Hin óskeikula nóbelsnefnd

Ég er alltaf að setja mér einhverjar reglur um það hvað ég eigi að blogga um og hvernig. Sem er auðvitað mjög undarlegt því hér gæti ég lifað án nokkurra reglna – og það var sannarlega sjarminn við bloggið þegar það var ennþá sjarmi yfir því að blogga. Fyrir svona 15 árum síðan. En svo eru reglurnar líka til að minna mig á að sinna þessu rými í heilanum á mér – þessum stað þar sem ég skrifa nánast án þess að hugsa, eða hugsa og skrifa jafn óðum (frekar en að hugsa mikið fyrirfram, skrifa svo, endurskrifa, biðja einhvern að lesa það yfir og så videre). Ginsberg sagði að ljóðlistin snerist um þetta reyndar, að grípa sjálfan sig við að hugsa.

Eitt af vandamálum mínum er hvað hugsanir mínar eru oft spíttmanískar núorðið. Ég veit aldrei hvort ég á að vera að hugsa um það sem er að gerast í fréttunum eða á twitter eða á facebook eða í bókinni minni eða bókinni sem ég er að lesa eða fjölskyldunni og alltaf þegar ég set mig í stellingar til að fara hugsa um eitthvað tiltekið er ég nánast samstundis byrjaður að hugsa um eitthvað annað. Ég settist t.d. niður – á fallegu kaffihúsi í York sem er furðulega tómt samt – með það fyrir augum að skrifa eitthvað um Handkenóbelinn. Meðal annars auðvitað að við ættum ekki að skrifa svona mikið um Handkenóbelinn af því þá gleymum við því að Tokarczuk fékk líka nóbelinn og það er ljótt gagnvart henni.

Kenning mín um nóbelinn fyrirfram rættist annars að mestu. Ég hélt því fram að nefndin myndi gefa verðlaunin prógressífri konu og umdeildum karli. Grínið var þá Margaret Atwood og Horace Engdahl (besti vinur Jean-Kladd sem nóbelsskandallinn snerist um). Eða Judith Butler og Ko Un. Það bjuggust flestir við því að nefndin myndi útnefna einhvern sem væri „góða fólkinu“ mjög að skapi – einhvern úr kúguðum minnihlutahópi utan Evrópu. En nóbelsnefndin hefur alltaf meðal annars starfað að því að undirstrika eigin guðdómleika og sjálfstæði – það er fagurfræði sjálfra verðlaunanna og hún er ekki ómerkilegri en hver fær þau svo. Hún gæti allt eins farið að vilja og væntingum fólksins og hún gæti breytt þessu í símakosningu.

Hugmyndin er sú að allir rithöfundar ættu að geta fengið nóbelinn – svona sirka – af því kríterían sé ekkert nema fagurfræðin ein (sama hvað svo segir í verðlaunatextum nefndarinnar sem rökstyður oft val sitt hingað og þangað – þetta er fastinn og kjarninn og án hans eru nóbelsverðlaunin bara hver annar booker). Þetta er svo auðvitað mególómanían í nefndinni – eitthvað sem margir minna sænsku vina kalla „borgerlighet“ og tengja jafnvel við maskínur kapítalismans en er miklu eldra og hangir saman við lénsskipulag og óskeikulleika kirkjuvaldsins. Sú hugsun eða pólitík eða fagurfræði (eða hvað maður vill kalla það) á undir högg að sækja í dag og þess vegna þarf val nóbelsnefndarinnar alltaf að undirbyggja og viðhalda óskeikulleika sínum. Nefndin má aldrei virðast beygja sig fyrir þrýstingi – þá er hún farin að nálgast um of Idolið. Og hún fer alltaf í báðar áttir til skiptis – lítt þekktur höfundur á litlu máli fær verðlaunin og svo fær Bob Dylan þau. Eitt árið Hemingway og svo Laxness; eitt árið Jelinek og annað Ishiguro. Framúrstefnuhöfundur og svo meginstraums.

