Hvimleiður dauði og annarra brauð

Nú fer hinn skrúðbúni Ásmundur Friðriksson fram á það við alþingi að skjalfest verði að harmur útlendinga sé ómerkilegri en okkar sem getum jafnvel rakið ættir okkar út í sveit. Gott og vel. Hin borgaralega hægristefna sem Ásmundur er fulltrúi fyrir á þingi hefur alltaf verið á þessari línu. Það er rétt og satt að mæta henni – það gera allir sem telja lífsgildi manna jafnt hvort sem þeir eru Íslendingar, Danir, Ítalir, Sýrlendingar, Albanir eða af öðru kvikindaslekti. En hún á ekki að koma neinum á óvart, þótt hún sé að vísu dálítið gamaldags.

Það sem mér finnst sýnu ógeðfelldara, ef satt skal segja, er þegar fólk úr forystu íslenskra vinstrimanna – fólk sem jafnvel sat í svonefndri vinstristjórn, sem gerði nákvæmlega ekkert í málefnum hælisleitenda eða flóttamanna, og hefur aldrei haft dug til að koma með neinar tillögur að nema smávægilegustu umbótum – ætlar að slá sig til riddara með því að sparka í téðan Ásmund, einsog einhver röflandi jaðarbullukollur í Sjálfstæðisflokknum sé vandamálið en ekki kerfið sem slíkt, kerfið sem það sjálft hefur verið aðili að um langa hríð.

Einhvern veginn virðist mér nefnilega sem vandamálið – hér heima og í Evrópu – sé ekki síst fólgið í því að þrátt fyrir að í vinstrikreðsum megi finna ýmsan fagurgalann þá séu viðbrögðin þeim megin alls ekkert mikið mannúðlegri en viðbrögð hægrimanna. Hægrimenn segja að halda verði útlendingum úti, vinstrimenn segja að hleypa verði hælisleitendum inn, en enginn gerir neitt. Öll hneykslunin yfir Ásmundum heimsins skiptir alls engu máli nema henni fylgi einhverjar athafnir.

Við erum alltaf að fást við því sem sagt er og einstaka sinnum því sem gert er en við fáumst alltof lítið við því sem hvorki er gert né sagt. Við hérna í lúxusnum getum alveg eytt vikunni í að rífast um hvort Ásmundur Friðriksson sé fasisti (sem hann er) eða hvort Hermenn Óðins sé lúserar (sem þeir eru); en á meðan deyr fólk vegna þess að við erum ekki að gera neitt. Og það er voða hvimleitt.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png