top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg

Hugleiðingar úr ruslabílnum

Ef ég á að vera alveg heiðarlegur finnst mér ég oft vera hálfgerður ónytjungur. Segi ég í tilefni af umræðu um listamannalaun – sem er farin að koma upp tvisvar á ári núna, í stað þess að koma einu sinni. Nú kemur hún fyrst í september þegar listamennirnir eru að sækja um – pirraðir á ferlinu – og svo aftur janúar þegar er úthlutað og harðkjarnafylgi Miðflokksins og verstu frjálshyggjupottormarnir í Sjálfstæðisflokknum fara á stjá með sínar ígrunduðu athugasemdir.


En það sem sagt koma dagar þar sem ég geri ekkert mjög margt – fer seint á fætur og ráfa svo um, eyði kannski hræðilega miklum tíma í að skrolla í símanum eða bara fer út að skokka eða í göngutúr eða gúgla einhverju spennandi. Blogga blogg. Suma daga sit ég bara og les. Bara eitthvað – einhverja skáldsögu til dæmis. Eða New York Review of Books. Stundum meira að segja ljóð. Allan daginn. Og svo þegar „vinnudeginum“ lýkur fer ég að sinna heimilisskyldunum – einu sinni var það að sækja börn á leikskóla en nú er það bara að fara í Nettó, kaupa í matinn og gefa skrílnum að éta. Svo spyr fólk hvernig „hafi verið í vinnunni“ og hverju á ég þá að svara? Að ég hafi rekist á áhugaverða myndlíkingu í bók sem er búið að skrifa! Er það ekki svona einsog ef ruslakallinn segðist hafa gert það eitt í vinnunni að uppgötva að í gær hafi verið tæmd tunna í næsta firði, og það sé þar með óþarfi að tæma hana strax aftur.


Og svo koma auðvitað dagar líka þar sem allt er á fullu og þá líður mér ekki einsog ónytjungi. Og ef ég lít yfir „heildarverkin“ sýnist mér í sjálfu sér að ég hafi oftar verið að vinna í vinnunni en að slæpast. En það breytir bara engu um hitt að stundum er ég bara að klóra mér í rassinum að bíða eftir að eitthvað gerist – sem ég veit að ég get ekki rekið á eftir – og ef ég mæti öskubílnum þar sem fólk verður að vinna alla daga jafnt, sömu verkin, alveg sama hvernig þau eru stemmd, fæ ég bullandi samviskubit. Ég hef meira að segja skrifað ljóð um þetta samviskubit (það er í Óratorreki).


Það eina sem ég hef mér til afsökunar er að ég sver að mér líður miklu betur þegar ég er á fullu. Jú og reyndar var ég fyrir tilviljun líka í vörutalningu í Bónus á síðustu helgi (það er ekkert mjög löng saga en ég ætla samt ekkert að segja hana). Það hlýtur að telja eitthvað fyrir karmað. Já og svo sagði Sjón líka einu sinni í viðtali fyrir 100 árum að helmingur starfsins snerist um að slæpast á kaffihúsum og tala við fólk. Að taka eftir heiminum.


Annars gæti ég verið að skrifa umsóknina. Umsóknarfresturinn er til 1. október og þetta tekur alltaf smá stund – ekki mánuð samt – þótt ég geti ekki tekið undir með kollegum mínum að þetta sé eitthvað ægilega erfitt. Og það er ekki heldur mín reynsla að meðferðin á umsóknunum sé mjög ferköntuð – þótt ég sé í grunninn sammála að textinn sem umlykur þetta allt sé fremur stofnanalegur. Ég sé bara ekki að það komi mikið að sök. Og ég veit ekki heldur hvernig hann ætti að vera öðruvísi? Ætti nefndin að biðja rithöfunda um að fara með himinskautum – dúndra út nokkrum ódauðlegum myndlíkingum um eðli sannleikans og helstu breyskleika mannlegs eðlis? Það væri í sjálfu sér fyndið ef það væri spurt þannig og myndi áreiðanlega litlu breyta um niðurstöðuna. Þetta eru huglæg fræði og miklu fleiri faktorar að störfum kæmust nokkru sinni fyrir í einhverri matskýrslu.


Hér samt er tillaga að breyttum spurningum, ef fara á í róttækar breytingar.


