versta niðurstaðan fyrir lýðræðið, því ráðherrastólum fylgir ábyrgð sem kostar flokka oft fylgi til lengri tíma og það má enginn við því að sænski nasistaflokkurinn haldi áfram að stækka. En það er líka svolítið öfugsnúið að verða fyrir vonbrigðum með að nasistar hafi ekki fengið neinn ráðherrastól. Kognitífi dissonansinn minn fer á yfirsnúning.


Hvað um það. Eitt af markmiðum sáttmálans er að sett verði saman í Svíþjóð svokölluð „kúltúrkanóna“ – það er að segja listi yfir verk sem teljast vera sígild sænsk meistaraverk, skilgreini jafnvel hvað það sé að vera Svíi eða hafi haft mikil áhrif á sænska sjálfsmynd. Fyrirmyndin er sótt til Danmerkur. Þar var settur saman álíka listi fyrir um 15 árum með 108 dönskum listaverkum – þar á meðal óperuhúsinu í Sydney, Stalingrad eftir Asger Jorn, langskipinu Skuldelev 2 (sem ku reyndar byggt í Dublin af einhverjum sem enginn veit hver er), Matador-sjónvarpsþáttunum, Idioterne eftir Lars von Trier, Sommerfugledalen eftir Inger Christensen, Værsgo, fyrstu plötu Kims Larsen, óperunni Holger Danske eftir Kunzen, Miles Davis plötunni Aura (lögin eru samin af dana), leikritinu Jeppa á fjalli, Carl Barks sögunni Andrési Önd og gyllta hjálminum og kvikmyndinni Gúmmí-Tarzan.


Þetta er eðli málsins svolítið umdeilt. Margir vinstra megin við miðju hafa viljað meina að með því að meitla mikilvægri vissra verka í stein á þennan hátt kæfi maður þróttinn í menningunni, sem þurfi á því að halda að vera í síbreytilegum flúxus og endurskoðun. Þá óir marga eðlilega við því hverjir það eru sem eiga að stýra þessu starfi. Kristilegir íhaldsmenn sem beinlínis skilgreina sig sem útvörð kristilegra gilda, Frjálslyndur hægriflokkur sem hefur ofurtrú á gildi markaðarins, Moderaterna sem eru sænski Sjálfstæðisflokkurinn og svo einmitt þessir blessuðu nasistar. Þeir gera það auðvitað ekki prívat og persónulega – það á að velja „óháða sérfræðinga“ – en þeir hljóta óhjákvæmilega að eiga hönd í bagga með að velja þá sem það gera.


Síðan er þetta auðvitað ekki bara spurning um það hvort listinn sé til eða hvað sé á honum heldur hvernig hann verði notaður. Sú krafa hefur t.d. verið upp í Danmörku að hann sé kenndur í skólum og hafður til viðmiðunar við alls konar menningarstarf – þú getir jafnvel átt auðveldar með aðgengi að styrkjum ef þú ætlar á einhvern hátt að treysta þennan arf í sessi. Í Danmörku var á tímabili haldið úti vefsíðu þar sem aðgengi að stafrænum útgáfum þessara verka var tryggt en hún var svo lögð niður vegna ... wait for it ... kostnaðar. Það kom sem sagt í ljós að það þurfti að greiða rétthöfum (nema kannski afkomendum þess sem hannaði Skuldelev 2). Mér sýnist reyndar að í raun sé mest lítið gert með hann í Danmörku. En ég hef ekki nægilega innsýn í danskt samfélag til að fullyrða um það.


Aðrir segja að markmið kanónunnar hafi verið að skapa umræðu um danskt ídentítet og danska menningu og það hafi tekist. Reyndar situr fólk svo enn uppi með sömu kanónu fyrir og eftir þessa umræðu, en það er kannski aukaatriði. Einsog annað viðurkenningapjátur er þetta svo alveg ógurlega skemmtilegur samkvæmisleikur – en að sama skapi líka kannski hættulegt að hann fái opinberan stimpil? Hér er kjarni hins danska, sænska og íslenska?


Annars var verið að ræða þetta við nýja sænska menningarmálaráðherrann, Parísu Liljestrand (úr Moderaterna), í sjónvarpsþættinum Morgonstudion. Þar voru henni sýnd þrjú verk – Gösta Berlings saga eftir Selmu Lagerlöf, Millenium-trílógían og Triangle of Sadness eftir Östlund – og hún spurð hvort þau gætu verið í kanónunni. „Þetta eru auðvitað allt frábærir rithöfundar og tvær af þremur bókanna hef ég sjálf lesið, og þótti mjög góðar, en það verður einhver annar að svara því hvort þær eigi heima í kanónunni“, sagði Parísa. Við þetta er ekkert að athuga nema að Millennium-trílógían ein og sér er (a.m.k.) þrjár bækur og Triangle of Sadness er kvikmynd.


Mér finnst sjálfum áhugavert að skoða „útlensku“ verkin á danska listanum – Miles Davis plötuna og óperuhúsið í Sydney og Carl Barks-Andrésinn – og velta því fyrir mér hvaða „útlensku“ verk gætu talist hluti af íslenskri kúltúrkanónu. Kannski sænska Sölku Völku myndin? Immigrant Song með Led Zeppelin? Letters from Iceland eftir Auden og MacNiece? Þið megið gjarnan koma með tillögur, annað hvort hér að neðan eða á Facebook.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page