Glósur fyrir KveikÍ kvöld var ég í viðtali í Kveik. Áður en þau bönkuðu upp á og tóku spjallið settist ég niður og glósaði hjá mér eitt og annað af því sem ég gat hugsað mér að segja „í ljósi umræðunnar“. Ég var beðinn sérstaklega að vera ekkert að spá í Þóri Sæm sérstaklega og hef ekkert sérstakt vit á því máli heldur – ég var kallaður til vegna þess að ég hef verið að skoða fyrirgefningu og sekt og skömm og smánun í bókinni Einlægum Önd (og raunar má finna þessi þemu í flestum bókanna minna).


Mér lætur almennt betur að hugsa með fingrunum en munninum. Þetta hér að neðan er ekki í neinni sérstakri röð og flest af þessu sagði ég sennilega alls ekki í viðtalinu – enda vissi ég ekki að hverju þau myndu spyrja eða hvert samræðan myndi leiða. Ég hef ekki horft á þáttinn enn en mér skilst að uppleggið hafi verið þannig að við tjáðum okkur nokkur úti í bæ og svo voru röksemdir okkar ræddar í sjónvarpssal. Ég vissi ekki af því uppleggi fyrirfram og finnst það svolítið skrítið, einsog að láta þræta við sig að sér fjarstöddum – en ekkert þannig að ég missi svefn yfir því samt.


Þetta eru brot, ekki samhangandi mál – glósur fyrir samtal og ekki greinargerð – en kannski varpar þau einhverju ljósi á þá óvinsælu afstöðu sem ég var að reyna að verja. Eitthvað er um endurtekningar.


***


Afstaða mín er í grunninn sú að eitt af einkennum mannúðlegs samfélags sé ekki bara að það verndi þá sem verða fyrir ofbeldi heldur að það beiti ofbeldismenn sína mannúðlegum refsingum og sé tilbúið til þess að skilja þá (sem er ekki það sama og að afsaka þá). Allar refsingar sem hafa enga lögun – alveg sama hversu smávægilegar þær eru – verða á endanum ómannúðlegar.


***


Vandamálið við félagslega útskúfun, sem er viðbragð við óásættanlegum en illleysanlegum brestum réttarkerfisins, er að hún hefur enga sérstaka lögun – hún er einsog skuggi sem bara vomir yfir og getur birst hvar sem er og hvernig sem er. Það er ómannúðlegt.


***


Vandamálið við reiðina sem mætir þeim brestum er að hún gerir engan greinarmun á mannúð og meðvirkni – því að vilja halda aftur af refsigleðinni, án þess að afsaka glæpina. Öll miskunnsemi er afgreidd sem (dulinn) vilji til þess að viðhalda ofbeldi. Það er ekki bara réttlátt að sýna skilning og miskunn, heldur er það praktískt betra – harðar refsingar eru þvert á það sem margir virðast halda ekki vel til þess fallnar að skapa ljúfara samfélag, sem ég held að hafi einfaldlega margsýnt sig.

***

Sá sem á sér aldrei viðreisnar von er miklu líklegri til þess að verða bara illur – eitt, en sem betur fer alls ekki það eina, af því sem heldur okkur góðum óttinn við að glata ærunni. Og eitt af því sem hvetur okkur til betrunar er voninn um að fá hana aftur – að geta áunnið okkur traust á ný. Ef þeim dyrum er lokað – eða breytt í hálfgert nálarauga fyrir útvalda gerendadýrlinga – er hætt við að það verði á endanum ansi fámennt inni í hlýjunni.

***


Það er mikilvægt að við látum þetta ekki snúast um þolendur vs. gerendur. Það hvernig við sem samfélag hanterum gerendur er ekki á ábyrgð þolenda – hvorki linkind okkar né grimmd. Það er bara á okkar ábyrgð, við dílum við það sem samfélag.


***

Við verðum að horfast í augu við að megnið af því fólki sem brýtur svona af sér er óttalegir lúserar. Það er erfitt að ætlast til þess að lúserarnir verði svo alltíeinu fullkomnir þegar þeir gera upp sakir sínar. En það þýðir ekki að við ættum að hunsa viðleitni þeirra – eða banna þeim að bera fram málsbætur sínar. Gerendur og jafnvel sakamenn eiga líka rétt á upplifunum sínum og frásögnum, jafnt þótt við ætlum að hlusta betur á þolendur.

