top of page

Heilaharðlífi

Það gengur bölvanlega í vinnunni. Nú var ég næstum búinn að kenna því um að í gær var ég dæmdur fjárhagslegur krypplingur – fór í greiðslumat og ætti samkvæmt því að vanta tæpar 200 þúsund krónur bara til að geta með góðu móti hokrað í þessu auma jarðlífi, á bekk í blómagarði, því ég þyrfti síðan nokkuð meira til að hafa efni á þaki yfir höfuðið. Þetta er vel að merkja ekki vegna þess að ég skuldi neitt af viti – full listamannalaun plús allar aukatekjur reiknast bara ekki hærri en þetta. Og ekki er það vegna þess að fasteignaverð á Vestfjörðum sé svo hátt. Ekki vegna þess að ég reki bíl eða beri annan álíka aukakostnað af tilveru minni.

En hvað um það. Andleysið stafar af einhverju öðru. Ég var ekki dæmdur í fjárbaugsgarð fyrren seinnipartinn í gær og ég var líka svona í gærmorgun. Í andleysinu fæ ég illt í skrollfingurna. Blái liturinn á Facebook dofnar undan krefjandi augnaráði mínu. Sit hérna og bíð eftir því að það komi hádegismatur svo ég geti étið spanakopituna sem ég gerði í kvöldmat í gær (ég á náttúrulega ekki að vera að borða svona dýran mat, sárfátækur maðurinn – bara spínatið í þetta kostaði næstum tvöþúsundkall!). Það er sól og blíða í Svíþjóð. Ég áfrýjaði greiðslumatinu. Þarf að skrifa tveggja tíma fyrirlestur um „skipulag hlutanna“ – á sænsku („sakernas ordning“). En ég er með heilaharðlífi og það gengur ekkert.

Við ljúkum þessu á ljóði. Emily Dickinson – númer 801.

I play at Riches—to appease The Clamoring for Gold— It kept me from a Thief, I think, For often, overbold
With Want, and Opportunity— I could have done a Sin And been Myself that easy Thing An independent Man—
But often as my lot displays Too hungry to be borne I deem Myself what I would be— And novel Comforting
My Poverty and I derive— We question if the Man— Who own—Esteem the Opulence— As We—Who never Can—
Should ever these exploring Hands Chance Sovereign on a Mine— Or in the long—uneven term To win, become their turn—
How fitter they will be—for Want— Enlightening so well— I know not which, Desire, or Grant— Be wholly beautiful—
natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page