Heyrnarlaus á ystu þröm


Magnús Hj. Magnússon.

Ég lá flatur í gær í sófanum, heyrnarlaus á öðru eyra af merg, buxnalaus undir sæng, með hálfgerðu óráði. Þetta gerðist fyrst fyrir akkúrat tveimur árum, rétt þegar covid var að byrja, og þá endaði ég uppi á spítala þar sem skolað var úr eyranu. Svo gerðist þetta aftur fyrir akkúrat einu ári þar sem ég var í Visby að leggja lokahönd á Einlægan Önd. Þá keypti ég mér eitthvað sprey sem ég notaði samviskusamlega í nokkra daga á meðan þetta var að losna. Þetta er sem sagt orðið árlegt. Og ég er búinn að hringja upp á heilsugæslu og á von á boði í skolun.


Á sama tíma var ég að berjast við að komast í gegnum greiðslumat fyrir nýjum bíl og lesa Skáldið á Þröm eftir Gunnar M. Magnúss, ævisögu Magnúsar Hj. Magnússonar, fyrirmyndarinnar að Ólafi Kárasyni ljósvíkingi. Og áttum við báðir auðsjáanlega bágt. Hann sveitarómagi sem fær ekki leyfi hreppsins til þess að setjast neins staðar að nema hann gifti sig og fær ekki leyfi til að gifta sig vegna þess að hann skuldar óborganlega háan sveitastyrk eftir veikindi í æsku; ég hálfheyrnarlaus smábæjarómagi sem fær ekki að kaupa sér nýjan bíl af því tölvukerfið hjá Arion er eitthvað bilað. Báðir áttum við þó skáldskapinn okkur til huggunar.


Það er svolítið annað að lesa þennan þurra texta – þessa upptalningu – en að lesa Heimsljós. Þó er manni alveg ljóst að Gunnari hefur þótt vænt um Magnús. Ég las Heimsljós reglulega í menntaskóla, uppfullur af rómantík, tók hana svo aftur upp nokkrum árum seinna og fannst hún alger vella og svo enn aftur rétt fyrir þrítugt og fannst þá fyrst sprenghlægileg og svo eiginlega bara ljót. Einsog Laxness væri að hía á aumingjann. Þetta er vel að merkja eiginlega eina bók Laxness sem ég hef átt í einhverju svona „sambandi“ við. En það var kannski meira einhver persónuleg hugmynd um Ólaf sem ásótti mig – þegar ég bjó í Reykjavík átti ég það til að stoppa við leiði hetjunnar hans, Sigurðar Breiðfjörð, (sem ég hef aldrei getað lesið mér til gamans) í Suðurgötukirkjugarði til að íhuga eilífðarmálin.


Gunnar M. Magnúss.

Skáldið á Þröm er minni manngervingur en Ólafur og meiri maður, einfaldlega, og saga hans verður aldarfarslýsing frekar en kraftbirtingarmetafóra. Hún birtir okkur bæði mynd af því hvernig við sem byggjum þetta land höfum smíðað okkur mannvonskukerfi sem úthýsir fólki og gerir því ómögulegt að lifa – kerfi sem minnir kannski ekki svo lítið á þann aðbúnað sem hælisleitendur mega þola í dag, að því leytinu til að það miðar nánast að því að banna mönnum sjálfsbjörg og veitir þeim engar lausnir, og öryrkjar auðvitað – og hvernig við sem byggjum þetta land höfum þurft að eyða ótrúlega mikilli orku í að bæta upp fyrir þessi mannvonskukerfi sem við smíðum með hinni hendinni.


Það er ekki þannig að Magnús komi alltaf að lokuðum dyrum hjá fólki – hann er víðast aufúsugestur, þykir skemmtilegur, er „talandi skáld“ og margir verða til þess að hjálpa honum, sem er umkomulaus kerfisins vegna. Þá vinnur hann miklu meira heldur en ég hafði haldið – örorkan háir honum mismikið eftir tímabilum og hann er oft í þesslags vinnu sem flestir hraustir nútímamenn myndu sannarlega barma sér undan, svo sem löngum sjóróðrum. En sveitaskuldin gerir hann að réttlausum manni – hann má ekki neitt og hrekst um milli vosbúða vegna hennar. Og þótt Súðavíkurhreppur viti að hann muni aldrei geta borgað skuldina er honum ítrekað neitað um niðurfellingu hennar eða aðra samninga sem létti henni af honum – og hann reynir bókstaflega allt. Ef það fólk sem þar réði átti sér einhverjar málsbætur koma þær a.m.k. ekki fram.


Ef það væri ekki fyrir nauðgunina væri Magnús sennilega einhvers konar öryrkjadýrlingur. Einsog hann segir þá sögu skreið hann, afar óvanur drykkjumaðurinn, skelþunnur og skjálfandi upp í til 14 ára stúlku þar sem hann gisti í Bolungarvík, kyssti hana og missti svo sæði áður en til samræðis kom. Hann hélt því fram að stúlkan hefði logið ýmsu um sig og að hann hefði játað á sig verri sakir en hann átti skilið – hann játar samræði fyrir rétti en hafnar því í dagbókum sínum – og var henni reiður fyrir að hafa klagað sig. Magnús er dæmdur í ársfangelsi og situr af sér í grjótinu við Skólavörðustíg, en er sleppt snemma vegna heilsuleysis.


Fljótlega eftir að hann kemur aftur vestur fær hann loks nokkurs konar uppreisn æru – sveitarstjórinn á Suðureyri beinlínis brýtur lög með því að leyfa honum að koma sér þar fyrir upp á full mannréttindi. Hann dó svo 1916 – jafngamall mér, 43 ára, sem komst á endanum handvirkt í gegnum greiðslumiðlun og var að fá símtal um eyrnaskolun á heilsugæslunni klukkan 13.

46 views0 comments

Recent Posts

See All

Heima

Einlægur Önd_edited.png