Karate Kid og Krossgöturnar

Það hefur verið hljótt á blúsblogginu í nokkrar vikur en blúsbloggarinn hefur alls ekki slegið slöku við. Ég hef legið í ævisögum og fræðiritum – Say No To The Devil: The Life and Musical Genius of Reverend Gary Davis, Josh White: Society Blues; Charley Patton: Voice of the Mississippi Delta; Texas Flood: The Inside Story of Stevie Ray Vaughan; Beyond the Crossroads: The Devil and the Blues Tradition; Mississippi John Hurt: His Life, His Time, His Blues og Blues All Around Me: The Autobiography of B.B. King. Af þessum eru Charley Patton bókin – eftir Elijah Wald, sem er afar snjall – og Reverend Gary Davis bækurnar bestar en allar ágætar.

Auk þess að lesa blús hef ég verið blúsaður og leikið blús. Síðastliðinn fimmtudag hélt ég tónleika ásamt Skúla frænda mínum í gömlu bókaverzluninni á Flateyri. Þar skiptumst við á að leika lög og lékum nokkur saman. Ég tók St. James Infirmary Blues, How Long, How Long Blues, Walkin\’ Blues, Come On in My Kitchen og Statesboro Blues óstuddur en saman lékum við Folsom Prison Blues, Chocolate Jesus, It Hurts Me Too og Ég ætla heim (eftir Skúla). Ég áttaði mig á því að þrjú af þessum lögum voru fyrst tekin upp árið 1928 (How Long, St. James og Statesboro). Ég var vægast sagt taugaveiklaður og fór í gegnum þetta í einhverju móki. Það er svo skrítið – ég var með mikinn sviðskrekk fyrstu 10 árin sem ég las upp á sviði og þótt ég verði enn pínu stressaður myndi ég ekki kalla það sviðskrekk. En þegar ég fer með gítar upp á svið byrja ég strax að skjálfa. Það er einsog þetta séu tveir óskyldir sviðskrekkir.

Þetta voru sem sagt fyrstu en vonandi ekki síðustu blústónleikarnir mínir. Gestir voru sennilega um tíu talsins.


Hvað um það. Einsog þetta væri allt saman ekki nóg til að halda mér frá blúsblogginu – sem er auðvitað minn höfuðstarfi – þá horfði ég líka á bíómyndina Crossroads frá árinu 1986. Með börnunum mínum. Sem maður ætti eiginlega ekki að gera. Þetta er ekki barnamynd. En þetta er eiginlega ekki heldur mynd fyrir fullorðna. Kannski er þetta bara mynd fyrir eitísbörn sem mega heyra gamla karla tala um að næla sér í píku og depla ekki augunum við tilhugsunina um að sautján ára flökkustúlkur selji hálfsköllóttum suðurríkjarasistum líkama sinn í neyð (eða geri tilraun til þess).

Crossroads var leikstýrt af Walter Hill og í aðalhlutverkum eru Ralph Macchio – Karate Kid – Joe Seneca og Jamie Gertz (úr Lost Boys og Less Than Zero). Seneca var líka tónlistarmaður og sviðsleikari – kom beint á settið á Crossroads úr leikritinu Ma Rainey\’s Black Bottom eftir August Wilson sem hafði gert stormandi lukku á Broadway. Hann var eða varð upp úr þessu sérfræðingur í að leika gamla blúsmenn og gerði það meira að segja í einum Matlock þætti (þættinum The Blues Singer). Tónlistin í myndinni er eftir Ry Cooder – sem er sennilega óumdeildasti hvíti blúsmaður tónlistarsögunnar og eitt af betri kvikmyndatónskáldum (mæli ekki síst með Paris, Texas sándtrakkinu, sem byggir á Dark Was The Night, Cold Was The Ground eftir Blind Willie Johnson).

Myndin floppaði illa á sínum tíma. „Macchio has got all the soul of a Spaghettio“ skrifaði gagnrýnandi The Toronto Star og flestir voru á sömu línu. Myndinni er hins vegar alls ekki alls varnað – þótt hún sé ekki neinn Ingmar Bergman – og lék áreiðanlega á þandar taugar fleiri ungra gítarleikara en bara mínar á sínum tíma. Þá var hún sennilega lykilatriði í því að Robert Johnson og krossgöturnar festust í alþýðuminninu – frekar en að vera bara anekdóta fyrir músíknörda.

