top of page

Heimska kenningar 1-3

Heimska kenning eitt

Heimska er ekki fáfræði, ekki upplýsingaskortur – hvað sem líður orðsifjafræði um að fara aldrei að heiman og vera ósigldur – heldur vangeta til þess að vinna úr upplýsingum. Sá sem er heimskur getur haft aðgang að öllum heimsins upplýsingum – hann getur þess vegna kunnað þær utan að og hugsanlega hefur hann einhvern grunnan skilning á þýðingu þeirra. En hann getur ekki tengt saman A og B, er ófær um að finna mynstur og brúa bilið milli þekkingar sinnar – eða visku, innsæis, niðurstaðna – og veruleikans sem annars blasir við honum (eða myndi gera það ef sá heimski væri fær um að veita honum annað en yfirborðslega eftirtekt).

Heimska kenning tvö

Margt af því fólki sem við teljum vel gefið – og þorum ekki öðru, maður slæst ekki við diplómur, slæst ekki við fólk sem talar sértækt mál – er síðan færara í að aðlaga veruleikann að hugmyndum sínum en hugmyndir sínar að veruleikanum. Þessi aðlögun þarf ekki að vera pólitísk, nema að svo miklu leyti sem allt er pólitískt, og kemur sjálfsagt miklu oftar upp í persónulegum samskiptum, ekki síst milli fólks sem er mjög náið. Elskendur manipúlera ekki hver annan með fullum vilja heldur af blöndu af ótta og sjálfsblekkingu, sem er sitthvor útfærslan á heimsku – eða í það minnsta sitthvor orsök heimskunnar.

Heimska kenning þrjú

Heimskt fólk er oft bæði félagslega agressíft og fært um að stýra skriðþunga samræðunnar í kringum sig – það kann oft að battla, getur verið sannfærandi, og reynir það undantekningalítið án tillits til þess hvort nokkurt sannleikskorn sé að finna í hugsunum þeirra. Heimskt fólk reynir oft frekar að tengja við tilfinningalíf viðmælenda sinna heldur en rökhugsun þeirra (heimskt fólk ræður samt oft ágætlega við lögmál rökhugsunar). Heimskt fólk lætur hins vegar oft einsog það sé að tala til rökhugsunarinnar þegar það talar til tilfinningalífsins – skekkt tölfræði er gott dæmi, talnaklám lætur einsog það eigi erindi við heilann í okkur en það talar í raun bara til … hjartans? Er það ekki hjartað sem er svona auðtrúa, fallega, fallega hjartað okkar?

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page