Lýstu ferðalagi fiðrildis milli tveggja blóma (200 orð, vægi 15%).

Yrktu bundið ljóð í hætti að eigin vali (ekki færri en 10 línur, 20%).

Skrifaðu samtal þar sem samfélagsleg staða mælenda verður ljós án þess að hún sé tekin fram (200 orð, vægi 15%).

Yrktu nútímaljóð, módernískt eða framúrstefnu (frjáls lengd, 20%).

Deleraðu frjálst um eðli fólks (ath. ekki eðlu-fólk) á tímum hátækni og samfélagsmiðla (900 orð, 15%, má nota gervigreind).

Skrifaðu stutta dæmisögu um andríkan mann sem þarf að eiga við skrifræðisbákn. Plús ef hann þarf að skila inn ferkantaðri umsókn og er það mjög á móti skapi. (300 orð, vægi 15%)


Ekki gleyma að merkja blaðið með nafni og bekk.


***


Ég rak augun í að hún er líka hafin aftur umræðan um hvort gera megi grín að hræðilegum hlutum. Það er í sjálfu sér ekki einföld umræða – það skiptir ekki bara máli hvernig grínið er heldur líka hver flytur það (ég las fyrir löngu ritgerð um húmor og helförina og komst að því að það var mikið um brandara í útrýmingarbúðunum – og að fórnarlömbin sögðu sömu brandara og kvalararnir, en þá höfðu þeir augljóslega aðra merkingu og annan tilgang). En mér finnst í öllu falli fráleitt að ræða þetta út frá þeim forsendum að maður geti bara bent og sagt „hann gerði grín að nauðgun“ og sagt að það sé þess vegna siðferðislega rangt – allt grín um harm sé rangt – einmitt vegna þess að grín er líka listform, grín er líka tilraun til þess að setja hlutina í listrænt og siðferðislegt samhengi, sem er kraftmesta aðferð sem við eigum til þess að skilja okkur sjálf, skilja aðra og skilja þjóðfélagið í kringum okkur. Og við þurfum að skilja harm, ofbeldi, hrottaskap, tráma.


Það þýðir ekki að grín geti ekki verið ósmekklegt einsog önnur list.


En ég spyr mig líka, ef maður tekur þessa stefnu að fordæma grín um hræðilega hluti, hvers vegna (eða hvort) það megi þá gera „drama“ eða „hrylling“ um hræðilega hluti – því drama og hryllingur eru líka oft fyrst og fremst afþreying, og alls engin ástæða til þess að ætla að það veki með okkur göfugri tilfinningar eða hafi göfugri tilgang en grín. Það fer bara eftir verkinu. Mér þykir oft hræðilega smekklaust þegar fólk t.d. treður inn nauðgun í dramatískt verk í þeim einum tilgangi að búa til ofsafengna samúð – að kreista út tár lesandans. Ég man ekki hver það var sem sagði það en það var áreiðanlega einhver rithöfundur í einhverjum þætti á BBC Books sem sagði að versta synd sem rithöfundur gæti framið væri að biðja lesandann um að gráta án þess að vinna fyrir því fyrst. Og nauðganir og þess lags hrottaskapur, sérstaklega gegn minnimáttar, er ódýrasta leiðin til þess að heimta slík tár. Sem þýðir ekki að hrottaskapur eigi ekki heima í drama eða hryllingi – það fer bara eftir meðferðinni í verkinu.


Ég held það sé síðan að mörgu leyti persónubundið hvað ofbjóði manni. Ég þoli t.d. ágætlega Persónulega trúbadorinn – eða þannig, ég þjáist yfir honum, hann er hræðilegur, persónulegi trúbadúrinn ofbýður mér, en grínið um persónulega trúbadúrinn gerir það ekki, Fóstbræður gera það ekki, Sigurjón Kjartansson gerir það ekki.


Hins vegar ofbýður mér gjarnan áhrifavaldar sem standast ekki freistinguna að gera sjálfa sig og sína samúð að miðpunkti almenningsathyglinnar í einum og öllum harmleikjum. Mér finnst það smekklaust. En slíkt virðist vera öðrum meira að skapi og ég get alveg unnt þeim þess. Ég er hins vegar ekki viss um að það standist „tímans tönn“. Ekki að það skipti neinu máli – það sem skiptir máli er heimurinn núna.

Comments


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page