Ef það merkilegasta sem maður hefur að segja við heiminn er að maður fái ekki lengur höfuðverk, eftir að hafa hætt kaffidrykkju fyrir rúmlega viku síðan, þá er kannski ekki mjög margt að gerast hjá manni. En það er sem sagt þannig. Ég fékk að vísu aldrei neitt ægilegan höfuðverk en ég var pínu sloj fyrstu vikuna. Nú er ég bara einsog ég á að mér að vera. Hvorki skárri né verri eiginlega. Ég sef sennilega betur jú – en það er ekki alveg marktækt því það byrjaði áður en ég hætti að drekka kaffi, þegar ég fór í almennilegt sumarfrí. Þetta er annars bara tímabundið ástand, mér finnst svo líklegt að eftir þrjár-fjórar vikur fari ég að drekka kaffi aftur að það má vel vera að ég setji það bara í dagatalið mitt.
***
Ég var spurður hvort ég ætlaði ekki að skrifa minningargrein um Guðberg. Ég var meira að segja beðinn um að koma í viðtal til þess að ræða Guðberg og áhrif hans á mig. Ég svaraði báðu með einföldu nei-i. Ég hef aldrei skrifað minningargrein og byrja ekki á Guðbergi, þótt mér þyki vænt um bækurnar hans. Og ég er ekki heldur sérfræðingur í þeim bókum, þótt Guðbergur hafi verið mér hugstæður.
Ég hitti hann ekki nema þrisvar, það ég man í fljótu bragði. Í fyrsta skiptið fékk ég hann (og Elísabetu Jökuls og Eyvind Pétur Eiríksson) til þess að koma á bókmenntakvöld á vegum nemendafélags Menntaskólans á Ísafirði veturinn 1996. Þau Elísabet voru þá veðurteppt í marga daga og ég hitti þau eðlilega talsvert þótt tæplega væri hægt að segja að með okkur hafi tekist mikil kynni. Næst hitti ég Guðberg á Bessastöðum þegar ég fékk verðlaun og hann mætti í móttökuna. Hann óskaði mér innilega til hamingju og fór svo að tala um hvað ég ætti fallegt reiðhjól. Ég skildi ekkert, enda átti ég ekki reiðhjól, en þá kom í ljós að hann hafði séð mynd af mér og Aram á reiðhjóli á blogginu mínu – en því reiðhjóli hafði ég hent eftir að það brotnaði. Síðast hitti ég hann í fyrra í jarðarför Eiríks Guðmundssonar. Hann sat á ská fyrir framan mig og við rétt heilsuðumst. Það var í fyrsta skipti sem ég sá hann – í eigin persónu eða fjölmiðlum – án þess að hugsa hvað hann væri djöfulli ern alltaf. Hann átti fullt í fangi með að standa á fætur og setjast í takt við fyrirskipanir prestsins.
Flateyjar-Freyr og Froskmaðurinn eru annars mínar Guðbergsbækur. Ég féll aldrei fyrir Tómasi, þótt ég skilji byltinguna í henni, og ekki heldur Svaninum.
***
Annars bölvaði ég sjálfum mér fyrir að hafa ekki farið í þetta viðtal þarna. Að afþakka viðtal við stóran fjölmiðil þegar það er rétt rúmur mánuður í útgáfu bókar flokkast sennilega undir sjálfsskaða. Og ég afþakkaði bara vegna þess að ég var of upptekinn af að hafa áhyggjur af því að fá ekki næga athygli í jólabókaflóðinu. Sagðist vera „of annars hugar“.
***
Annars er ýmislegt á döfinni. Í næstu viku þarf ég að fyrirlesa um plokkfisk. Svo er ég með í að skipuleggja bókasýningu í Safnahúsinu þar sem verður stillt upp vestfirskum bókum í tilefni af útgáfu bókar um „sköpunarkraft Vestfjarða“ – þar sem ég á líka litla grein. Það gengur vel að bóka upplestra fyrir haustið, en margt þó enn óunnið. Ég ætla aldrei þessu vant að gerast bóksali sjálfur og leigja posa og árita og selja út um allar trissur. Þá þarf að ganga frá synopsis og prufuþýðingum með Reykjavík Literary Agency. Svo þarf auðvitað að skrifa nýjar bækur – og árlega ritlaunaumsóknin er líka á næsta leyti. Nóg að gera altso – guði sé lof bara að ég er ekki með koffínhöfuðverk.
Yorumlar