Guði sé lof

Hins vegar er ég ennþá til, þótt furðulega megi virðast. Ég hef ekki gefist upp á tilvistinni sem slíkri, heldur spólað aftur til ársins 2004, 2005, 2006, 2007, 2008 jafnvel, til þess tíma áður en samtíminn hófst, þegar enn var til sjálf sem var ekki vortex heldur perspektíf.

Ég vaknaði klukkan sjö, einn í rúminu. Aino hafði gubbað (samt alveg hress) og Nadja farið með hana inn á skrifstofuna sína, sem er líka gestaherbergi. Svo komu börnin mín bæði og gáfu mér kraftknús og ég dröslaðist á fætur. Borðaði Havre Fras kodda í morgunmat, pakkaði í ferðatöskuna, drakk espresso sem við köllum ekki lengur espresso heldur mokkakaffi, frá því að semantísk nákvæmni hipstersins tók völdin í heimum bragðlaukana. Las nokkur ljóð í ljóðasafni Gyrðis. Síðan keyrði ég Aino Magneu á leikskólann og fór sjálfur út á flugvöll.

Konan fyrir framan mig á leiðinni út í vél virtist aldrei hafa flogið áður. Hún spurði flugfreyjuna hvort maður mætti bara setjast hvar sem er. Og var svo vísað til sætis. Í sætisröðinni fyrir aftan mig var strákur, svona átta ára kannski, eða tíu ára, eða tólf í mesta lagi, með grænan hanakamb. Hinumegin við gangin var dóttir Billu og Elfars Loga ásamt barnabarninu. Ég svaf stærstan hluta flugsins, með hattinn í andlitinu.

Þegar ég sagði leigubílstjóranum í Vatnsmýrinni að ég ætlaði bara út á BSÍ spurði hann hvort ég ætlaði ekkert að spila í kvöld; ég sagði nei og spurði svo Mugison í tölvupósti hvort hann ætlaði ekkert að spila í bænum fljótlega, hann sagði já, jújú, næstu helgi, nokkrir miðar lausir og ég bar þau skilaboð áfram án þess að taka fram að ég væri ekki þessi sem gerir það hljóðlega, ég væri hinn, þessi sem er alltaf að þrátta við fólk.

Hvert ertu að fara? Köben? spurði leigubílstjórinn vinalega þegar hann hafði fengið upplýsingar um veðurfar á Ísafirði í haust.

Til Svíþjóðar, sagði ég.

Tómar óeirðir þar, sagði hann. Vinalega.

Ég hváði.

Innflytjendur, hélt hann áfram, vinalega. Til tómra vandræða.

Ég svaraði engu og réttlætti það fyrir sjálfum mér með því að maður geti ekki tekið alla slagi.

Í rútunni til Keflavíkur var dóttir Ólínu og Sigga Péturs, Saga, og barnabarnið. Ég kláraði ljóðasafnið hans Gyrðis (það var frábært) og áður en ég tékkaði töskuna inn dró ég fram Þegar að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino og Feigðaróra Kristófers Páls Viðarssonar. Ég er byrjaður á hvorugri.

Á flugvellinum er líka snjóbrettakappinn sem ég held að heiti Eiríkur, einsog ég. Fyrir framan mig, yfir tímaritarekkanum, eru stór plaköt með andlitum: Björk, Arnaldur, Siggi Páls, Yrsa, HKL, Einar Kára, Auður Ava, Jón Kalman, Guðrún Eva og Stephen King. Alltaf þessi Stephen King. Og gott ef ég sé ekki líka glitta í hana Auju í horninu. Ég tók strax eftir því að það var engin mynd af mér. Ekkert stingur jafn mikið í augun og þegar mig vantar. Kannski ég líti í búðina og sjái hvort það sé í öllu falli til einhver bók sem ég hef skrifað.

Ég sit á Joe & the Juice, át samloku, drakk sjeik og kaffi. Ég er að reyna að klára ljóð fyrir morgundaginn.

Það er ennþá þögn í höfðinu á mér. Guði sé lof.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png