Hókus Pókusmaðurinn Peps Persson (og þrífarar vikunnar)


Ég var að róta í vínylkassanum í Musikshopen á dögunum og rakst þá á þennan titil. Blues På Svenska með þeim Peps Persson og Slim Notini. Ég hafði aldrei heyrt á þá minnst áður en þessi Peps virkaði svo ótrúlega kunnuglegur samt. Lögin á plötunni eru allt blúsklassíkerar þýddir á sænsku – konseptið ekki svo ólíkt plötunni Blús með KK – pródusentinn er enginn annar en blúsvökumaðurinn Sam Charters, sem bjó áratugum saman í Svíþjóð og var ekki bara sænskur ríkisborgari heldur þess utan einkavinur (og þýðandi) Tomasar Tranströmer. Hef ég nýverið uppgötvað. Platan kostaði bara hundrað sænskar svo ég kippti henni með mér (ásamt einni Best of Freddie King) og skellti mér svo á kaffihús til að vinna svolítið. Dagarnir mínir fara svolítið mikið í að vera á vergangi niðri í bæ að leita mér að eirð og vinnufrið. 

Og þá sló það mig. Peps minnti mig svona mikið á annan íslenskan blúsmann – Tómas Ævar, sem ég þekki fyrst og fremst sem kærasta vinkonu minnar Fríðu Ísberg. Ég sendi auðvitað Fríðu skilaboð undir eins. Hún hló (eða skrifaði haha á spjall held ég eða sendi einhvern hláturkarl) og sagði að þetta væri kannski framtíðarTómas og þá baðst ég velvirðingar, Peps væri vissulega ellilegri en hennar ástkæri (ég komst að því reyndar síðar að Peps er yngri en Tómas þegar platan er gerð, ekki þrítugur – en að sönnu ellilegri samt, sennilega var lífið bara óskammfeilnara). Næst rak ég augun í að barítónsaxofónleikarinn á plötunni heitir Per Erik Isberg. Eftir að hafa látið Fríðu vita af þessu líka lagði ég frá mér plötuna og fór snarhendis aftur að skrifa ódauðlegan skáldskap, einsog ég fæ laun fyrir. 

Það fyrsta sem ég gerði eftir vinnu – þegar ég var búinn að kaupa í matinn og tæma úr pokunum – var að setja Blues På Svenska á fóninn og uppgötva, mér til talsverðrar gleði, að Peps er ekki bara sænskur heldur skánskur. Það er einhvern veginn blúsaðra að vera skánskur en að vera til dæmis (og kannski sérílagi) stokkhólmskur. Ég gæti líka trúað á norrlenskan blús – þar er bæði harmurinn djúpur, náttúran grimm og fólkið gætt mikilli sál – en trúi því engu að síður að skánski hreimurinn gefi sig betur að blústónlist, allir þessir rænulitlu sérhljóðar og gruggugu samhljóðar. Stokkhólmsbúar eru líka of hreinlífir í sínum lífsnautnum – þeir drekka of fín vín, borga of mikið fyrir (vegan) steikina og fara of oft í bað. 

En språkärring sa till morsan  innan jag sett dagens ljus – Det e en grabb på väg pigg på att leva bus.  Hans aptit på livet  blir större än nån kan förstå Tills hela världen undrar vad i helvete som står på. Du vet, jag e här alla vet att jag e här Jag e en HOKUS POKUS MAN alla vet att jag e här.

Það eru 10 lög á plötunni, sem kom út árið 1975. Opnunarlagið er Hokus Pokus Man (Hoochie Cooche Man eftir Willie Dixon) og svo eru hápunktarnir sennilega Ropar På Min Snoppa (Howlin\’ for My Darlin\’ eftir Howlin Wolf) Allt Det Som Sårar Dej (It Hurts Me Too eftir Elmore James) og Liten Rö Tocke (Little Red Rooster eftir Willie Dixon). Í sem stystu máli sagt er þetta andskoti vel gert og ekki nærri eins mikið noveltí-ítem og ég hafði ímyndað mér. Í … hvað kallar maður „liner notes“ á íslensku? Formála að plötu? Í formála sínum skrifar Sam Charters:

Blús á sænsku … Blús er sannarlega ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar maður hugsar um sænska tónlist. Nei, sennilega er Svíþjóð síðasti staður á jarðríki sem maður hugsar um þegar blúsinn er annars vegar.

