Jólagjöf Schrödingers

Ég átti jólagjöf sem týndist. Nema kannski átti ég hana aldrei, því hún týndist áður en ég fékk hana í hendurnar. Þetta var stóra gjöf ársins. Makagjöfin, sem tekur við af foreldragjöfinni þegar maður er loksins genginn út. En hver ætli eigi hana þá? Ég fékk að vita hver hún var, eða átti að verða, í hádeginu í dag eftir að hafa haldið í mér andanum frá því á aðfangadagskvöld. Og hún er endurheimtanleg. Hún hefur ekki glatast. Hún er – eða verður – í formi upplifunar sem ég mun upplifa í félagsskap við þann sem gaf hana. Það er að segja makann. Sem á þá hálfa gjöfina. Eða mun eiga hana þegar hún hefur að fullu endurheimst. Ég er löngu búinn að missa sjónar á því hvar þessi gjöf er eða hver á hana, hvort hún hefur verið gefin eða týnst eða endurheimst, eða hvort hún er ekki einu sinni til enn. En ég held að ég fái hana samt, mér sýnist það.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png