Í sem stystu máli fjallar kvikmyndin um ungan gítarleikara – Eugene Martone (Macchio), 17 ára undrabarn og blúsnörd frá Long Island sem nemur klassískan gítarleik við Julliard. Hann hefur bitið í sig að Robert Johnson hafi samið 30 lög en ekki bara þau 29 sem hann tók upp og einsetur sér að hafa upp á 30. laginu með einhverjum ráðum. Hann finnur gamlan félaga Roberts, munnhörpuleikarann Willie Brown (Seneca), á elliheimili fyrir glæpamenn, og telur víst að kunni einhver lagið sé það hann. Willie Brown kannast ekkert við neitt í fyrstu en semur loks við Martone um að ef hann frelsi sig og fari með sig niður til Mississippi þá muni hann kenna honum lagið týnda. Upphefst nú mikil æsiför af buddy-road-movie taginu niður til Mississippi – og á leiðinni slást þeir í för með unglingsstúlkunni Frances, sem er dansari á flótta frá illum stjúpföður, og takast ástir með þeim Martone. Á leiðinni öðlast Martone þá reynslu sem manni er nauðsynleg til að leika blúsinn – kynnist erfiðleikum, lendir í ástarsorg og sýgur í sig fæðingarstað blússins, Mississippi-deltuna.

Bakgrunnur alls þessa er auðvitað mýtan um að Robert Johnson hafi selt skrattanum sálu sína á krossgötunum í skiptum fyrir tónlistarhæfileikana. Í myndinni er lagt upp með að þetta hafi Willie Brown líka gert en nú vilji hann freista þess að endurheimta sálina áður en hann hrekkur upp af. Í raunveruleikanum átti Robert Johnson vin sem hét Willie Brown – en sá var eiginlega fyrst og fremst vinur Son House og lék á gítar. Eftir hann liggja þrjú lög en auk þess lék hann undir hjá Son House, Patton og fleirum. Hann þykir sérstaklega mikill snillingur.

Hápunkti nær kvikmyndin í frægri lokasenu þar sem Ralph Macchio keppir við skjólstæðing andskotans (sem er reyndar aldrei kallaður annað en Legba eða Scratch í myndinni), Jack Butler, sem Steve Vai leikur. Það er alveg í hæpnasta lagi að kalla Jack Butler blúsgítarleikara þótt hann leiki sinn neoklassíska metal yfir 12 bara blúshljómagang. Í húfi er ekki bara sál Willie Brown heldur líka sál Eugene Martone. Martone og Butler skiptast á likkum – Butler leikur neoklassík og Butler blúsar hana upp. Svo tekur Butler tryllinginn og allt útlit er fyrir að Martone hafi tapað. En eftir dálítið hik teygir Martone sig niður í sálardjúpin – niður í ræturnar – og dregur upp útgáfu af fimmtu etýðu Paganinis sem hefur verið nefnd „Eugene\’s Trick Bag“. Butler gerir sitt besta en gefst að lokum upp og gengur bugaður af sviðinu.

Martone og Brown leika eitt lokalag og ganga svo út í sólsetrið – Brown viðurkennir loks að Martone sé ekki alveg gersamlega hæfileikasnauður og lofar að fylgja honum til Chicago, kenna honum aðeins meira, en svo sé hann á eigin vegum.

Fyrir utan að vera sögð léleg hefur myndin verið gagnrýnd fyrir allt milli himins og jarðar, ekki síst það hvernig hún hanterar kynþáttamálin. Tveir hvítir gítarrúnkarar keppa um það sem í grunninn er auðvitað krúnan – framtíð blússins í lok tuttugustu aldar. Annar er að eltast við að stela tónlist svarta mannsins (týnda laginu, sem reynist ekki vera til), hinn er hreinræktaður metalrúnkari á tímum þegar það er einmitt þungarokkið sem er talið „tónlist djöfulsins“ og sá sem vinnur dregur fram evrópskan jóker, Paganini, til að trompa. Jóker, sem vel að merkja er, einsog Robert Johnson, talinn hafa verið skjólstæðingur andskotans (en í hans tilfelli var það víst mamma hans sem seldi sálina).

Þetta eru nokkur lög af symbólík og fólki er alveg vorkunn að vilja afskrifa þetta sem þvæling. Ég er hins vegar svolítið skotinn í þessu öllu saman og þetta er hvað sem öðru líður lýsandi fyrir ákveðna tilvistarkreppu í blústónlist um miðjan níunda áratuginn þegar flestir gömlu svörtu blúsararnir eru að hverfa af sjónarsviðinu og hvítir blúsarar að taka við. Þeir höfðu auðvitað verið með frá því í upphafi sjöunda áratugarins en einhvern veginn lent í öðru boxi – verið kallaðir blúsrokkarar einsog Clapton eða folk-tónlistarmenn einsog Dylan eða eitthvað annað eftir atvikum. Það er ekki fyrren með Stevie Ray Vaughan og Texas Flood sem hvítir tónlistarmenn fara að hala inn Handy-verðlaunum sem dæmi – og eru ekki kallaðir neitt annað en blúsarar.

