Heimferðardagbók: Dagur 8

Við smöluðum krökkunum hálfsofandi út í bíl rétt fyrir sjö í morgun og keyrðum sem leið lá til Gautaborgar. Við höfðum góðan tíma fyrir okkur og vorum komin upp úr ellefu. Byrjuðum á að fá okkur hádegismat á Víetnömskum skyndibitastað, sem reyndist óvenju fínn – Vietnamhaket, ef einhver á leið hér hjá. Þá komum við bílnum fyrir við hótelið og röltum niður í bæ. Aram beit í sig að listasöfn væru viðbjóður og eftir að ég var búinn að móralísera fyrir honum einsog Móses með steintöflurnar um að þetta væri vonlaus afstaða fékk hann samt að hanga á borgarbókasafninu á meðan við hin fórum á listasafn. Safnið er frekar mikilfenglegt – mikið af gömlum meisturum og alls kons skemmtilegt nýtt. Það er líka passlega stórt svo manni líður ekki einsog það sé búið að keyra yfir skilningarvitin á manni á valtara þegar maður kemur út.

Ég fór í test klukkan 14.20. Ég gekk frá listasafninu efst við Avenyn í nokkra hringi að leita að Elite Hotel þar sem Vaccina átti að vera búið að koma sér fyrir með sinn covidbúnað. Elite Hotel reyndist vera sama bygging og sami inngangur og kráin At Park – þar sem dreggjarnar af bókamessunni í Gautaborg koma saman á kvöldin og troðast svo hressilega að þar fá allir undantekningalaust sömu flensurnar. Í þetta sinn var fámennara – engin Herta Müller við innganginn að rífast við agentinn sinn í síma, einsog ég sá einu sinni, enginn Dolph Lundgren að drekka Mai Tais með Ninu Hagen, Desmond Tutu og lífverðirnir allir einhvers staðar langt í burtu – og ég staulaðist í gegnum mannfæðina upp á aðra hæð. Þar beið ég í augnablik í biðstofu og var svo kallaður inn.

Það var auðvitað vesen á bókuninni af því ég er ekki með sænska kennitölu – það er eiginlega alltaf vesen. Sænsk skriffinnska er ferkantaðasta skriffinnska á jörðinni. Sjálf sýnatakan var ofbeldisfyllri en ég hef lent í áður. Hann rak pinnann afar djúpt í kokið á mér og það var eiginlega einsog hann væri að leita að ógleðitriggernum – þessum litla bletti þar sem maður kúgast mest – og þyrfti svo að krukka þar í dágóða stund. Þar væri Covidið og hvergi annars staðar. Þegar maður fer í venjulega sýnatöku í Svíþjóð – út af einkennum – fær maður bara að gera þetta sjálfur. Stingur smá í nef, smá í kok og hrækir svo á helvítið. Fyrir vestan stungu þeir smá í kok en frekar djúpt í nef. En þetta var bara kok og ég táraðist mikið og við þurftum að stoppa fjórum-fimm sinnum. Sennilega er þetta nú áreiðanlegra en hitt.

Niðurstöðuna fæ ég svo stafrænt í kvöld. Mér líður fremur undarlega – ég hef neikvæða tilfinningu gagnvart þessu en ég er svo sem oft neikvæður að óþörfu. En þetta er undarlegur staður, alltaf, mitt á milli afneitunar og ofsóknaræðis. Maður er næmur á líðan sína en ímyndar sér líka eitt og annað – og svo er svo erfitt að átta sig á því hvað er eðlilegt. Ég er 43 ára maður sem fór á tvö fyllerí í vikunni og það væri mjög óeðlilegt ef ég væri ekki svolítið sloj. Nadja og Aino fengu flensu í síðustu viku og voru testaðar og það var ekki covid og einhvern smotterís kverkaskít og þannig höfum við öll verið með síðan. En ég hef líka verið úti að hlaupa og hefur ekkert liðið verr en gengur og gerist. Stundum hress, stundum sloj, einsog miðaldra manni sæmir.

Það er stundum sagt að það sé gott að eiga von á því versta því þá gleðjist maður þegar ástandið reynist skárra en maður hafði átt von á. Þetta held ég að sé misreiknað. Það er alveg handónýtt að hafa áhyggjur af hlutum sem maður hefur ekkert um að segja.

En þetta er líka versti þröskuldurinn. Það er eitt að sitja mögulega fastur í sóttkví á Íslandi og annað að gera það hér og missa af bátnum og öllu saman.

Ég skrifaði annars stjórnvöldum í gegnum covid.is til að spyrja hvað í ósköpunum ég ætti að gera þegar ég kem til Seyðisfjarðar – hvort ég mætti hugsanlega þiggja far með fjölskyldunni minni suður og fara í sóttkví þar eða hvort það þýddi þá að þau þyrftu líka að fara í sóttkví (en það legg ég ekki á þau nema tilneyddur)? En hef ekkert svar fengið.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png