Þetta hlýtur að hafa verið skrítið fyrir Sam. Á sjötta áratugnum var blúsinn afar jaðarsettur – og hann hafði einsett sér að koma honum á framfæri við almenning, ekki síst til þess að vinna bug á landlægum rasisma í Bandaríkjunum. 20 árum síðar hefur blúsinn lagt undir sig gervallan hinn vestræna heim – það var blús alls staðar – og hann er mikið til leikinn af hvítu fólki. 

Þrátt fyrir hikandi byrjun eys hann nú talsverðu lofi á þá Peps og Slim en klykkir út með:

En þessi músík hefur fengið sænska umgjörð, sína eigin kryddblöndu og eigið vörumerki. Þetta er blús. En þetta er blús á sænsku. 

Og það má til sanns vegar færa. Og kannski er þetta enn fremur bara blús á pepska – og slimska – vísu. Það erfiðasta við að spila blústónlist, hvort sem maður er frá Clarksdale eða Klippan, er að gæða hana persónuleika – því því verður einfaldlega ekki neitað að þessi tónlist er endurtekningasöm, stundum svo jaðrar við zeníska geðbilun, og þá eru það díteilarnir, sándið og einfaldlega persónuleikinn sem gerir músíkina. Það er erfitt að spila blús einmitt vegna þess að hann er einsleitur í grunninn. Margir blústónlistarmenn eru hálfgerðir períóðuleikarar – klæða sig upp í sokkabuxur og spila á lútu eftir kúnstarinnar reglum til þess að hljóma einsog eitthvað ídeal um blúsmanninn. Og geta kannski brugðið fyrir sig bæði Blind Blake og Mississippi John Hurt og hljómað eitthvað einsog báðir. En svo eru hinir sem gætu aldrei hljómað einsog neitt annað en þeir sjálfir. Muddy og Wolf léku báðir ótal lög eftir Willie Dixon og tilviljun réði því oft hver fékk hvaða lag en þeir hljómuðu aldrei einsog hinn – og heldur aldrei einsog Willie Dixon. Og þegar Peps leikur þessi lög hljómar hann bara einsog Peps. 

Kvöldið eftir var ég síðan að lesa ævisögu KK – Þangað sem vindurinn blæs eftir sveitunga minn Einar Kárason* – og þar skaut Peps aftur upp kollinum. KK bjó í rúman áratug í Malmö og kynntist að vísu aldrei Peps en mun hafa haldið upp á hann – og Einar gerir einmitt aðeins úr því að þeir hafi verið svolítið líkir, rauðhærðir grannir og svolítið teknir blúsmenn. Kannski er þetta bara eitthvað norrænt blúsgen – nú eða keltneskt. Þegar KK var í Svíþjóð (frá 77 minnir mig) var Peps Persson hins vegar mestmegnis að leika reggítónlist – vatt kvæði sínu í kross og er held ég þekktastur í Svíþjóð sem reggítónlistarmaður. Blues På Svenska var síðasta blúsplatan hans í 20 ár – en 1995 sneri hann aftur í ræturnar og gaf þá út plötuna Rotblos þar sem má meðal annars finna þessa dásemd: Min Trollmoj Funkar. 

Hér eru svo loks að gamni Howlin\’ for My Darlin\’ með Howlin\’ Wolf, Peps Persson (Ropar på min snoppa) og KK (Þrettán skref). 
* Bók Einars um KK er mjög skemmtileg – Einar er náttúrulega æðislegur sögumaður og innlifun hans afar smitandi og ævi KK áhugaverð. Það er hins vegar einsog Einar – eða útgefandi, prófarkalesari eða aðrir samstarfsmenn – hafi ákveðið að slá ekki upp nema íslenskum orðum og heitum. Þannig er varla orð, setning, nafn eða heiti á erlendum málum – ef frá er talin enska – sem ekki er vitlaust stafsett. Sables-D\’Olonne verður Sable de Loné, Cornelis Vreeswijk verður Wreeswiik, Krogen er Krugen, sænska ö-inu er skipt út fyrir ø í einhverjum nöfnum og meira að segja Stevie Ray verður Steve Ray. Þetta er kannski smámunasemi en var nógu algengt til að vera orðið óþolandi fyrir rest. 

Aukaefni: Textar og formáli
0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png