Hversdagsraunir í covidhúsi

Það fyrsta sem gerðist eftir síðustu færslu var að Nadja hringdi og sagði að við værum víst ekki sloppin úr sóttkví. Hún hafði hringt aftur í 1700 og fengið þveröfugar upplýsingar við það þegar hún hringdi fyrst. Ég var, einsog þið kannski munið, nýbúinn að sannfæra Heilsuveru um að við værum ekki í sóttkví. Nema hvað, ég dreif mig þá heim, sendi vinkonu Ainoar heim til sín, og svo settumst við Nadja niður og dæstum svolítið. Ég held að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem Aino virkaði líka uppgefin einsog bara fullorðið fólk getur verið uppgefið – frekar en til dæmis bara í uppnámi eða reið eða grátandi. Bara svona þreytt á þessu öllu saman. Og vel að merkja ekki bara reglunum og veirunni, heldur eilífu hringlinu. Við ákváðum að í ljósi allra þessara misvísandi skilaboða væri best að hringja bara beint í sóttvarnalækni. Ekki Þórólf, vel að merkja, heldur „Þórólf Vestfjarða“ – Súsönnu. Hún er eðli málsins samkvæmt mjög bissí og það tók tvær-þrjár klukkustundir að ná í hana, sem er sennilega mjög lítið miðað við aðstæður og nokkur forréttindi að geta bara komist í beint samband. Nadja útlistaði fyrir henni aðstæðurnar, þáði frekari hollráð, og Súsanna hleypti okkur þremenningunum aftur út í lífið.

Í samræmi við hollráð um að gæta sérstaklega að sameiginlegum rýmum með covidsjúklingnum ákváðum við að færa okkur öll niður á neðri hæðina, en áður deildum við tveimur fermetrum á efri hæðinni – sem við nýttum bara til að komast úr herbergjunum okkar niður og Aram gekk bara yfir til að komast á klósettið uppi. Við settum upp dýnur í stofunni og sváfum þar þrjú fyrstu nóttina en svo fékk Aino bara að fara til ömmu sinnar og afa og hefur verið þar síðan (en skýst hingað þegar hana langar – þetta er bara í næstu götu).

Eftir vandræðin með bólusetninguna – og ítrekaðar beiðnir um að vera þolinmóður og bíða eftir að í mig yrði hóað – var fáránlega létt að fá svo bólusetningu. Þegar ég hringdi á heilsugæsluna til að komast á úthringilista – sem mér fannst frekt af mér, eftir að hafa verið beðinn svona oft að hafa mig hægan – var mér bara sagt glaðlega að mæta klukkan 13. Þegar ég mætti var ég beðinn um kennitölu og sprautaður. Einsog ekkert væri sjálfsagðara. Ég þurfti að vísu að bíða í korter á meðan nanóbottarnir voru að koma sér fyrir. Svo fór ég bara heim og hlóð niður Office-pakkanum og ég hef aldrei verið sáttari.

Á föstudagsmorgun kom dótið okkar frá Svíþjóð. Eitt og hálft bretti af kössum. Það kom mér á óvart – og var ekki raunin þegar við fluttum bretti með sama fyrirtæki fyrir 6 árum – að í fyrsta lagi virtist Samskip á Íslandi bara gera ráð fyrir flutningi til Reykjavíkur, þótt ég hefði pantað flutning frá Karlsgötu 24a til Tangagötu 22 á Ísafirði. Samskip í Svíþjóð sótti dótið til okkar á Karlsgötuna en þegar ég spurði eftir tollafgreiðslu hvenær við mættum eiga von á dótinu vestur var mér tjáð að ég þyrfti að greiða sérstaklega fyrir það. Sem er alveg einstaklega íslenskt – þessi sveitalubbaháttur sem skilur borgríki frá þjóð. Svo þegar dótið var komið til Ísafjarðar þurfti ég að greiða sérstaklega fyrir að láta flytja það heim að húsi með lyftara. Við þetta hækkaði heildarverðið um 20%. Ég gæti verið að ljúga því en ég er eiginlega alveg viss um að bæði flutningurinn vestur og flutningur heim að húsi hafi verið innifalinn í tilboðinu þegar við gerðum þetta 2015.

Það átti að fara að rigna – gerði það reyndar aldrei – svo ég byrjaði strax að bera kassana í hús, þar sem þeim var staflað innanum dýnur og gamla kassa úr bílskúrnum. Ég veit ekki hvort orð fá almennilega lýst óreiðunni hérna á neðri hæðinni. Við þurftum og vildum finna ýmislegt úr kössunum – ekki síst föt fyrir Aram til að taka með sér í skólabúðir á Reykjum.

Okkur var tjáð að hann ætti að fara í tíu daga einangrun og sáum þar með fyrir okkur að hann slyppi á sunnudagskvöldið 22. ágúst – hafandi byrjað í einangrun fimmtudaginn 12. ágúst fyrir kvöldmat. Enda hefði hann verið einkennalaus allan tímann. Og næði þá að fara með skólafélögum sínum í rútunni á Reyki. En eftir alls konar reynslu af upplýsingagjöf og lögun þessara reglna – sem eru gjarnan námundaðar vel upp (þannig var 5 daga ferðasóttkvíin mín í raun 6 daga – af því maður fer í test á fimmta degi og fær oft ekki úr því fyrren þann sjötta) – vorum við í sjálfu sér alltaf skeptísk á að það hæfist. Hann fór auðvitað ekki í test fyrren á föstudagsmorguninn. Það var líka ekki hlaupið að því að fá úr þessu skorið, okkur var vísað á neyðarnúmer barnaspítalans, sem við vorum eðlilega ekki áfjáð í að nota í jafn hversdagslegar fyrirspurnir.

Ég ákvað í sjálfu sér strax að þótt hann missti af rútunni myndi ég keyra hann á Reyki. Ég get gert mér erindi til Reykjavíkur í leiðinni (þótt það sé í sjálfu sér ekki í leiðinni). Og við sáum fyrir okkur að jafnvel þótt við þyrftum að bíða þar til 10 sólarhringar væru liðnir frá því að hann fengi niðurstöðu gætum við verið komnir á Reyki á mánudagskvöldið. En nei, þá er námundað enn meira upp – og niðurstaðan, sem fékkst í gær þegar við hringdum í neyðarnúmerið, sú að hann sleppi á miðnætti í kvöld – með þeim fyrirvara að þetta yrði skoðað betur í dag, en það væru litlar líkur að sú niðurstaða yrði önnur. Valið stóð þá á milli þess að keyra á morgun og láta hann missa af tveimur dögum eða keyra í nótt. Ég hafði samband við skólann og spurði hvort það gæti einhver hleypt okkur inn ef við kæmum klukkan fimm að morgni – sem myndi henta mér, af því ég þyrfti annað hvort að keyra til baka eða til Reykjavíkur, til að komast í háttinn. Það reyndist alveg ómögulegt – sem ég skal viðurkenna að mér fannst frekar ferkantað, lítill vilji til þess að koma til móts við okkur – og okkur sagt að koma milli 7 og 8. Sem hefði þýtt að við legðum af stað 2-3 í nótt og ég kæmi til Reykjavíkur, væntanlega lítið sem ekkert sofinn, upp úr hádegi.

En svo var niðurstaðan nú í morgunsárið önnur, eftir yfirlegu á barnaspítalanum, og við megum leggja af stað klukkan 13. Ég þarf því að drífa mig að panta gistingu einhvers staðar og pakka. Svo er bara la go.

3 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png