top of page

Hégómi verkalýðsins


Það er algengt viðkvæði þegar ég tala við kollega mína að verkalýðsbaráttan hjá RSÍ sé alltof slök. Gömlu prentbókasamningarnir séu að mörgu leyti lélegir – engin ákvæði um fyrirframgreiðslu (lágmarksfjárfestingu útgefanda í bók) og engin skylda til að fylgja „rammasamningnum“ svo sum forlög láta höfunda sína jafnvel greiða sjálfa fyrir útgáfu. Nýju samningarnir – fyrir rafbækur og hljóðbækur – eru hlægilegir og ég held það séu allir sammála um það. Fólk bara ypptir öxlum og segir að það sé ekkert hægt að gera. Listamannalaunin eru skipulögð þannig að starfsöryggi er ekkert. Og svo framvegis.


Ég gæti sjálfur bætt við að helstu hlunnindi félagsins, einsog hundódýrir leikhúsmiðar ef maður kaupir miðann samdægurs, geri landsbyggðarrottu lítið gagn. Og ferðastyrkir félagsins eru bara til kynninga á verkum erlendis. Ég get sem sagt fengið styrk til að fara frá Reykjavík til London eða Kaupmannahafnar en ekki frá Ísafirði til Reykjavíkur og er þó slíkt ferðalag ekki endilega ódýrara. Og ef ég fæ styrkinn til að fara erlendis þarf ég samt að koma mér sjálfur suður – aðrar millilendingar, t.d. í London á leiðinni til Manchester, teljast til „ferðalagsins“. RSÍ er mikið Reykjavíkurfélag.


Í rithöfundastétt er líka fólk úr ýmsum „stéttum“ – og með mjög misjafnar tekjur. Alveg frá fólki sem hefur mjög miklar tekjur af bókum sínum yfir í fólk sem sennilega kemur yfirleitt út í mínus. Sumir hafa líka miklar tekjur af einhverju öðru og þurfa ekki velgengni á bókamarkaði til að lifa af. Aðrir hafa engar tekjur af neinu og eru bara í endalausu harki. Sagan segir okkur að það séu ekki endilega ómerkilegustu höfundarnir, vel að merkja. Og þótt það sé lítið starfsöryggi í listamannalaununum (það er einsog að vera með tveggja vikna uppsagnarfrest – og stundum er fólk ekki rekið heldur fært niður í hálf laun eða jafnvel fjórðung) þá er enn minna starfsöryggi án þeirra, eðli málsins samkvæmt.


Ég hef oft rætt við kollega mína, sérstaklega meðal yngri ljóðskálda (þegar ég var yngra ljóðskáld sjálfur), um þennan undarlega veruleika þegar manni er boðið á einhverja ótrúlega fína ljóðahátíð einhvers staðar, þar sem allar máltíðir eru gullúðað risotto á Michelinveitingastöðum og áfengið allt dýrasta kampavín – en á milli viðburða á maður kannski varla fyrir kaffibolla ef maður þarf að borga hann sjálfur. Jafnvel fátækustu rithöfundar fá stundum að vera dúkkulísur í húsum hinna auðugu.


Ég veit ekki hvort ég er að lýsa sameiginlegum hagsmunum rithöfunda eða ólíkum. Að mörgu leyti er þetta auðvitað ekki heldur nein stétt. Ekki nema í takmörkuðum skilningi.


En það er í sjálfu sér áhugavert að þessu verkalýðsfélagi,af öllum, sem er meira og minna mannað af fólki með narsissískar persónutruflanir – fólki sem beinlínis hefur það að atvinnu að láta dýrka sig hömlulaust – sé stýrt af fólki sem getur skilið narsissísku persónutruflanirnar sínar eftir heima.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page