Grímulaus kórónaveiki – Svíþjóð og Ísland og allir hinir

Frá því á sunnudag fyrir viku hef ég gengið með grímu utandyra. Ég geng ekki með hana innanhúss á skrifstofunni og þegar ég fer út að hlaupa læt ég duga að hífa buffið upp fyrir vitin þegar ég mæti einhverjum. Ég fer heldur ekki víða. Ég skýst yfir á Heimabyggð eftir kaffi, í Hamraborg eða Thai Tewee eftir mat og fer í Nettó á leiðinni heim. Bara einsog venjulega. En það eru engin matarboð og engar heimsóknir og verið þannig lengur fyrir mig en flesta – af því ég lá í flensu allan febrúar ofan í hitt.

View this post on Instagram


A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 22, 2020 at 9:04am PDT

Grímuna keypt ég í Víetnam fyrir fimm árum, sennilega bara rétt eftir að við komum og þá í Hanoi frekar en Hoi An. Þar eru grímur af þessu tagi staðalbúnaður – ekki vegna sjúkdóma og flensu heldur vegna mengunar. Í Da Nang, Hanoi og Saigon og öðrum stórborgum var mjög þægilegt að hafa grímu í umferðinni – á vespum eða reiðhjólum. En í Hoi An var það hálfgerður óþarfi og við notuðum þær aldrei mikið. En þær hafa legið í búningakörfu krakkanna síðan við komum hingað.

Sunnudaginn sem ég setti hana upp í fyrsta sinn á kórónatímum var ég á leiðinni að hitta mann. Engan annan hef ég hitt nema í augnablik og augnablik síðustu vikur og við ákváðum að hittast úti og fara í göngutúr. Svo ég gróf upp þessa grímu og setti hana upp og hef notað hana síðan. Í göngutúrnum keyrði framhjá okkur bíll með tveimur farþegum sem voru báðir með grímu og sennilega sá ég sama fólkið í Nettó nokkrum dögum seinna en annars hef ég ekki orðið var við grímur nema á afgreiðslufólki – sumir í Nettó og svo kallinn sem rekur Thai Tewee. Ég átti von á því að þeim myndi fjölga en sú hefur ekki verið raunin. A.m.k. ekki á Ísafirði.

– Hvað heldurðu að fólk hugsi, spurði Nadja mig í gær þegar við vorum í göngutúr. Hún grímulaus, vel að merkja. Þegar það sér grímuna, bætti hún við.

– Alls konar, sagði ég.

– Heldurðu að fólk haldi að þú sért veikur?

– Að ég sé í sóttkví? Já, ábyggilega. Maður á ekki að fara í búðir þegar maður er í sóttkví en það gera það víst margir. En sumum finnst þetta bara fyndið, held ég. Að ganga með grímu. Margir bókstaflega þrá að taka þetta ekki alvarlega, að þetta sé ekki neitt neitt – fólk vill bara slappa af. Og þá hlær það annað hvort eða setur upp skelfingarsvip. Þetta er líka áminning um dauðann. Margir hugsa líka hvort þeir ættu sjálfir að vera með grímu. Margir hugsa ábyggilega líka að ég hljóti að vera mjög hræddur við að veikjast.

– Ertu hræddur við að veikjast?

– Nei. En ég er mjög hræddur við að bera smit. Ég held það væri ekki gaman að uppgötva seinna að maður hafi verið smitaður og maður hafi ekki farið eins varlega og manni var unnt. Þannig lagað. Auðvitað gæti ég líka bara sleppt því að fara í búðina eða kaupa kaffi á Heimabyggð og fara í göngutúra. En mér finnst ágætt að finnast ég vera að gera eitthvað. Og mér finnst ágætt að ástandið sjáist – á mér – það eru áhöld um hversu mikið gagn grímurnar geri, þótt þær geri áreiðanlega eitthvað, en það er ábyggilega gagn í því að vera sýnileg áminning.

Og svona töluðum við áfram. Það var að vísu erfitt að heyra hvað við vorum að segja af því það var svo mikið rok og dálítil umferð og ég auðvitað með grímu fyrir andlitinu.

***

Einn vinur minn á Facebook er með það á heilanum að Svíar séu svo miklu krítískari í sinni Covid-umræðu en Íslendingar. (Þegar ég segi „með það á heilanum“ á ég við að hann hefur ábyggilega nefnt það tvisvar – eða allavega ekki sjaldnar en einu sinni. En ég sé fyrir mér að hann hugsi um þetta viðstöðulaust. Þannig virkar bara internetið.) Ég hef ekki orðið var við þessa hörðu krítík í fjölmiðlum nema að litlu leyti – og ekkert hjá sænskum vinum mínum. Lengst af voru efnahagsfréttir alltaf efstar og enn eru sænsku miðlarnir þeir einu sem ég dett inn á – af íslenskum, amerískum, breskum, dönskum og finnskum – sem eru ekki alltaf með Covid sem efstu frétt. Og mér finnst Svíar bara mjög uppteknir af því að verja afstöðu sína – eða afstöðu Tegnells, sóttvarnalæknis. Enda sosum kannski ekki skrítið. Það langar engan að trúa því að samfélagið sem á að vernda hann – yfirvald eða fólk – sé brostið og allt sé á leiðinni til andskotans.

