Grípandi titill

Nýi bloggritillinn minn vill að ég setji grípandi titil á færslurnar mínar. Og sennilega líka að ég birti glæsilegar ljósmyndir með þeim texta sem ég hyggst skrifa hérna. Mér finnst ekkert ósennilegt að ég verði við því. Svona með tíð og tíma allavega.


Bókmenntahátíð er nú í Reykjavík. Þar virðist vera gaman. Ég hef ekki oft farið – fór einu sinni eða tvisvar þegar ég bjó í Reykjavík (sem var þá öll skiptin sem hún var haldin þegar ég var þar). Sá Edward Bunker, man ég, Haruki Murakami og Jan Sonnergaard. Kristiinu Ehin og pabba hennar, sem ég man því miður ekki hvað heitir. Eða hét – hann var fjörgamall og þetta er langt síðan. En mér fannst svo sem Alice Cooper líka fjörgamall þegar ég sá hann í Pýreneafjöllunum 1996. Þá var hann rétt aðeins eldri en ég er núna.


Svo var mér boðið 2011. Gat reyndar stoppað stutt við sjálfur, vegna einhverra anna – við bjuggum í Oulu og Nadja þurfti að byrja í skólanum og ég var sennilega að fara í feðraorlof og man að ég kom beint frá Jurbarkas, þar sem ég var í Illskuferð. Þá var Nawal El-Sadawi og Horacio Castellanos Moya.


Ég hef svo sem ekki grátið að missa af mörgu – ef það eru einhverjir viðburðir sem ég er ekki sérlega sveltur af eru það bókmenntahátíðir (þótt í sjálfu sér sverfi kannski að hungur bráðlega, eftir covid-rýrnunina) – en ég hefði viljað sjá JM Coetzee á sínum tíma og Hakan Gunday og Margaret Atwood.


Haukur Ingvarsson vinur minn var hins vegar að gefa út ljóðabók sem ég hef lesið í handriti og er ekkert minna en æðisleg. Menn sem elska menn heitir hún. Ég hefði viljað mæta í útgáfuhófið hans. Ég er reyndar hissa að honum hafi ekki verið boðið á bókmenntahátíð – hann er líka með bók um Faulkner sem er mjög spennandi (eina doktorsvörnin sem ég hef horft á á netinu – rosa gott stöff).


Þá voru Ásta Fanney og Páll Ívan líka að gefa út bækur hjá Tungl forlaginu. Það er vinalegt forlag og vinalegt fólk sem rekur það og það er erfitt að vera illa við stemninguna – hún er svo kósí – en ég hef nú samt hálfgerða ímugust á fagurfræði forlagsins. Sem er altso að gefa út bækur á fullu tungli og brenna þær svo á eftir – það sem ekki selst um kvöldið. Hugmyndin er víst að vera eins konar móteitur við hinu allsráðandi aðgengi samtímans – að maður fái allt alltaf þegar maður vill. En ég hef ýmislegt við það að athuga.


Í fyrsta lagi þá fær maður alls ekki allar ljóðabækur alltaf þegar maður vill – þær standa utan við lögmál auðmagnsins, vegna þess að eftirspurnin eftir þeim er lítil. Nýjar ljóðabækur fást varla í bókabúðum utan miðborgarsvæðisins. Gamlar ljóðabækur fást eiginlega ekki nema í bókaverslunum forlaganna eða – í þeim tilfellum þegar smáforlög eða höfundar sjálfir hafa gefið bækurnar út – einvörðungu ef þú þekkir höfundinn. Fyrir löngu síðan vorum við Lommi með áform um að digitalísera gamlar íslenskar ljóðabækur og búa til arkífu – svona í anda UbuWeb – en af því varð því miður aldrei.


Í öðru lagi þá er ég alinn upp úti á landi við takmarkaðan bókasafnskost – bókasafnið hérna var og er mjög gott, en þar var samt ekki hægt að finna nein bítskáld og þaðan af síður einhverja framúrstefnu. Ég þurfti að hafa mikið fyrir því bara að komast að því að hlutir væru til – og svo enn meira til þess að grafa þá uppi. Drengurinn sem ég var grætur svona tiktúrur.


Í þriðja lagi skapa svona aðgengishindranir mismiklar hindranir fyrir ólíka hópa og ólíkt fólk. Maður þarf að eiga heima í Reykjavík – það er eitt. Þar með erum við dreifararnir úti. Svo þarf maður að eiga heimangengt á tilteknum tíma. Á löngu tímabili var það alls ekki gefið í mínu lífi að ég kæmist út á kvöldin af praktískum uppeldisfræðilegum ástæðum. Í þriðja lagi þarf maður að í einhverjum skilningi að tilheyra. Þegar ég var ungur – og að einhverju leyti enn – átti ég erfitt með að stíga fýsískt inn í rými þar sem mér fannst ekki að ég tilheyrði. Hindranir af þessu tagi – svona MR-elítismi – eru bara til þess að bjóða mann óvelkominn. Þær segja: hér er menningin okkar.


Nú gæti maður ímyndað sér að öllu þessu mætti redda. Og að sönnu hafðist það. En fyrstu skilaboð sem ég fékk voru á þá leið að „það mætti ekki kaupa bækur eða taka frá fyrir þá sem ekki eru á staðnum“.


Ég hugsa að svarið sem er eftir sé bara „maður þarf ekki að eiga allt“ eða „maður hefur engan rétt til að kaupa allt bara af því maður vill það“. En hvers vegna að setja þröskuld á búðina sína ef maður veit að hana vill sækja fólk í hjólastól? Það er sök sér að finnast þröskuldar fallegir – gamaldags, nostalgískir, ekki sama H&M rýmiskjaftæðið – en segjum að maður reki verslun í þröskuldalausu húsi. Hvernig á maður að taka því þegar eigandinn neglir niður þessa tímaskekkju í gættina hjá sér svo tíundi hver kúnni kemst ekki inn og kallar það „móteitur við neyslusamfélaginu“?


Annars er ég bara í mjög góðu skapi! Og bíð spenntur eftir að fá eintökin sem leynilegur fulltrúi minn keypti fyrir mig án þess að gefa upp að þau væru í raun ekki fyrir hann sjálfan heldur fyrir auman utanbæjarmann.


Og hafiði það.

14 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png