Afstaða mín til alls þessa er tvíbent. Annars vegar hef ég hálfgerðan viðbjóð á feudalísku mikilmennskubrjálæðinu sem viðheldur sjálfu sér í einhvers konar menningarlegu formalíni og hins vegar er þeim farið að fækka ískyggilega rýmunum í samtímanum þar sem bókmenntir eru teknar alvarlega – sérstaklega „sem slíkar“. Þær eru fyrst og fremst skemmtiefni og rithöfundurinn sem tekur sig alvarlega einhvers konar cosplay. (Eins þoli ég illa bókmenntir sem telja sig yfir það hafnar að skemmta – jafn illa og bókmenntir sem sinna ekki einhverju háleitara). Ég þoli ekki snobbið en geri mér samt betur og betur grein fyrir því að snobbið er það eina sem stoppar okkur frá því að breyta þessu öllu í einn risastóran bókmenntaskyndibita (við hættum sennilega aldrei leiknum samt – að kalla bækur „meistaraverk“ og „guðdómlega ljóðrænu“ og það allt saman en bækurnar þynnast, verða ómerkilegri og krítíkin verður bara klapp á bakið til að viðhalda tálsýninni um að það sé enn verið að skrifa bókmenntir).

Handke hef ég lítið sem ekkert lesið. Hann er augljóslega „svolítið spes“ (til að segja ekki snældusnar) og með einhvers konar mótþróaröskun á háu stigi – sem er einmitt nátengd fagurfræði óskeikuleikans og hins háleita. Maður þegir ekki og íhugar eða gefur á sér höggstað með því að íhuga mótrök – heldur veður maður áfram gegn stormi vanahugsunar pöpulsins, einn og yfirgefinn ef þess gerist þörf. Þetta er alls ekki óalgengur eiginleiki í fari góðra rithöfunda – Celine kemur fyrstur upp í hugann af fasistum sem hafa skrifað stórfenglegar bækur – þeir leita gegn straumnum, velta upp óþægilegum spurningum, skoða afkimana og gangast við hinu ljóta jafnt sem hinu fagra – og nóbelsverðlaunin eiga umfram allt annað ekki að vera verðlaun fyrir skoðanir höfundar. Það eru friðarverðlaunin – og þau hafa sannarlega verið veitt verri mönnum en Handke (sem afsakar þjóðarmorð með stuðningi sínum við Milosevic – og spurningin er þá hvort að maður afsaki þjóðarmorð með því að afsaka einhvern sem afsakar þjóðarmorð og ef maður afsakar nefndina er maður þá að afsaka einhvern sem afsakar einhvern sem afsakar þjóðarmorð? – sektin færist til).

En svo verður ekkert horft framhjá því heldur að þegar maður verðlaunar höfundarverk höfundar verðlaunar maður höfundinn og færir honum virðingu, peninga og fast sæti í kanónunni. Maður legitimíserar hann fyrir fullt og allt – eða það er allavega pælingin. Og við lifum á íslamófóbískum tímum þar sem hvítir þjóðernissinnar vaða uppi og verðlaunin spila inn í þann veruleika. Þetta er gott fyrir nasistana.

Það verður samt ekki horft framhjá því að Handke var snjallt val – út frá fagurfræði nefndarinnar og baráttu fyrir sjálfstæði og tilvist nóbelsverðlaunanna. Í fyrsta lagi eru allir hættir að velta fyrir sér kynferðisofbeldi Jean-Kladds. Í öðru lagi völdu þau ekki – einsog ég hafði haldið – einhvern sem er umdeildur fyrir eitthvað sem er í kastljósinu, ekki kvenhatara eða loftslagshlýnunarafneitara. Sérstaklega hið fyrra – eða bara einhver diet dónakall – hefði fært fókusinn aftur á skandala nefndarinnar (sem hanga auðvitað saman við einhvern skeikulleika – hún klikkaði, lak, var mannleg en ekki guðleg, bara hver önnur stofnun).

En jæja, já. Það er sennilega áhugaverðara að velta fyrir sér þessu Handkemáli – en ég hugsa að ég fari nú samt bara og lesi Tokarczuk, svona okkar á milli.

***

Já, svo fór ég víst bara að ræða nóbelsverðlaunin einsog ég ætlaði. Og afvegaleiddist ekki mjög mikið.

Í kvöld fer ég til London og á morgun les ég upp í Surbiton. Svo er það Trollhättan (þar sem ég les einmitt með einum nóbelsnefndarmeðlimi, sem er reyndar eins langt frá þeirri lýsingu sem hér birtist og hugsast getur, enda nýjust í nefndinni), París og heim. Ég er að fara í fína veislu hjá forlaginu mínu í París og var að fatta að ég er ekki með nein spariföt með mér. Þarf eiginlega að finna mér Oxfam hérna einhvers staðar og dressa mig upp. Nú þarf ég að hætta að röfla af því batteríið í tölvunni minni er svo lélegt og hleðslutækið er í töskunni uppi á hóteli.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png