Jarðsprengjubeltið

Í sínum fullkomnasta móð er listaverk tól til að sprengja í manni heilann. Þess vegna finnst manni stundum mikilvægt að það ætli sér ekkert trivial – af því stafar eðlislægur viðbjóður sumra á því sem kallast léttmeti. Að verkið sé þarna á fölskum forsendum, klætt einsog það ætli að sprengja í manni heilann, en svo sé það bara eitthvað til að dilla sér við. Nú er í sjálfu sér nauðsynlegt að maður hafi eitthvað til að dilla sér við, við skulum ekki gleyma því. Ef allt ætlaði að sprengja í manni heilann þá væri ekkert eftir af honum. Og dillmakerí er líka heiðarleg og falleg forsenda og því er mikilvægt að standa vörð um léttmetið, að leyfa snobbinu ekki að taka yfir – að hrinda sínískum viðbjóðnum af sér og dansa.

Auglýsingar eru einhvers konar metafóra fyrir svívirðulegustu virkni kapítalismans: að eigna sér alla skapaða hluti. Þar er eitthvað fallegt og gott tekið og parað saman við eitthvað sem þarfnast fegurðar og gæða til þess að fólkið sem selur fegurðar- og gæðasnauðu hlutina geti átt heima í stærri húsum og keyrt fleiri bíla. Byltingin er mökuð gallabuxum, frelsið makað farsímum, nautnin mökuð bleiku slími, upplýsingin mökuð viðstöðulausri tækjaendurnýjun, ástin mökuð – ja, ástin liggur eiginlega með öllum og sýnir aldrei nein heilindi. Ekki í auglýsingum, að minnsta kosti.

Það er ekki auðvelt að koma í veg fyrir að listaverk – sem eru auk allra sprenginga einhvers konar verklegar æfingar í byltingu, frelsi, nautn, upplýsingu, ást o.s.frv. – séu notuð til að selja vöru, hvort sem það er klósettpappír eða aðstoð við fjárfestingar. Og einskis að ákveða hvort það sé gert nema listamannsins – hann „á’ etta og má ‘etta“, svo vitnað sé í gamlan íslenskan orðskvið. Og (nærri því) öll listaverk selja einhverja vöru – augljósast listamanninn sjálfan, þar á eftir forlag eða gallerí, umboðsmann, klíku (vini listamannsins), tiltekna heimspeki eða pólitík og svo framvegis.

Það breytir svo aftur engu um að það er þarna lína – einhvers staðar, óljós og máð – og kannski er hollt að einhver stigi á hana reglulega, þótt það sé ekki nema bara til að minna okkur hin á hvar jarðsprengjubeltið byrjar. En það er sem sagt hollara fyrir okkur en þann sem stígur á jarðsprengjuna. Það er hætt við að hann sprengi í sjálfum sér heilann.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png