Gróf drög að lögum um útgáfuhóf

1. Í útgáfuhófinu verður skáldsögunni Heimsku fagnað – þar verður skálað og þar verða allir glaðir og reifir. 1.1 Útgáfuhófið skal haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði – líklega Edinborgarsalnum – þann 17. október, 2015, og skal það hefjast eigi síðar en klukkan 20 að kvöldi og standa ekki skemur en til klukkan 23. Takið kvöldið frá nú þegar; síðar verður það of seint, þá verður búið að bjóða ykkur í eitthvað andskotans kvöldverðarboð eða á einhverja hollívúddræpu í bíó. Þið eigið dagatöl, notið þau. Það væri glatað ef það kæmi enginn, þetta er svo stór salur. 1.2. Í útgáfuhófið eru vel að merkja allir velkomnir. 1.3. Eftir útgáfuhófið fara þeir heim sem eru þreyttir en hinir þreyja nóttina á enda.

2. Útgáfuhófið skal sent í beinni útsendingu á netinu, því verður streymt, einsog fljóti. 2.1. Skipuleggjendur skulu leggja sig fram um að gera útgáfuhófið sem vistlegast fyrir þá sem vilja upplifa það á netinu – þeir munu fá að taka þátt að eins miklu leyti og reynist mögulegt. 2.1.1. Fýsísk þjónusta – svo sem sala á veitingum eða listaverkum – mun þó takmörkuð við þá sem komast á staðinn. 2.2. Þetta er allt saman eftir bókinni, enda þemað eftirlitssamfélagið, afhjúpun og svo framvegis. 2.2.1. Gestir verða einnig hvattir til þess að félagsmiðla hófinu eftir fremsta megni, livetweeta, facebooka, periscopa, instagramma, goodreadsa, vine-a og svo framvegis. Þeir sem vilja skæpa við vini sína á meðan gera það. Það má meira að segja blogga. Eða taka með sér dagbók.

3. Í útgáfuhófinu verða kostaboð á eftirfarandi: a) Skáldsögunni Heimsku. b) Bjór. c) Hugsanlega einhverjum öðrum bókum undirritaðs. d) Gestum í netheimum verður gert kleift að kaupa rafbókina og/eða hljóðbókina á afslætti.

4. Í útgáfuhófinu verður boðið upp á takmarkað magn af veitingum í föstu formi, svo sem, en ekki endilega, kransatertur, eldspýtnakartöflur, tortillaflögur, ritzkex og annað eins. 4.1. Ekki er þó ætlast til þess að gestir mæti sársvangir. 4.2. En kannski ekki útbelgdir heldur.

5. Í útgáfuhófinu verða skemmtiatriði. 5.1. EÖN les upp úr skáldsögunni Heimsku og ræðir hana við bókmenntafræðinginn Inga Björn Guðnason. 5.1.1. Opið verður fyrir spurningar úr sal. 5.1.2. Opið verður fyrir spurningar af neti, úr hinum stóra heimi. 5.2. Pétur Magnússon, einnig þekktur sem fallegi smiðurinn, og Smári Karlsson, stýra bókmenntakvissi. 5.2.1. Þemað í kvissinu verður heimska. Ekki bókin, heldur umfjöllunarefnið. 5.3. Í aðalverðlaun verður úrval verka eftir EÖN. 5.3.2 Þau sem svara hinni svonefndu bjórspurningu rétt fá alls engan bjór nema þau kaupi hann sjálf. Þess í stað geta þau valið á milli þess að fá eintak af skáldsögunni Heimska eða plakat með a) kápumyndinni eða b) myndinni af kápunni (munurinn á þessu tvennu mun skýr þeim sem sjá kápuna (sjá mynd)). 5.3.2.1. Fjöldi plakata er þó takmarkaður. 5.4 Fjarþátttaka í kvissinu, með aðstoð netsins, verður gerð möguleg. 5.4.1. Sigri fjarkeppandi fær hann eða hún send sín verðlaun í pósti.

6. Einsog áður segir er skyldumæting. 6.1. Það eiga allir að kaupa sér bók. 6.1.1. Höfundur skuldbindur sig til að árita allar seldar bækur, sé þess farið á leit.

7. Þeim sem vilja vera með skemmtiatriði, halda ræður og svo framvegis eða annað eins, er bent á að hóa í höfund bókarinnar á götu eða félagsmiðlum. 7.1. Skemmtikraftar þurfa ekki allir að vera á svæðinu í sínu fýsíska formi.

8. Lögum þessum má breyta fyrirvaralaust.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. 18. september, 2015

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png