Heiðríkjuströnd og JaðisæhesturÞar stóð amerísk kona sem var að bíða eftir töskunni sinni. Hún var annað hvort hælismatur eða, sem ég tel sennilegra, á einhverjum æðislegum efnum. Henni fannst allt mjög frábært og ekki síst að fá töskuna sína (sem hún var að bíða eftir). Það var engin flugstöðvarbygging en handan við dálitla girðingu beið okkar Tuk-Tuk. Hann flutti okkur í gegnum þorpið í búð og þaðan niður á höfn þar sem leigusalinn okkar, Derek, beið okkar á bát. Með honum komum við hingað – á Serenity Beach – og hér höfum við verið í viku. Kreditkortið mitt er byrjað að leysast upp í veskinu mínu af álaginu. Það held ég við Krummi þjónustufulltrúi verðum að eiga alvarlegt samtal þegar ég kem heim.Við erum búin að gera alls konar. Hér á Serenity Beach er engin þjónusta ef frá er talin veitingastaðurinn Neptune\’s sem rekur líka strætóbátaþjónustu til að fá til sín kúnna. Þjónustustigið þar er svipað og víða í Hondúras – fólk getur bókstaflega orðið mjög pirrað ef maður biður það um eitthvað. Einsog til dæmis glas fyrir vatnið sem maður keypti eða bara vatnið. Svilkona mín fékk matareitrun á staðnum annan daginn – nágrannar okkar mæltu með því að við borðuðum ekkert ferskt af því það væri skolað úr venjulegu kranavatni. Svilkonan vildi reyndar meina að sennilega hefði henni orðið meint af olíunni sem hún þóttist vita að hefði verið margnotuð (en þá er það varla matareitrun, er það? deyr ekki allt í svona olíu? líklega getur manni samt orðið mjög bumbult og ekki er hún holl). Það flækir svolítið málin því það er ekkert í boði sem er ekki djúpsteikt eða ferskt.

Bátastrætóinn er svo tómt rugl. Fyrst þegar við ætluðum að taka hann var hann fullur og það kom ekki annar fyrren eftir klukkutíma. Við biðum á bryggjunni allan þann tíma (með þrjú óþolinmóð börn) og settumst svo í næsta ásamt fleirum. Stýrimaður byrjaði á því að bregða sér frá – til að fá sér bjór á Neptune\’s – og kom svo aftur en gat þá ekki startað bátnum. Eftir um 20 mínútna bið ákváðum við að sleppa þessu bara og reyna aftur daginn eftir. Þá var hann korteri of seinn, byrjaði á því að stökkva upp á bryggju þar sem hans beið kokteill á gluggasillu, og fór svo að skrúfa í sundur stýrið – sem var eitthvað bilað. Eftir um hálftíma bið – og engin svör nema einhver svona fúllynd já og nei, hann bókstaflega virti okkur varla viðlits – gáfumst við upp og höfðum samband við leigusalann og fengum hann til að skutla okkur. Við mættum svo auðvitað strætóbátnum þegar við komum út á fljót.


Þegar við komum í bæinn skráði Nadja sig á köfunarnámskeið og við höfum nú bara ekkert mikið séð hana síðan. Það hefur að sögn samt verið bæði gaman og erfitt – hún varð mjög veik einn daginn en harkaði sig í gegnum það. Við hin höfum aðallega verið að snorkla og lesa og borða. Við tókum bát út í litla eyju – svona eyðieyju einsog þær birtast manni í teiknimyndum, lágan sandhól með engu nema einum skítakamri. Ég, Aram og Yesper náðum þar mjög góðri snorklferð og sáum alls konar kóralla, gróður, fiska og fisktorfur. Við höfum líka farið í bæinn og keypt snorklgræjur fyrir krakkana – ég tímdi ekki að kaupa fyrir mig, sé ekki fyrir mér að ég muni nota þetta svo oft og hér er bæði hægt að leigja græjur fyrir lítið og svo á ég ágætis sundgleraugu sem duga fyrir það sem ég vil gera.

Við fórum líka á safn sem heitir Jade Seahorse. Það er einsog Selárdalur Samúels hefði getið Crazy House í Da Lat barn. Garður skreyttur með alls konar rusli og drasli – perlum, rafeindaborðum úr tækjum (veit ekki hvað þau heita), glerflöskum, skeljum, steinum og fleiru.

Hér er líka mikið dýralíf. Vel að merkja. Ég gleymdi að nefna það um daginn þegar við sáum hrægamma á veginum til Copán – það eru rosalegar skepnur. Hér á Serenity Beach er mikið af kólíbrífuglum og eðlum – alveg hátt upp í meterslangar. Í ljósaskiptunum fyllist loftið síðan af litlum leðurblökum sem vafra um einsog þær séu fullar. Fólkið sem býr hérna á svo gjarna hunda og annað hvort eru líka villihundar eða sumir þeirra fá að ráfa um lausir. Ég held þeir séu villihundar – þeir eru rólegir og láta mann vera annað en húsbóndahundarnir sem eru alltaf hálfgeðbilaðir. Þessu fann maður mjög sterkt fyrir í Víetnam. Hundar sem voru í eigu fólks geltu á allt sem hreyfðist en villihundarnir bara skokkuðu framhjá manni.Þá er slatti af öðrum fuglum hérna sem ég ber ekki kennsl á. Það eru engar moskítóflugur en einhver önnur kvikindi – kannski lúsmý – pínulitlar pöddur sem bíta mann. Mikið til í svefni.

Túristarnir hérna eru aðallega kafarar og djammarar og sennilega mikið til bæði. Slatti af instagramdrottningum – fólk eyðir fáránlega miklum tíma hérna í að ná af sér góðri strandmynd. Á eyðieyjunni var ein svona next level – með strák með sér sem var með fimmtíu kílóa myndavél og þau eyddu ábyggilega klukkutíma í að ná einni mynd. Eða hvað veit ég, kannski voru þau að taka bikini-auglýsingu.

Í nótt var ægilegt þrumuveður og rigning. Það var fremur rómantískt – blikkljós og hávaði. Nadja klárar köfunarnámskeiðið á eftir og verður með okkur seinnipart dags. En svo vöknum við fyrir allar aldir til að fljúga aftur til San Pedro Sula í fyrramálið. Þá fer ég aftur að vinna. Ég er að vísu voða uppburðarlítill yfir skáldskap mínum þessa dagana en vonandi næ ég að hrista það af mér.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png