top of page

Gísli Hjartar


Blokkin þar sem Gísli átti heima. Þegar þetta gerðist var ég nýfluttur úr kjallaraíbúð í húsinu lengst vinstra megin – þar sem ég hýsti einmitt einu sinni kunningja minn og vin hans, DV blaðamennina Símon Birgisson og Andra Ólafsson, sem voru komnir á Aldrei fór ég suður.

Það er frábært viðtal við Andra Ólafsson í hlaðvarpinu Eftirmál um Gísla Hjartarmálið. Þar segir hann frá upplifun sinni af því að skrifa „afdrifaríkustu frétt fjölmiðlasögunnar“ einsog Jakob Bjarnar kallar það í fyrirsögn, þegar Gísli var sakaður um barnaníð og settur á forsíðu DV undir fyrirsögninni „Einhentur kennari sagður nauðga piltum“. Það er bíó að lesa um havaríið svona eftir á og Andri virðist fær um að sjá þetta furðu skýrt – sem mér hefur þótt fáir gera. Hann segir að auðvitað hafi blaðið ekki drepið Gísla, einsog margir héldu fram, en kemur líka inn á mikilvægan punkt:

eftir á að hyggja, ef maður horfir á þetta alveg kalt, nokkrum árum seinna þá skapaðist það ekkert bara af þessari einu frétt. DV hafði verið mjög áberandi og umdeilt í umræðunni í langan tíma fram af þessu. Í hugum margra var þetta kornið sem fyllti mælinn. Fólk var búið að fá upp í kok af þessu blaði og vildi það bara í burtu.

Ég man eftir því að hafa fundist stemningin á blaðinu – sem ég var áskrifandi að – skemmtilega hortug í fyrstu. Þetta var götustrákablað og maður tók það oft upp og hló hryssingslega að því hvað þeir gátu gengið langt. Þeir hlífðu engum. Fólk fékk alls konar uppnefni og varð að fastagestum – einn hét „hestariðillinn“ eða eitthvað álíka, svo var „ofbeldissystirin“, „kafteinn kókaín“ og þar fram eftir götunum. Innanum var alls konar rugl – t.d. var Gillzenegger með pistla um fótbolta sem gengu mest út á að kalla útlenska knattspyrnumenn þroskahefta. Ég held að þessi stemning hafi verið klöppuð upp af ákveðinni þórðargleði – og jafnvel réttlætiskennd – og blaðamennirnir spiluðu með. Þegar á leið missti almenningur hins vegar smekkinn fyrir þessu, eftirbragðið var beiskt, og ég held að sjálfsmorð Gísla hafi verið spádómurinn að uppfyllast: fyrr eða síðar drepur sig einhver í þessum hamagangi.


Svipuðu hefur verið haldið fram með metoo vel að merkja – að þar sigri kapp stundum forsjá – og rétt einsog þar mun, þegar að því kemur, sá sem drepur sig fyrst og fremst hafa drepið sig sjálfur og ástæðan verður sennilega bara einmitt sú sem Andri nefnir í viðtalinu: viðkomandi getur ekki horfst í augu við afleiðingar gjörða sinna. Þótt auðvitað sé líka til í dæminu að fólk drepi sig vegna skammar sem það á ekki skilið – einsog þegar Benny Fredriksson, framkvæmdastjóri borgarleikhússins í Stokkhólmi, drap sig fyrir fimm árum eftir ásakanir um „óviðeigandi hegðun“, en hann varð sannarlega fyrir einhvers konar einelti fjölmiðla. Gengið var mjög hart að honum á mörgum vígstöðvum á þriggja mánaða tímabili sem endaði með sjálfsmorði – hann var síðar sýknaður í öllum rannsóknum, fjölmiðlar (Aftonbladet þar fremst í flokki) kærðir og sakfelldir fyrir framgang sinn, og borgarleikhúsið í Stokkhólmi veitir nú árlega 1,5 milljón í menningarstyrki í minningu hans.


Þessu var auðvitað öfugt farið með Gísla – hann drap sig strax og þetta komst í fjölmiðla. Eða eiginlega nóttina áður. Og hann var alveg áreiðanlega sekur. Ég þekkti Gísla ágætlega þótt ég hefði ekki heyrt þennan orðróm fyrren rétt áður en þetta kom í DV. Ég kynntist honum þegar ég var barn og bar út til hans þetta sama blað – Dagblaðið Vísir. Þá bönkuðu blaðabörn upp á einu sinni í mánuði til að rukka blaðið og Gísli bauð mér stundum inn og gaf mér kók á meðan hann skrifaði tékkann – sem var tímafrekara fyrir hann en tvíhent fólk. Hann var svona „hress karl“, síblaðrandi og gerandi gamni sínu. Og hann var umkringdur strákagengi – svona mest á aldrinum 14-18 á að giska, einhverjir yngri og einhverjir eldri. Sumir voru a.m.k. með bílpróf og maður sá þá oft á bílnum hans. Marga þeirra var hann með í einhvers konar heimanámsaðstoð – þótt mér hafi á sínum tíma þótt það pínu langsótt að stilla honum upp sem kennara, þá var það ekki alveg út í hött. Það voru strákar úr þessu gengi sem urðu fyrir barðinu á honum – og aðrir strákar úr þessu gengi sem vörðu hann harðast þegar ásakanirnar komu fram.