Og blöðin – fréttir, ekki bara pistlar – full af einhverjum svona bendingum um að á meðan aðrir séu að taka „pólitískar“ ákvarðanir séu Svíar að taka „vísindalegar“ ákvarðanir. Einsog það séu ekki sóttvarnalæknar sem taki þessar ákvarðanir í öðrum löndum eða það hafi ekki tvö þúsund (!) sænskir vísindamenn skrifað undir opið bréf um að Tegnell ætti kannski að hugsa sinn gang – og a.m.k. annað eins af sérfræðingum víðs vegar að. Þá eru Svíar líka einir um að malda í móinn og segja að það sé nú óþarfi að fara að stilla upp svona þjóð gegn þjóð í þessu, það séu allir að reyna sitt besta. Milli þess sem þeir lýsa viðbrögðum Dana og Norðmanna sem fullkomnum fasisma, þar sem herinn ráði lögum og lofum, en Svíar ætli einir að standa vörð um hið borgaralega frelsi. Sem er mjög áhugavert og til marks um að líberalisminn hafi náð miklu meiri tökum á Svíum en ég hafði áttað mig á – þeir einblína mjög hart á að þeir treysti fólkinu til að fara eftir ráðleggingum og ætli ekki að setja neinar „óþarfa“ reglur. Hvað sem manni finnst um það per se er það augljóslega ekki í anda sósíaldemókratíunnar þar sem ákvarðanir eru teknar miðstýrt með hagsmuni heildarinnar fyrir augum – alveg ískalt og í trássi við vilja einhverra „einstaklinga“ – í sósíaldemókratíunni er það ekki upp á samvisku hvers og eins hvort hann pissar laugina heldur er það einfaldlega bannað. Af því við búum öll í sömu folkhemmets-lauginni.

Þetta með borgaralega frelsið er líka yfirleitt afstaðan sem Danir taka – grunnstilling þeirra – en Svíar verja hitt. Í norðurlandarígnum. Það eru Svíar sem yfirleitt segja að það sé gott og gilt að úthýsa Svíþjóðardemókrötum þannig að þeir geti ekki leigt sér sal undir ársfund (að vísu er það meira en tíu ára gamalt dæmi – times have changed) en Danir sem segja að maður verði að debatera þá í blöðunum og láta þá viðra af sér skítinn. Niðurstaðan hefur að vísu alltaf verið sú sama – og ef horft er á tölurnar gildir sama um kórónavírusinn. Danir gera einsog Norðmenn en uppskera einsog Svíar.

Svíþjóð er líka eina landið hvaðan ég fæ enn fb-boð á viðburði. Útgáfuhóf og svona. Nú er búið að þrengja samkomubannið hjá þeim úr 500 manns í 50 en 50 er ennþá hellingur – allir minni viðburðir ganga enn upp. Eitthvað heyrist mér að viðbrögð í skólum séu misjöfn – skólakerfið í Svíþjóð er miklu líberalíseraðra heldur en hið íslenska og skólarnir ólíkari og frjálsari um að sinna sínu (og rosalega misgóðir – foreldrar í endalausum eltingaleik við að koma börnunum í betri skóla). En það virðast allavega ekki vera neinar miðstýrðar reglur – ég veit um skóla þar sem kennarar eru enn að hitta fleiri hundruð nemendur sem allir éta upp úr sama salatbarnum. Og ég veit um kennara sem vilja ekki vera að kenna við þessar aðstæður en fá bara ekki að sleppa því.

Og ég sé líka Svía sem finnst þetta mjög erfitt og sem eru mikið heima. Auðvitað er þetta ekki þannig eðlisólíkt – hin persónulega afstaða er áreiðanlega svipuð milli landanna. Fólk sprittar sig, gætir að fjarlægðum, heldur fjarfundi og vinnur heima ef það getur.

Margir Stokkhólmsbúar hafa víst flúið borgina, þar sem veiran geisar, og kvarta undan því að verða fyrir fordómum þar sem þeir koma – það sé komið fram við þá einsog smitbera. Sem þeir gætu auðvitað verið. Íslendingar halda stundum að hér sé rígur milli borgar og landsbyggðar en það er ekkert í samanburði við Svíþjóð. Lattélepjandi Söderbúi trompar lattélepjandi miðborgarrottu án þess að blása úr nös. Við skulum nú ekki einu sinni nefna fólkið sem býr í Gamla Stan eða Östermalm! Og þegar þessi lattélepjandi efri-millistéttartrefill er líka hugsanlega að dreifa smiti um landið sem annars væri lókalíserað er hætt við að fjúki í einhvern.

