Helstu tíðindi

„Er þetta magðalenukakan þín?“ spurði Lise frá forlaginu mig þar sem við sátum inni á Le P’tit Frêre kebabbúllunni í Strasbourg um miðja nótt og ég tróð í mig mat sem var alls ekkert pláss fyrir. Ég hafði sagt henni að þegar ég var í Strasbourg síðast, fyrir sextán árum, hefði ég fengið besta kebab ævi minnar. Mér láðist að taka fram að þetta hefði líka verið einn af fyrstu keböbum ævi minnar og að ég hefði átt fyrir mér að búa ár í Berlín og að á þeim tíma hefði ég borðað ríflega kebab á dag allan tímann. Í fæðingarborg kebabsins. Og kebabinn á Le P’tit Frêre var líka ákveðin vonbrigði, svona sextán árum síðar, heilli Berlín síðar, þótt það tæki mig nokkra daga að gangast við því – kjötið alltílagi, en sósan ómerkileg og næstum ekkert grænmeti. Frakkar borða ekki grænmeti nema sem salat og þá sér. Annars borða þeir aðallega bara kjöt, brauð og sykur, og drekka með því kaffi og vín. En það er fleira sem vekur upp minningar en góðgæti.

Ég hékk í viku í Strasbourg á sínum tíma á meðan bandarísk kærasta mín var á ráðstefnu. Kynntist tveimur strákum, austurríkismönnum á interrail-ferðalagi, sem voru æskuvinir og hétu tvínefnum sem rímuðu. Hans og Franz voru fyrrinöfnin, en ég man ekki lengur þau seinni – það stendur í dagbókinni minni en hún er á Íslandi. Hans Peter og Franz Dieter. Það var ekki það samt. Heilla rím. Á hverju kvöldi át ég kebab á Litla bróðurnum, undir dómkirkjunni, þessari sturluðu dómkirkju. Við Lise spjölluðum aðeins við eigandann, sem er frá Kúrdistan og hefur rekið sjoppuna í 22 ár. Hann mundi samt ekkert eftir mér.

Þessutan át ég mestmegnis einhvern fínan franskan mat á fínum frönskum veitingastöðum og þurfti aldrei að taka upp veskið, hvorki á börum né matsölustöðum (sem er ágætt því ég er auðvitað hvínandi blankur einsog venjulega). Spjallaði um bókina í bókabúðum, svaraði mikið til sömu spurningunum og þegar ég fékk ekki sömu spurningarnar dældi ég samt út sömu svörunum, áritaði einhver lifandis ósköp af bókum, skokkaði nokkra hringi í kringum Lúxemborgargarðinn, svaf í lestum, gerði jóga á hótelherbergjum og stakk loks af til Katowice í Póllandi, sem er höfuðborg héraðsins þar sem Bytom liggur, en þar gerði Nýhil góðan leik fyrir nokkrum árum, í samstarfi við Crymo gallerí – festivalbarinn hérna er nákvæm eftirlíking af barnum sem við héngum á í Bytom, og sami eigandi skilst mér. Í kvöld les ég upp ljóð á Ars Cameralis hátíðinni. Það munaði að vísu minnstu að ég yrði strand í Dusseldorf, þar sem ég millilenti, vegna seinkana – en sem betur fer var líka seinkun á tengifluginu.

Nadja er farin heim. Ég kem til Íslands á mánudagskvöld – næ í viðtal í Kiljunni og ræði Heimsku í Gunnarshúsi áður en ég fer til Riga til að tala um Illsku. Heim kemst ég líklega sjöunda desember og verð í verkfalli fram í seinnipart janúars. Eða í það minnsta farbanni. Þarf að sinna mögulegri kvikmyndun Heimsku og einhverri skriffinnsku, ritstjórn, dómnefndarstörfum og síðan er ég kominn á kaf í nýja bók – tók með mér (vélritaðar) síður sem ég er búinn að útkrota í alls kyns hugmyndum sem þarf að útfæra strax og ég kemst aftur í skúrina mína.

Já og svo er búið að selja Illsku til Grikklands. Hún á þá allavega eftir að koma út þar og í Bandaríkjunum og Bretlandi. Heimska kemur út í Frakklandi og Svíþjóð, líklega strax á næsta ári – svo það er ekki endilega útlit fyrir að flakkinu ljúki neitt bráðlega. Ég er heldur ekki búinn að kynna Illsku í Frans – þrátt fyrir að ég hafi nú farið fjórum sinnum, á ég líklega a.m.k. þrjár ferðir eftir.

Alltaf þegar ég lít í dagblöð – sem eru full af fréttum um skert borgaraleg réttindi, harðari reglur um innflytjendur, fólkið sem við drekkjum á dyraþrepinu, fólkið sem við sendum til baka í opinn dauðann, út á guð og gaddinn, fleiri loftárásir og einstrengingslegri fordóma; það er einsog einhverjar flóðgáttir heimsku séu nú endanlega að opnast og mannúðlegri raddir megni varla lengur að halda aftur af þeim – verð ég þunglyndur og svo verð ég leiður að þunglyndið skuli ekki gera neitt gagn og langar að skrifa eitthvað, en finnst á sama tíma að helvítis fuglabjargið – þetta einræði þvælunnar, þar sem rifrildið er nánast farið að snúast um sjálft sig í narsissískum slagsmálum um hver sé besti bjargvætturinn – sé líka beint og óbeint valdur að því að ástandið er einsog það er. Vonleysi, vonleysi! Og ekki gerir það meira gagn en þunglyndið. Vonandi rennur þetta af mér fljótlega, vonandi róast umræðan áður en fasistar hafa náð undirtökunum alls staðar, áður en mannúð verður tabú fyrir aumingja.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png