Hinn myrki fönix

Það skemmtilega við að blogga frá og um Hondúras er að ef ég blogga ekki í nokkra daga – þrjá núna – fer fólk að gera ráð fyrir að ég hafi verið skotinn. Eða í það minnsta tekinn til fanga – haldið gegn lausnargjaldi. Þetta eykur eftirspurnina eftir skrifum mínum mikið. Ég þarf að finna einhverja leið til að beisla þessa eftirspurn á bókamarkaði.

***

Fyrsta áratug þessarar aldar vísuðu Bandaríkjamenn úr landi um fimmtíu þúsund Hondúrasbúum sem gerst höfðu sekir um glæpi, mikið til í tengslum við starfsemi glæpagengja. Þetta er um fimmtungur allra sem hefur verið vísað úr landi til Mið-Ameríku fyrir að brjóta lögin. Útflutningur upp á fimm þúsund gengismeðlimi á ári – bara til Hondúras. 

Trump vill meina að fara til Bandaríkjanna frá Mexíkó og Mið-Ameríku séu allt meira og minna glæpamenn (og laumu-múslimskir hryðjverkamenn) – en í raun væri sennilega eðlilegra að snúa þessu við, þótt flæðið sé auðvitað í báðar áttir. Gengin sem ráða lögum og lofum í Hondúras – MS-13 og Barrio 18 – eiga nefnilega uppruna sinn að rekja til Los Angeles og tök sín á Mið-Ameríkulöndunum að þakka þessum brottrekstri. Bandaríkjamenn – Bush II, Obama og nú Trump – hafa sturtað glæpamönnum yfir þessar þjóðir á þeirri forsendu að þar séu þeir uppurnir og glæpir þeirra séu á ábyrgð stjórnvaldanna sem gáfu út vegabréfið þeirra. En glæpamennirnir ólust upp á götum Los Angeles – verða sennilega til þar í tómarúminu og fátæktinni sem umlykur óskráða götustráka – þeir eru jafn miklir Bandaríkjamenn og Arnold Schwarzenegger eða Steve Jobs. Fólkið sem flýr til Bandaríkjanna í dag og síðustu tvo áratugina er ekki síst að flýja ofbeldi þessara bandarísku gengja – og afleiðingar þess. 

Auðvitað eru í dag margir hér í þessum gengjum sem hafa aldrei komið til Bandaríkjanna en þetta er nú samt sú leið sem gengin komu hingað – þetta eru bandarískar keðjur, Burger King og McDonalds glæpaheimsins, og hatrammir andstæðingar sérstaklega vegna átaka um Mið-Ameríkulöndin. Og þau bera ábyrgð á því brjálæðislegri morðtíðninni í Mið-Ameríku. Um það þarf ekki einu sinni að deila.  

San Pedro Sula gegnir hér sérstaklega stóru hlutverki enda fara næstum allir landflutningar frá S-Ameríku til N-Ameríku í gegnum borgina. Hún er hliðið sem skilur heimsálfurnar að. Flóttamenn, eiturlyf, vopn – allt fer þetta hér í gegn. 

***

Bandaríkjamenn bera sök á fleiru en bara gengjunum. Þeir hafa alltaf haft mikil undirtök á svæðinu. San Pedro Sula og nágrannasveitir voru yfirráðasvæði bananakapítalista frá síðustu áratugum nítjándu aldar. Samuel nokkur Zemuray stofnaði Cuyamel Fruit Company og varð síðar forstjóri United Fruit (sem í dag er þekkt sem Chiquita), hér hafði hann sínar höfuðstöðvar, og næstum því allt land í nágrenni borgarinnar var í eigu bandarískra auðjöfra – það þýddi lítið að ætla að vera bóndi þótt nóg væri af frjósömu landi, þá fékk maður bara einhverjar morðsveitir í hausinn. Þetta er gömul saga og ný. Þegar auðjöfrunum leist síðan ekki nógu vel á yfirvöld var líka hringt í málaliða og skipt um yfirvöld. Það var ekki nóg með að Hondúras væri sjálft alltaf undir hæl Pentagon – svoleiðis að það var lengi kallað „The Pentagon Republic“ – heldur var San Pedro Sula og svæðið í kring meira og minna fríríki á vegum bananakapítalistana. Hondúras og löndin í kring eru hin upprunalegu bananalýðveldi – hér ráða bara peningar og hafa alltaf gert (og mjög fáir hér eiga nokkra peninga).  

Nú hefði maður svo sem getað ímyndað sér að margt hefði breyst til hins betra á síðustu áratugum. En í raun þarf ekki að leita lengra aftur en til 2009 þegar herinn framkvæmdi valdarán eftir að Hondúrasbúar kusu yfir sig frjálslyndan, vinstrisinnaðan forseta sem hafði boðið sig fram til að hækka lágmarkslaun og byggja upp lágmarks velferðarkerfi. Í orði kveðnu mótmæltu bandarísk yfirvöld en þau voru fljót að samþykkja samt nýjar (og mjög vafasamar) kosningar sem framkvæmdar voru af hernum, veita Hondúras aukna hernaðaraðstoð, og vinna gegn því að velferðarforsetinn fengi aftur sitt lögmæta embætti. 