Þá má ekki gleyma því að þeir Butler og Martone eru fyrst og fremst skjólstæðingar lærimeistara sinna – strengjabrúður, skylmingaþrælar, undirsátar svartra karlmanna. Martone er í upphafi fulltrúi gamla blússins en fyrir tilstilli Browns kaupir hann sér telecaster („Muddy Waters invented electricity“ er ein af betri línum myndarinnar), pignose magnara og slide. Butler er fulltrúi einhverrar úrkynjunar sem er talin – af blúshausum – vera sálarlaus, en á vegum Legba (sem er afrískur flærðaguð – sem hafði hugsanlega áhrif á djöflasýn afrísk-amerískra þræla, en er alls ekki heiti sem hefur verið neinum tamt á þeim tíma, einsog er látið í myndinni). Butler hefur farið styttri leiðina – selt sálu sína – og þótt maður geti gert grín að því að tveggja vikna ferðalag um Mississippi eigi að kenna sautján ára stráklingi allt um innstu vé blámans þá er áherslan að minnsta kosti á það sem Brown kallar „mileage“, á sjálfa reynsluna, að maður fái ekkert án þess að vinna fyrir því. Sem er auðvitað líka sannleikurinn um Robert Johnson – í stað þess að selja sálu sína fór hann í læri hjá Ike Zimmerman og æfði sig linnulaust og laug því svo af og til að hann hefði gert samning við andskotann. Það var svokallað markaðstrix.

Ef að Jack Butler er Eddie Van Halen þá er Eugene Martone Stevie Ray. En í þeirri sögn gleymist auðvitað að það voru líka svartir blúsarar að gera það gott á þessum tíma – framtíðin var ekki bara hvít – ekki síst Robert Cray.  Þegar lokasenan var tekin upp var hún líka miklu lengri og innihélt undanúrslit þar sem svartur blúsmaður tapar fyrir Jack Butler áður en Martone kemur á sviðið – og það er líka til útgáfa í handriti þar sem Jack Butler var svartur. En framleiðendur myndarinnar ráku sig strax á ómöguleikann: það var ekki hægt að gera mynd þar sem hvítur strákur vinnur svartan blúsmann. Hvorki Butler né Martone gátu unnið svartan mann. Það var einfaldlega of viðkvæmt pólitískt, þótt það væri sirka það sem var að gerast á vinsældalistunum.

Eitt af vandamálunum við Robert Cray er að hann er í einhverjum skilningi miklu hvítari en Stevie Ray – hann er meira adult contemporary, meiri lyftutónlist. Nú eru sannarlega til upptökur með Cray þar sem skortir ekki skítinn en frami hans byggir samt mjög á öðrum og ómþýðari tónum. Cray og Stevie Ray voru hins vegar báðir aðlaðir af sér eldri blúsmönnum – Albert King tók Stevie Ray upp á sína arma og Albert Collins tók Robert Cray upp á sína.


Ef maður skoðar Crossroads sem einhvers konar táknsögu fyrir framtíð blússins er líka eitt og annað fleira sem sker í augun. Í fyrsta lagi eru auðvitað engar konur neins staðar – þrátt fyrir að t.d. Koko Taylor hafi gert það gott á þessum árum. Í öðru lagi – og kannski fylgist þetta einmitt að – er ekkert sungið í framtíð blússins. Willie Brown syngur eitt lag í myndinni – sem Joe Seneca samdi með Ry Cooder – en Eugene syngur ekki píp og Jack Butler segir ekki einu sinni orð. Blúsmenn fortíðarinnar sem vísað er til – Robert, Son House, Muddy og bæði hinn sagnfræðilega kórrétti Willie Brown og Willie Brown myndarinnar – eru hins vegar allir söngvarar og í einhverjum tilvikum (Son og Muddy) að mörgu leyti betri söngvarar en þeir eru gítarleikarar. Stevie Ray og Robert Cray voru báðir söngvarar. Jack Butler og Eugene Martone eru hreinræktaðar gítarhetjur og eiga kannski meira skylt við Joe Bonamassa og Eric Gales – sem þrátt fyrir að syngja eru varla söngvarar nema í algeru aukastarfi. Þá verður manni hugsað til þess sem Muddy Waters sagði á sínum tíma um hvíta blúsara að þeir gætu spilað blús á gítar en þeir gætu ekki sungið (eða vókalíserað, sagði hann) blúsinn.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png