***

Mér finnst við einblína of mikið á iðrun og jafnvel skilyrðislausar játningar þegar kemur að samfélagslegri afgreiðslu kynferðisbrotamanna. Við gerum þetta ekki nema að litlu leyti við sakamenn – við gerum ekki játningar að skilyrði fyrir því að þeim verði hleypt út og þeir endurheimti réttindi sín. Að horfa síðan til iðrunar og þess að við sem samfélag ætlum að fara að leggja einhvers konar mat á það hvort maður hafi iðrast nóg eða verið einlægur í iðrun sinni – þá tökum við okkur ekki bara stöðu gagnvart einstaklingnum einsog við værum drottinn almáttugur, heldur erum við búin að binda uppreist gerenda við hæfileika þeirra til að vekja samúð okkar, sem er mjög mismunandi og bundin ýmsum þáttum, ekki síst stéttarlegum. Þannig getur sonur sálfræðinga úr vesturbænum skilið betur hvaða performans er vænst af honum en segjum iðnaðarmannasonur úr úthverfunum – sem kann ekki einu sinni rétt tungutak.

***

Það er alveg sama um hvaða refsingar er að ræða, það er raunverulega grundvallaratriði að sá sem verður fyrir þeim fái að vita hvernig þær eru í laginu. Hversu lengi þær gilda, hversu langt þær ná – má viðkomandi starfa í búð þar sem hver sem er getur þurft að eiga í viðskiptum við hann, má hann lesa inn á útvarpsauglýsingar ef það er liðinn nógu langur tími, má hann gefa út bók eða kenna, keyra strætó, vinna í sundlaug, bjóða sig fram? Það er hreinlega sadískt að láta fólk komast að því algerlega sjálft – senda það af stað í einhvers konar tilraunamennsku með það hvar mörkin liggja. Það þýðir ekki að við megum ekki hafa persónulega ímugust á fólki – við megum hata alla sem við kjósum að hata persónulega. En að takmarka mannréttindi annarra – t.d. með því að meina þeim um möguleikann á forréttindum sem öðrum standa til boða – er refsing og refsing verður að eiga sér byrjun, endi og tiltekna lögun.

***

Eitt af síendurteknum sándbætum hinna reiðu er að það séu ekki „forréttindi“ að sinna hinum og þessum vinnum – en það er algerlega óútskýrt hvaða vinna er þá ekki forréttindavinna. Það eru afar fá störf sem krefjast þess ekki að við treystum starfsmanninum til þess að triggera ekki eða hreinlega meiða skjólstæðinga sína, viðskiptavini eða samstarfsfélaga. Jafnvel þeir sem eru bullandi sekir – jafnvel morðingjar – verða á endanum að fá aftur traust samfélagsins, lofi þeir að brjóta ekki af sér aftur. Það skiptir máli að það traust sé ekki skilyrt meira en nauðsyn krefur. Og þegar við erum að tala um fólk sem hefur jafnvel alls ekki verið dæmt fyrir neitt hlýtur sá réttur að vera enn sterkari.

***

Við gerum ekki endilega þá kröfu heldur að gerendur standi jöfn reikningsskil við þolendur – mannúðlegt samfélag myrðir ekki morðingjana sína þótt það refsi þeim. Þetta er ekki íþróttaleikur og gengur ekki út á að jafna eitthvað skor. Með þannig reikningsskilum upphefjast bara hjaðningavíg. Það hvernig kerfið hanterar þolendur er að sönnu lélegt – þeir þurfa að fá miklu meiri stuðning – en við leysum ekki vanda þolenda með refsigleði.

***

Það er líka mikilvægt að fólk fái að halda fram sakleysi sínu. Því jafnvel þótt við vöndum okkur eins mikið og við getum þá dæmum við – bæði í dómstólum og hérna í dómstól götunnar – fólk stundum að ósekju. Kannski er þetta það erfiðasta við þetta allt saman: Við erum ekki óskeikul og höfum ekki rétt til þess að gera ráð fyrir því að við séum það. Þess utan eiga jafnvel sekir gerendur líka sitt sjónarhorn – jafnvel málsbætur, eins óþolandi og mörgum finnst að heyra slíkar afsakanir. Við getum ákveðið að taka ekki mark á þeim eða finnast þær léttvægar en við getum ekki látið einsog þær séu ekki til eða farið fram á að þeim verði bannað að bera þær fram. Þá erum við vísvitandi að grípa fyrir bæði augun til að sjá ekki að heimurinn er óþægilegur í laginu.


***


Við getum gert hlutina rétt án þess að bregðast þolendum kynferðisofbeldis, án þess að gera lítið úr misyndisverkunum og án þess að líða ofbeldið. Ég hef enga trú á því að kerfi sem ætlar að leysa vandamál þolenda ofbeldis með hörkunni einni saman geri á endanum neitt gagn.

32 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png