Heima


Ef hugurinn er í eðli sínu engu bundinn, þá er líka heima og heiman sama súpan.

Po Chü-i í þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar


Ég er alltaf að velta því fyrir mér hvar ég eigi að draga línuna í því sem ég kalla „ísfirskar bókmenntir“. Hversu langt kemst ég frá sjálfum Ísafirði og hversu lítil þarf tengingin að vera. Mér finnst sjálfum augljóst að ég dragi línuna ekki við bæjarmörkin – þetta er persónulegt og Ísafjörður huga míns nær út fyrir bæjarmörkin, telur líka til bæjarfélaganna í kring. Það réttlætir í sjálfu sér ekki að ég kalli bók skrifaða af bolvíkingi um Þingeyri „ísfirskar bókmenntir“. Það heiti sprettur einfaldlega af sjálfum mér, minni rökmiðju, sem dregur upp radíusinn frá Tangagötu og Sundstræti. Við getum orðað það sem svo að ég sé að hugsa um Ísafjarðarsýslur, Ísafjarðardjúp og Ísafjarðarbæ – það er ónákvæmt en það kannski dugar. Og tengingin – það dugir mér að stór hluti sögunnar gerist á svæðinu eða að höfundur hafi sterk tengsl við svæðið. Ég veit ekki hvort ég hef neinn áhuga á því heldur að draga fram einhver einkenni eða setja fram einhverjar kenningar – ég er mest bara að skoða landslagið, sem ég hef svo mikið hunsað í gegnum tíðina, og dokúmentera fyrir sjálfum mér hvaða bækur þetta séu.


Ég las Feigð eftir Stefán Mána í gær. Hún gerist að miklu leyti í Súðavík og eitthvað smá á Ísafirði en annars fyrir sunnan. Þetta er ein af Harðarbókunum. Ég, mamma og pabbi eigum örlítinn þátt í henni því Stefán hafði samband þegar hann var að skrifa hana (fyrir 13 árum) og var með lista af spurningum sem hann þurfti að svara – ég vísaði mörgu af því áfram til mömmu og pabba og okkar er allra getið á þakkarlista. Það er því pínu kaldhæðnislegt að ein af fáum villum í bókinni er stafsetningin á eftirnafni okkar pabba, h-ið er fellt út. „Hin villan“ sem ég kom auga á var að Stefán þrefaldar einhvern veginn vegalengdina yfir Steingrímsfjarðarheiðina, úr ríflega 20 km í 60-70 km – sem er sennilega vegalengdin frá því Ísafirði (innsta firðinum í Djúpinu – bærinn Ísafjörður stendur við Skutulsfjörð) sleppir og þar til maður er kominn til Hólmavíkur. En megnið af því er nú bara á láglendi. Í rúmlega 500 blaðsíðna skáldsögu sem er stappfull af fakta er þetta nú bara mjög vel sloppið (ekki það ég sjái auðvitað allt). Auðvitað skáldar hann svo fullt og breytir og straumlínulagar og sumt í söguþráðinum virkar hæpnara en annað – en ekkert af því registerast hjá mér sem feilar.


Feigð tekur á nokkrum afar viðkvæmum málefnum og gerir það nú bara býsna vel. Í fyrsta lagi er það snjóflóðið í Súðavík og eftirköst þess og í öðru lagi óhapp og mannslát sem verður á sjó í tengslum við tryggingasvik. Ég veit ekki hvort það eru tengslin við sögusviðið en mér fannst bókin langsterkust í fyrsta hlutanum, þegar Hörður er enn ungur í Súðavík. Mér fannst lokakaflinn ívið dramatískur og ótrúverðugur – eða a.m.k. upp að því marki að ég sá aldrei hvað Hörður sá sjálfur í Maríu, Bíbí eða Þóru. Ég skildi unga Hörð, sem var graður og vitlaus og dálítið viljalaus, en þessi eldri Hörður – með sitt innsæi, sín þursalæti og sínar þráhyggjur – var mér alltaf meira framandi. Þá fannst mér bílferðin suður, á rétt um fjórum tímum í janúar, á Chevrolet Chevelle 1969 (sem hafði enga ástæðu til að vera á vetrardekkjum) – og það í gegnum skafla – í það hæpnasta. En ég keyri svo sem einsog héri sjálfur og hef ekkert vit á bílum.


Maður gleymir því síðan stundum hvað Stefán er annars góður höfundur – frekar en endilega krimmahöfundur – hann skrifar helvíti góðan prósa þegar hann vill vera að því. Stundum er hann kannski að drífa sig fullmikið og plottin vilja verða dálítið ofhlaðin sálrænum kveikjum – en kaflar einsog fyrstu 200 síðurnar í Feigð eða öll Hótel Kalifornía og fleira álíka efni sýnir bara hvers hann er megnugur þegar hann er í formi. Það segir líka sína sögu að ég tók hnullunginn á bókasafninu upp úr tvö, var ekki kominn heim fyrren klukkan að verða þrjú og lauk við hana upp úr miðnætti – og hafði þá samt líka fengið mér ríflega klukkustundarlúr, horft á Narcos og eldað og borið fram heimalagaða blómkálssúpu á milli lota. Og meira að segja glamrað svolítið á gítarinn. En það er tempó í henni – og er það ekki það sem krimmar eiga að gera líka? Fá mann til að klára sig.

37 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png