top of page

HafnarferðÞað er svartur föstudagur – myrkir markaðsdagar – og ég hef ekkert keypt í allan dag ef frá er talin ein kókómjólk og roastbeefsamloka í morgun. En í gær keypti ég mér nýja vettlinga, í staðinn fyrir par sem týndist á Höfn, og í fyrradag pantaði ég tvær bækur á netinu og í hittifyrradag keypti ég nýjan bakpoka, í staðinn fyrir þann sem skemmdist um árið, og daginn þar á undan keypti ég nýjan plötuspilara í staðinn fyrir þann sem var farinn að spila allar plötur alltof hratt. Svo það er ekki einsog ég sé neitt langt á eftir ykkur hinum í neyslukapphlaupinu. Ég geri þetta bara allt saman á mínu eigin tempói.


Annars er allt ágætt að frétta. Ég fór til bæklunarlæknis í morgun og hann vill nú hafa mig undir einhverju eftirliti en líst ágætlega á þetta samt. Ef ég hætti að sýna karatespörk og vera með fíflalæti læknar þetta sig kannski – jafnvel líklega – með aðgát og æfingum. Ég má meira að segja fara í ræktina og svona og ætla að nota tækifærið á eftir.


Það var mjög gaman á Höfn. Auk þeirra sem voru að lesa upp á kvöldinu – Sölvi Björn, Haukur I, Þórunn Jarla og Kristín Ómars – birtust Ófeigur Sigurðsson, kominn alla leið ofan af Öræfum með sinni frú, Kristínu Karolínu, og Arndís Þórarinsdóttir, sem var að kenna ritlist á svæðinu. Þá voru heimamennirnir Soffía Auður og Gímaldin okkur til halds, trausts, skemmtunar og leiðsagnar. Þetta er ekki alveg leiðinlegasta fólkið sem maður umgengst, það verður nú bara að segjast einsog er.


Næst á dagskrá er Opin bók á morgun. Svo fer ég suður á miðvikudag og les upp á Bókasafni Hafnarfjarðar ásamt Sigrúnu Páls og Kamillu Einars á fimmtudag – og eitthvað morgungigg líka hjá Þjóðskrá (en það er nú áreiðanlega harðlokað – allavega fyrir þá sem eru ekki í þjóðskrá).


Svo er komið nýtt og verra afbrigði. Það verður engin uppkosning. En ég er bara heima að drekka kaffi og hlusta á Fleetwood Mac á nýja plötuspilaranum. Í kvöld ætlum við að borða pizzu og fara á Ghostbusters í Ísafjarðarbíó. Það er ekki verri leið en hver önnur til að þreyja þennan hægdrepandi heimsendir.


52 views0 comments

Recent Posts

See All

Fúsk

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page