Heimferðardagbók: Dagur 4

Það var átakalaust þegar vörubíllinn kom að sækja brettin í gærkvöldi. Þau eru þá farin. Og tollurinn og Samskip hafa fullvissað mig um að við eigum ekki að lenda í neinu tollarugli. Í dag losuðum við okkur við hluti til Stadsmissionen og komum öðru í kjallarann. Mágur minn kemur svo og sækir eitthvað – aðallega til að koma á haugana. Börnin fóru með lestinni til Rejmyre. Nadja er heima að sinna einhverju smotteríi en ég færði mig á kaffihús – aðallega til þess að undirbúa mig fyrir næstu tvo daga, sem verða rithöfundadagar. Ég fer til Gautaborgar með lest á morgun og svo á Bokdagarna í Dalslandi. Næstu tvo daga verð ég sem sagt að haga mér einsog andans maður en ekki efnisins. Ég er hér á kaffihúsinu til að endurfæðast.

Ég veit ekki hvort maður er nokkurs bættur með að gera lista yfir allt sem gæti farið úrskeiðis næstu daga en það hvarflar alltaf að mér af og til – maður gæti þá andað léttar í hvert sinn sem maður fer yfir einhvern þröskuld. Fyrir utan þetta venjulega, einsog að geta misst af lestum eða að það springi dekk á bílnum eða hótelbókanir reynist hafa verið vitlausa nótt eða að maður týni passanum sínum, eru það fyrst og fremst covidreglur sem gætu breyst hratt – og maður gæti orðið útsettur fyrir smiti. Það er ekki endilega gáfulegt að taka þátt í tveimur viðburðum svona rétt fyrir brottför – eða sitja á kaffihúsi – en þetta gerir maður samt. Annað er vinnan mín og á kaffihúsinu sit ég afsíðis.

Annars er þetta líka svolítið skitsó – það er ekki sami æsingur í Svíum og heima. Að lesa til skiptis SVT og Vísi er einhvers konar æfing í mótsögnum. En auðvitað snýst það allt um hvaðan maður er að koma og hvert maður er að fara og hvaða viðhorf maður hefur til lífsins (og dauðans).

Eitt sem ég veitti athygli í gær er að þegar talað er um smit á landamærunum í Svíþjóð er alltaf talað um „utlandsresorna“ – það er að segja ferðir Svía út úr landinu og heim – en á Íslandi er öll áhersla á túrismann. Svíar líta svo á að hinir óábyrgu fari út og sæki veiruna heim en Íslendingar líta svo á að það séu útlendingarnir sem komi með veiruna til sín. Ég reikna með að í raunveruleikanum sé það bæði og – en það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort sjónarhornið fjölmiðlar og félagsmiðlavitringar velja sér.

Ætli þetta endi ekki samt með ofurdreifaraviðburði í Norrænu? Allir gubbandi fram af rekkverkinu í covidsvita. Fáum ekki að koma í land. Reikum um heimshöfin á fársjúku flónaskipi fram yfir gröf og dauða og ofsækjum þá fáu sem lifa af. Þá verður nú gaman að vera til.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png