Hiti, hor og bóklestur


Ein af fáum bókum sem ég hef lesið á sænsku nýlega er nýjasta ljóðasafn Idu Linde, Karons Tunnelbana. Hún er æði.

Fjórði dagur af covid. Fyrstu tvo dagana var ég verulega slappur, með hita og hor. Og hor raunar af því tagi að mig sveið undan honum, einsog hann væri gallsúr, sem ég kannast ekki við að hafa upplifað áður. Mæði angraði mig líka og gerir enn. Ég ætlaði að syngja lagstúf með Aino í gær og kom mér á óvart með að vera orðinn andstuttur í öllum erindum.


Í gær vaknaði ég bærilega hress og hélt jafnvel að þessu væri svo gott sem lokið. Ákvað eftir morgunmat að gera lasagna úr afgöngum frá þriðjudeginum og var góður fram í svona mitt lasagna – einhvern tíma eftir að ég lauk við béchamelsósuna og áður en ég byrjaði að raða þessu saman fann ég höfuðverkinn sækja að mér aftur. Lá svo flatur eftir hádegi.


Ljós- og hljóðnæmi hafa plagað mig en það er ekki alveg nýtt. Ég má ekkert verða slappur lengur eða þreytast án þess. Ligg í myrkvuðum herbergjum og þegi.


Allt held ég að þetta sé bara eftir bókinni. Var aftur góður í morgun og er ekki jafn góður lengur en þetta horfir allt augljóslega til betri vegar. Ætli mér verði ekki óhætt á ról án þess að slá niður á laugardag. Má eiginlega ekki seinna vera heldur af því Nadja fer til Frakklands á sunnudag með menntaskólabekkinn sinn. Á svipaðar slóðir og ég var á um daginn – hún kemur meira að segja við einn dag í Nantes en er annars mest í París og Sables D'Olonnes.


Ég ligg í bókum. Stærsta upplifunin í ár er sennilega Sælir eru einfaldir eftir Gunnar Gunnarsson, sem ég hafði aldrei lesið – varð tíundað hér einhvers staðar um þá fordóma sem ég hafði fyrir Gunnari og eru fyrir bí. Nú er ég gegnheill Gunnarsmaður. Annars eru þetta mikið ísfirskar bókmenntir. Auk þeirra sem hefur verið gert skil hér má nefna Sjöunda soninn eftir Árna Þórarinsson, Brennumenn Hagalíns, Dauðamenn Njarðar, Hansdætur Bennýjar Sif, Flótta Sindra Freyssonar (framhaldið er næst), Huldu og Virkið í Vestri eftir Finnboga Hermanns, Mömmu Blues eftir Normu E. Samúelsdóttur og fleira. Sú síðastnefnda og Húsið eftir Hörpu Jónsdóttur eru áreiðanlega stystu bækur ársins, hingað til – og verða varla mikið styttri. Fjallkirkjan lengst og Feigð Stefáns Mána næstlengst. Við höldum lestrardagbók fjölskyldan og ég hef víst lesið 63 bækur frá áramótum. Eina fyrir hvern þingmann. Ef meðallengdin er 200 síður eru það ríflega 12.000 blaðsíður. Mér finnst maður mega grobba sig af minna.


Ætli maður lesi svo ekki minna þegar lægðunum fækkar og veikindin líða hjá? Ég er með eitt og annað á listanum fyrir næstu daga. Langar að lesa meiri Óskar Aðalstein og svo Borgarættina eftir Gunnar Gunnarsson, sem ég á eina eftir af stóru skáldsögunum hans. Svo er spurning hvort ég lesi Sturla í Vogum áður en ég les Sjálfstætt fólk – sem ég hlýt að gera á endanum (ég las í kringum tvítugt nánast allt sem HKL skrifaði nema Sjálfstætt fólk, sem ég skildi viljandi eftir til að eiga til góða, og á hana enn, nema ég hafi gert það af því ég var bara kominn með nóg af HKL og HKL þráhyggjum, sem er líka hugsanlegt). Ég veit ekki hvort ég fer í Guðmund Inga og Steingerði Guðmunds – ég er varla læs á kvæði, ef ég á að segja alveg einsog er. Landnám Jóns Yngva – ævisaga Gunnars – telst óhikað til ísfirskra bókmennta. Dans í lokuðu herbergi, eftir Elísabetu Jökuls, var líka (held ég) skrifuð á Ísafirði. Hvort heldur sem er á Elísabet sterk tengsl við Ísafjörð. Glass og Örfok eftir Eyvind Pétur á ég báðar eftir og gæti hugsað mér að endurlesa Landið handan fjarskans og Þar sem blómið vex og vatnið fellur.


Það er allavega af nógu að taka.

32 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png