top of page

Jólablús

Ég er svolítið blúsaður. Það er reyndar á dagskránni að dusta fljótlega rykið af blúsblogginu (sem verður þá bara hér innanum) enda sagt að ekkert lækni blús einsog blús. Aðra hverja nótt sef ég sama og ekkert og þá næstu ligg ég gersamlega rotaður. Það var mikið að gera í síðustu viku og núna er allt pollrólegt. Að vísu er ég að fara suður á morgun í upplestra og svo aftur á Flateyri á laugardag. Í næstu viku þarf ég svo að klára að skipuleggja útgáfuhófið mitt – sem á að binda endi á jólabókaflóðshasarinn fyrir mína parta.


Einsog mér finnst gaman og endurnærandi og inspírerandi að tala um bókmenntir og hitta lesendur og aðra höfunda – sem margir eru góðir vinir mínir, og ég hitti alltof sjaldan – þá setur þessi athyglis- og upphefðarkeppni mig svolítið á hliðina. Ég hef aldrei átt í heilbrigðu sambandi við hégómann í sjálfum mér og veit ekki einu sinni hvernig slíkt samband ætti að líta út.


Ég íhugaði það fyrr í ár að gera bara ekkert í jólabókaflóðinu – best væri að fara bara úr landi og skilja símann eftir. En beilaði á því með þeirri afsökun að forlagið yrði sennilega brjálað ef ég gæfi bara skít í þetta allt saman, en sannleikurinn er sennilega líka sá að ég væri líklegur til að eyða þá bara jólunum í að naga mig í hnúana.


Það sem ég geri yfirleitt til að vinna bug á þessum blús (sem eltir mig alltaf svolítið) er að hlaupa og stunda jóga – og spila blús. Hlaupin og jógað eru úr myndinni út af hnénu (slitið krossband) – ég get farið á þrekhjól, en á í mestu vandræðum með að staulast í ræktina í þessari færð, það er flughált og snjólag yfir – og hef haft undarlega litla eirð í mér til að spila upp á síðkastið.


Á eftir fer ég í fyrstu sjúkraþjálfunina – og við Nadja ætlum að borða tvö í kvöld. Svo ætla ég að reyna að eyða deginum í að lesa bara. Sennilega er það mest þreytan sem er að leika mig svona. Og hnéð.


Jólablús dagsins á þessum fyrsta þriðjudegi í aðventu er með Butterbeans & Susie.




natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page