Heimferðardagbók: Dagur 3

Vörubíllinn átti að koma á morgun til að sækja búslóðina en til stóð að bílstjórinn myndi hringja í dag til að segja nánar klukkan hvað hann væri á ferðinni. Hann hringdi í hádeginu og stakk upp á að mæta hingað klukkan 7 í fyrramálið. Þá hefðum við þurft að vakna klukkan fjögur til að byrja að raða á brettin. Það þurfti ekki miklar samningaviðræður til þess að fá hann til að koma frekar í kvöld. Sem varð til þess reyndar að við misstum af kvöldverðarboði hjá tengdapabba en af tvennu illu þá var þetta nú skárri valkosturinn. Og börnin fengu samt að fara í kvöldverðinn. Í sjálfu sér erum við laus – en það verður einhver að vera heima til að gæta brettana sem standa undir eldhúsglugganum okkar. Bílstjórinn kemur í fyrsta lagi átta, segir hann, og sennilega ekki síðar en níu.

Dagurinn byrjaði annars á því að við Aram fórum út að hlaupa. Hann hefur komið með mér út alla mánudaga í nærri tvo mánuði. Við förum 3,5 km í rólegheitunum og hlustum á tónlist. Það er ennþá steikjandi hiti en skárra þegar maður kemst af stað í morgunsvalanum.

Á meðan við bíðum eftir bílstjóranum ætlum við Nadja að borða indverskan mat – sem verður sóttur og étinn hér við skrifborðið mitt. Það fáum við ekki á næstunni, nema heima hjá okkur. Ég fór meira að segja í ríkið og keypti mér nokkra bjóra. Ég litaðist líka um eftir flösku af þýska hvítvíninu „Hans Baer“ – sem ég uppgötvaði nýverið á heimasíðu Systembolaget og veit að er til í ríkinu í Hälla – en fann ekki í Systembolaget-City. Líklega fæ ég ekkert Hans Baer vín á Íslandi heldur – það er að minnsta kosti ekki til í ríkinu.

Á morgun göngum við svo frá íbúðinni og sendum krakkana með lest til frænku sinnar. Nadja eltir þau á bílnum á miðvikudag og ég fer með lestinni til Gautaborgar í útgáfuhóf fyrir Bron över Tangagata sem er að koma út hjá Rámus. Hingað komum við ekki aftur í þetta skiptið.

Nema auðvitað ef landinu verður lokað. Það er svolítil stemning fyrir einöngruðum þjóðríkjum þessa dagana. Ekki síst eyríkjum. Og ekki alveg laust við að maður skammist sín – þótt það sé ekki alveg ljóst hvort maður eigi frekar að skammast sín fyrir að hafa farið eða fyrir að koma aftur. En mér þætti raunar alveg grínlaust áhugavert að vita – í allri þessari umræðu um að bjarga ferðaþjónustunni og vera ekki að hlaða undir rassgatið á heimsreisudillum hvítvínskellinga og djammferðir unglinga – hversu margar fjölskyldur eru í svipuðum sporum og við. Að vera með fætur og rætur í fleiri en einu landi er ekki alveg auðvelt (eða ódýrt) á covid-tímum. Allir Íslendingar sem eru giftir útlendingum – hvort sem þeir eru með fasta búsetu á Íslandi eða erlendis – allir innflytjendurnir, allir Íslendingar erlendis. Og fleiri. Ég held þetta sé fremur stór hópur.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png