Þetta var ekki Trump – þetta var í valdatíð Obama og það var Hillary (surprise, surprise) sem vann að þessu. Ástæðan er einföld. Frá því stærsta bananatímabilinu lauk hefur Hondúras og sérstaklega San Pedro Sula verið einn stærsti fataframleiðandinn fyrir bandarískar keðjur – séð Bandaríkjamönnum fyrir nærri fimmtungi sinna klæða. Velferð fyrir hondúrska verkamenn hefði kostað þessar keðjur gríðarlegt fé – ekki bara vegna launahækkana heldur líka vegna loforða um fæðingarorlof og öryggi á vinnustöðum (Bandaríkjamenn hefðu þurft að borga meira fyrir fötin sín – eða, sem er ennþá líklegra, merkin hefðu orðið undir í samkeppni við þá sem framleiða föt sín annars staðar). Keðjurnar hótuðu að fara – hondúrskir valdamenn tóku til sinna ráða, hringdu í herinn, og létu Bandaríkjamenn svo kvitta upp á allt saman. Hillary – og Obama – voru handgengin Wall Street og gengu þeirra erinda. Niðurstaðan er sú að nú er fátæktin að gera út af við fólk – ofan í ofbeldið – og fólk fer ef það mögulega getur. Margir þeirra sem fara eru reyndar börn og mörg þeirra eru að flýja óvalkvæða þátttöku í bandarísku gengjunum. Og fátækt. Líkt og flestir flóttamenn í heiminum er fólkið að flýja margbrotna eymd – það er aldrei bara eitthvað eitt. 

***

Annars er ekki margt að frétta. Ég fór í annan leiðangur í bæinn – nú með Aram og sjálfur búinn að plotta leiðina. Það gekk bærilega. Erfiðast var að finna helvítis bílastæðið í kjallaranum þegar við komum til baka. Síðustu klukkustundir hef ég setið í skugganum úti við laug og skrifað. Ég er svolítið í því að berja af mér moskítóflugurnar og er aðeins bitinn – en blessunarlega eru þær ekki mjög margar, enda skilst mér að til að toppa alla aðra vitleysu hérna þá geysi dengue-pest í bænum – og hún berst með flugum. Beinbrunasótt heitir það á íslensku, segir Snara. Nadja segir að ef ég fái hita verði ég að fara á sjúkrahús. Ég þoli ekki sjúkrahús. 

Nadja er búinn að bóka eitthvað all-inclusive lúxus hótel fyrir okkur við ströndina á laugardaginn. Meira að segja frítt bús. Kostaði 40.000 kall en ég verð fljótur að drekka fyrir það. Ef það drepur ekki beinbrunasóttina þá gerir það ekkert. 

***

Megnið hér að ofan er skrifað í gær. Ég gleymdi bara að pósta.  Nú er fleira að frétta. Við Aram ætluðum að fara í bíó í dag – ég lofaði honum Dark Phoenix í bíóinu í City Mall – en í dag vöknum við upp við breytta stöðu. Í gær stöðvuðu mótmælendur og verkfallsmenn alla bensíntrukka sem áttu leið í bæinn og það var vitað að sennilega yrðu bensínstöðvarnar bara tómar í dag – og frekar lítið eftir á bílnum. En það hefði þá alltaf verið hægt að taka taxa (þar til þeir verða líka bensínlausir). Staðan er svipuð í höfuðstaðnum, Tegucigalpa, en eitthvað af bensíntrukkum komst þó þar í gegn. Hér eru allir þjóðvegir inn og út úr borginni lokaðir.

Í nótt geisuðu síðan óeirðir – brunnu eldar á sjö stöðum um borgina, þar af a.m.k. tveir alveg við City Mall. Þá hefur verið sagt frá því að lögreglan sé að skjóta (á) mótmælendur. Búðir opnuðu í morgun en þeim verður sennilega lokað fljótlega aftur. Meira en helmingur vinnandi fólks er heima í dag, fékk ég að vita frá mági mínum. Það er þá ekki bara að það sé nokkur hætta í því fólgin að fara niður í bæ heldur eru allar líkur á því að umferðin sé meira og minna stopp í allar áttir (hún er mikið stopp hvort sem er – en kannski ekki alveg pikkföst).

Þetta er vel að merkja ekkert undantekningaástand og við eigum ansi gott sem tökumst á við það hérna megin við múrinn á þessu víggirta samfélagi – í kristalsturninum. Og í þetta sinn eru það allavega góðu gaurarnir sem eru að skapa vesenið – því fylgja heilmikil skrílslæti og gengin sæta færis til að sinna sínum erindum í ringulreiðinni – en þetta er samt aflið sem er að reyna að breyta einhverju til hins betra hérna.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png