Fljótlega eftir að ég réði mig sem blaðamann á Bæjarins besta stoppaði Gísli mig á götu og bauð mér á rúntinn með sér. Sem var vel að merkja óvenjulegt – ég þekkti hann ekki meira en bara til að spjalla mjög stuttlega á förnum vegi. Gísli vildi ræða við mig um blaðamennskuna. Hann var sjálfur fyrrverandi blaðamaður á Vestfirðingi og Skutli og ætlaði að ráða mér heilt. Gísli sagði að Sigurjón, ritstjóri Bæjarins besta, væri – einsog flestir blaðamenn – alger aumingi sem þyrði aldrei að tækla neitt mál af alvöru og ef ég ætlaði mér einhvern feril í þessu starfi skyldi ég fyrst af öllu sætta mig við þá staðreynd að alvöru blaðamaður gæti ekki átt neina vini, en safnaði þess heldur óvinum. Sjálfur hefði hann aldrei hlíft neinum, enda væri samfélagið rotið inn að kjarna – það væru til menn sem hann hefði skrifað um og afhjúpað fyrir áratugum síðan sem hefðu aldrei fyrirgefið honum og myndu aldrei gera það. Og það væri alltílagi, það væri bara eðli starfsins. Þegar Gísli drap sig sló það mig auðvitað strax að hann hefði líklega ekki farið mýkri höndum um sig sjálfur – kannski sá hann aldrei forsíðu DV en hann sá hana kannski fyrir sér. Og þá var hún kannski bara í hans anda.


Þetta mál kom annars inn á borð hjá mér nokkrum vikum fyrr. Hugsanlega var það milli jóla og nýárs – kannski rétt fyrir jól. Og þegar ég segi „kom inn á borð hjá mér“ þá meina ég hornborðið á Langa Manga einhvern tíma milli tvö og þrjú á laugardagskvöldi. Gísli var ekki nefndur á nafn – fólkið sem kom til mín var aðstandendur og vildi vita hvort Bæjarins besta gæti gert eitthvað með upplýsingar af þessu tagi. Þá var ritstjórnarstefna Bæjarins besta þveröfug við ritstjórnarstefnu DV – í sakamálum birtum við ekkert nema opinber gögn og ég sagði fólkinu að ef það yrði kært myndum við strax birta frétt en án kæru væri engin frétt. Ég er ekki frá því að svona hafi ritstjórnarstefnan verið víðar – jafnvel hjá sumum landsblöðunum – og kannski hafði þetta pólaríserast einmitt út af DV. Þetta hefur auðvitað breyst mjög mikið síðan – sérstaklega eftir metoo.


Þetta byrjaði svo auðvitað allt með kæru – og kemur mér á óvart svona eftir á að það líða hátt í tvær vikur frá kæru og þar til þetta er komið í DV. Og ekki kom þetta í BB allan þann tíma enda birtum við eiginlega bara fréttatilkynningar, hagstofufréttir og endursögðum rifrildi úr bæjarpólitíkinni – og vissum ekkert um neinar kærur. Ég man svo ekki hvenær ég heyrði að þetta væri Gísli, að það væri komin fram kæra eða að það hefði verið gerð húsleit hjá honum – kannski var það bara daginn áður, þegar Andri var byrjaður að hringja, og kannski kvisaðist það út eitthvað fyrr. Ég man allavega að áður en ég fór úr vinnunni daginn áður vissi ég að þetta yrði í blaðinu daginn eftir – ætli DV hafi ekki falast eftir ljósmyndum frá BB? – það hafði verið rætt hvort við ættum að hringja eitthvað og grennslast fyrir, sennilega hafði einhver hringt í lögguna og ekkert fengið staðfest og það látið þar við sitja. Fljótlega eftir að ég mætti í vinnuna daginn eftir spurðist síðan út að Gísli hefði stytt sér líf en það var líklega ekki komið í fréttir fyrren seinnipartinn.


Eitthvað var svo skrifað um málið á BB-vefinn, endursagnir úr DV og kannski af fleiri miðlum, en ekkert af því endaði í prentaða blaðinu – að hluta til áreiðanlega af praktískum ástæðum. Gísli drap sig þriðjudaginn 10. janúar og þá hefur verið búið að setja blaðið sem kom út morguninn eftir – BB var aldrei beinlínis að springa af nýjustu fréttum. Viku síðar var þetta bara orðið of gamalt – en þá fjallaði nafnlausi dálkurinn Stakkur lítillega um málið, vottaði aðstandendum Gísla samúð en sagði DV sannarlega eiga rétt á sér þótt það færi fram úr sér og að nærgætni væri þörf og la tí da.


Kannski var þetta síðasta alvöru upphlaupið fyrir samfélagsmiðla. Í dag eru svona læti í einhverjum skilningi algengari – en kannski daufari líka? Við veðraðri? Andköfin æfðari? Og nánast absúrd tilhugsun að stór fjölmiðill hafi setið á skúbbi í bróðurpartinn úr sólarhring til þess að geta birt það á prentaðri forsíðu daginn eftir.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page