Hið dýra mótþróaröskunarhótelherbergi

Stærstu tíðindin í lífi mínu eru þau að Einlægur Önd kom í búðir á þriðjudag. Það var og er afar gleðilegt. Ég held reyndar að hún sé strax svo gott sem uppseld í Bókhlöðunni á Ísafirði en það er bara af því það bárust óþarflega fá eintök. Það hefur nákvæmlega ekkert spurst af viðtökum hennar úti í samfélaginu og ég er – eðlilega – viðþolslaus af óþreyju. Og verð fram til 10. desember, þegar ég ætla að halda útgáfuhófið mitt og lýsa jólabókaflóðinu lokið (fyrir mína parta). Ég er búinn að bóka Dokkuna – þar sem litli bróðir minn bruggar besta bjór landsins – en veit annars ekkert hvað ég ætla að gera. Nema lesa eitthvað smáræði og árita bækur. Mig langar kannski að vera með einhverja músík en veit ekki hvort ég á þá að vasast í því sjálfur að spila eða fá bara einhvern til að gera það fyrir mig.


Ég mikla oft fyrir mér hvað verði mikið að gera í jólabókaflóðinu á meðan mestur tími (og orka) fer í að hafa áhyggjur af því að maður ætti að vera að gera eitthvað. Plögga sér. Og fær ekki vinnufrið fyrir áhyggjunum. Það er eitthvað smotterí á dagskránni. Ég las upp úr henni fyrst fyrir félag eldri borgara á Ísafirði í síðustu viku. Svo er ráðstefna hér á helginni þar sem ég les aftur og tala örlítið um hana. Þá er ég bókaður í upplestur á Höfn í Hornafirði seint í nóvember og á Opna bók á Ísafirði.


Ég ætla suður í kynningarferð. Hún hangir saman við ferð á ljóðahátíð í Slóvakíu – ég stoppa á bakaleiðinni og losna þá við kostnaðinn af öðrum Reykjavíkurleggnum. Ég sótti um ferðastyrk til RSÍ en fékk synjun – sennilega eru þessir ferðastyrkir bara ætlaðir til utanlandsferða. Það er bókstaflega ekkert sem gerir ráð fyrir því að maður búi utan höfuðborgarsvæðisins. Bókmenntasjóður er líka með ferðastyrki en umsóknardagsetningar ganga ekki upp fyrir jólabókaflóðið, sýnist mér. Og ég held þeir séu líka bara fyrir utanlandsferðum. Og áreiðanlega ekki gistingu, sem er stærsti kostnaðarliðurinn. Ég gæti auðvitað gist á tíu sófum og í álíka mörgum gestaherbergjum en mig langar að vera út af fyrir mig – vil heldur heimsækja fólk bara og fá að fara „heim“ síðan og henda fötunum mínum á gólfið og svona. Það er einhver mótþróaröskun.


Ég bókaði herbergi á hóteli með sérbaðherbergi, morgunverð og aðgang að líkamsrækt – en það er eiginlega of dýrt og ég get afbókað fram til 11. nóvember. Sjáum til. Mér finnst tilhugsunin svo leiðinleg.


Það segir að vísu sína sögu að þegar ég fer til Hafnar í Hornafirði fæ ég greiddar ferðir – fjögur flug – gistingu, uppihald og laun. Þegar ég fer til Slóvakíu fæ ég ekki bara ferðina og gistinguna og laun heldur líka gistingu í Reykjavík á leiðinni út. Það er alveg sama hvert ég fer til að stunda vinnuna mína – það er alltaf einhver annar með það á fjárlögunum að ég þurfi að borða, ferðast og sofa einhvers staðar. Nema ég sé að fara til Reykjavíkur sem sagt. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að höfuðborgin hafi budget á við burgeisana á Höfn í Hornafirði.


En ég var víst líka að blogga um þetta síðast. Helvítis peningar. Og helvítis peningavæl.


Ég er annars bara frekar peppaður fyrir flóðinu. Búinn að lesa Hauk Ingvars og Fríðu Ísberg og þau eru bæði með dásamlegar bækur. Kominn 8% inn í doðrant Guðna Elíssonar, sem skemmtir mér hingað til ágætlega – en tekst einhvern veginn líka að vera bæði gamaldags og ungæðislegur. Vanþroska og ofþroska. Og ég skil ekki dómgreindarleysið að láta beiskju sína í garð Hermanns Stefánssonar, sem mér sýnist að eigi að vera hinn ægilegi HMS Hermann, stjórna svona bókinni (Hermann fetti einhvern tíma fingur út í það að allir í bókmenntafræðinni í Háskólanum væru venslaðir – þar starfa m.a. Guðni og kona hans). En bókin er skemmtileg þegar hún er ekki þreytandi.


Það verður annars ekki tíundað nógu oft – og ég hef aldrei nefnt það hingað til – að ég vil nýta vikuna mína í Reykjavík sem allra best. Ef mér tekst að bóka mig nógu andskoti þétt get ég kannski réttlætt fyrir sjálfum mér þessa formúgu sem ég eyði í hótelherbergið. Ég verð í Reykjavík a.m.k. 14.-19. nóvember og ef þú ert formaður húsfélags sem ætlar að vera með upplestrakvöld á þessum tíma eða þáttastjórnandi í sjónvarpi eða útvarpi eða með poddkast um bókmenntir eða í skemmtinefnd átthagafélags eða starfsmaður árshátíðarnefndar stórfyrirtækis eða blaðamaður á Skírni eða DV eða Mannlífi eða bara tilbúinn til þess að breiða út um mig eitthvað gott slúður sem vekur athygli á bókinni minni þá er um að gera að hafa samband. eon@norddahl.org – ég er við tölvupósthólfið allan sólarhringinn. 100% einlægni lofað.336 views0 comments

Recent Posts

See All

Nafni

Einlægur Önd_edited.png