Svíar segja líka að það sé ekki hægt að testa svona stóra þjóð – Kári var í viðtali í DN og hundskammaði þá fyrir að testa ekki. Enda veit ég ekki betur en að Þjóðverjar leggi líka áherslu á að testa og þeir eru eitthvað aðeins fleiri en Svíar. En Tegnell segir þetta samt einsog það sé bara staðreynd.

Hvað varðar Tegnell sem slíkan finnst mér alveg ástæða til að hugsa um þetta einsog önnur mál sem ég hef ekki nægt vit á sjálfur (og hafa í huga að þetta er margra ára nám og sérhæfing) t.d. loftslagsvandann. Ef næstum allir sérfræðingarnir segja A (þetta er grafalvarlegt og við þurfum að bregðast við með mikilli festu) en einn og einn segir B (rólegan æsing, við viljum ekki setja efnahaginn á hliðina eða blása þetta upp meira en þörf krefur – örfáar gráður hafa aldrei drepið neinn, mestu skiptir að við sínum persónulega ábyrgð hvert í sínu lífi) þá hallast ég að því að útvista kunnskapnum og trúa bara meirihlutanum. Það þýðir ekki að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér – þetta er bara tölfræðiveðmál hjá mér. Og ætti þá auðvitað frekar að halla mér að þýska sóttvarnalækninum en Víði. En svo er kannski líka rúm fyrir að aðstæður séu ólíkar milli landa.

Á Ísafirði er skóli til 12 – krakkarnir koma á 40 mínútna bili í kringum átta svo það verði ekki troðningur, fara allir í sínar stofur, taka með sér hádegismat og borða í stofunum og rekast ekki neitt á yfir skóladaginn. Fara ekki einir á klósettið o.s.frv. og eiga ekki að leika saman þvert á bekki eftir skóla (Aino skæpar við vinkonu sína sem býr skotspöl frá okkur; Aram leikur við vini sína í tölvunni á netinu). Fara einu sinni út yfir daginn í bekknum sínum að leika ef veður leyfir – og þá mikið til út af skólalóðinni, sýnist mér. Og ég veit um kennara sem hafa bara farið í sjálfskipaða sóttkví og það best ég veit er því sýndur skilningur. Sennilega er þetta mismunandi eftir skólum líka. Ég varð var við mikla gremju hjá reykvískum foreldrum fyrstu dagana en það hefur nú eitthvað lempast. Ég hélt þetta myndi ekki ganga en sennilega var rétt, sem mér var bent á, að þetta þyrfti bara að venjast.

Mér finnst þetta hughreystandi. Kannski er það fölsk hughreysting en samt. Þetta ástand getur varað lengi og sennilega skiptir miklu máli að reyna að setja ekki þjóðfélagið þannig af sporinu að það verði ekki hægt að halda aðgerðunum áfram meðan þess gerist þörf. Kannski er ástæða til enn harðari aðgerða – kannski er allur varinn góður – en maður þarf ábyggilega að eiga einhvern fúnkerandi infrastrúktur (og pening) þegar og ef bóluefni finnst. Kreppan sem tekur við af þessu bitnar líka alveg áreiðanlega mest á þeim sem mega síst við því – það er verkefni sem við verðum að taka mjög alvarlega þegar þessu lýkur. Við gætum annars hæglega setið uppi með mikið ójafnaðarsamfélag. Og að sama skapi þarf að gæta þess gríðarleg vel að undið verði vel ofan af öllu undanþáguástandi – öllu sem líkja má við herlög eða hjáleiðir í bjúrókrasíu. Það þurfa allir að eyða appinu úr símanum sínum þegar þessu lýkur því ríkinu er almennt ekki treystandi – og það breytist ekki þótt maður neyðist til að treysta því tímabundið. Hluti af því er auðvitað að fylgjast með og skjalfesta allt sem gerist núna og horfa gagnrýnum augum á framvinduna. En svona praktískt er sennilega best að maður fari bara varlega og hlýði næstu vikurnar – og kannski skiptir þá engu hvort maður er Svíi, Dani eða Íslendingur. Bara að maður muni líka að gera hlýðnina ekki að ávana.

***

Ég hef annars notað frítíma minn í það sem róar mig. Að smíða og mála gítarinn og taka upp músík þegar gítarinn er að þorna og svona. Bæði er pínu klúðurslegt og svona en mér fer samt fram. Og það er róandi. Ég er bara mjög bærilegur hvað sem líður langlokum og grímum. Hér eru tvö lög – Wang Dang Doodle eftir Willie Dixon (ég er mjög ánægður með sólóið reyndar – stutt og gott) og Chocolate Jesus eftir Tom Waits.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png