top of page

Hin fráu og trylltu


Ég er á fremur undarlegum stað andlega – hugurinn á mér er í skrifaðri bók sem ég hnika til millimetra fram og aftur en það sækja fáar nýjar hugmyndir að mér. Ég sit yfir handritinu alla daga milli þess sem ég laga til á skrifstofunni minni sem var orðin alger svínastía. Meðal þess sem ég hef gert var að hækka skrifborðið mitt en rak mig þá á að stóllinn minn er eiginlega of lágur núna. Þetta er eitt af vandamálunum við það að vera nærri tveir metrar á hæð – mér veitist oft erfitt að láta venjulega hluti passa mér. Ég er búinn að gúgla öllum mögulegum skrifstofustólum en hef ekkert pantað, ekkert keypt, aðallega af því að ódýra uppþvottavélin sem við keyptum fyrir átta árum gaf upp öndina (í annað sinn á einu ári) og við ákváðum að laga hana ekki aftur og kaupa ekki heldur aðra ódýra og endingarlélega, heldur dýra og endingargóða, og hún kostaði meira en fyrsti bíllinn minn. Og raunar líka helmingi meira en annar bíllinn minn (Nissan Pulsar, 88 módel, sem ég keypti fyrir fyrirframgreiðsluna af fyrstu skáldsögunni minni – ekki samt 1988). En þá erum við auðvitað að bera saman þákrónur og núkrónur, sem er ekki alveg sanngjarnt.


Sennilega læri ég bara að sitja í þessum lága stól í bili. Ég er líka að fara að ferma og þvælast um alls konar útlönd í fjölskylduerindum. Sem er auðvitað brjálæði í dýrtíðinni.


Annað sem ég keypti mér nýlega – á leiðinni heim frá Grikklandi – eru almennilegir gönguskór. Slíka hef ég aldrei átt og þeir voru auðvitað líka alltof dýrir. Ég hef verið að ganga þá til síðustu daga – aðallega ráfað upp í hlíð og gengið inn í fjörð, í Bónus, í gegnum hið umdeilda kríuvarp. Í dag ætlaði ég að gera eitthvað svipað en endaði á að hangsa við sjúkrarúm Smára vinar míns, sem varð fyrir því óhappi í síðustu viku að falla niður af svölum – sögurnar sem hann sagði af bráðamóttökunni í Reykjavík voru svo æsispennandi, raunar mesta furða að nokkur lifi það af í Reykjavík að fara á spítala, að ég komst ekki út fyrren það var kominn tími til að skunda heim og elda mat ofan í lýðinn og enginn tími til að fara út að ganga.


En þá kom í ljós að heima hjá mér yrði ekki horft á Succession í kvöld – einsog var planið – heldur haldinn bókaklúbbur. Sem kom mér ekki við – það eru engir karlar í þessum bókaklúbbi, raunar er ég ekki viss um að það séu neinir karlar í neinum bókaklúbbum eða saumaklúbbum eða gönguklúbbum eða neinu öðru skipulögðu félagsstarfi sem ég veit um, ef frá er talinn einn mjög fámennur klúbbur sem ég er í og fer á rúntinn svona sex sinnum á ári.


Ég notaði tækifærið og hélt til fjalla. Einn, að sjálfsögðu, einsog karlmanna er siður, og í nýju dýru gönguskónum mínum. Þegar ég var kominn upp í Naustahvilft settist ég niður og horfði út yfir fjörðinn. Sólin var að stinga sér bakvið Eyrarfjall og ró kominn yfir bæinn – sem var stappfullur af túristum í dag. Skipið var farið en á Sundahöfninni voru nokkrir bílar að spóla í hringi með miklum tilþrifum og gat ég ekki betur séð en minnstu munaði nokkrum sinnum að þeir skyllu hver á öðrum, á einhverjum öðrum bílum eða á gámum, og ekki gat ég vel skilið heldur, þaðan sem ég sat, hvernig þeir sáu í gegnum reykmökkinn sem stóð upp af bílunum. Og þá mundi ég alltíeinu að Fast and the Furious er í bíó.





natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page