Gatewayplatan: Freakshow með Bulletboys

 Björn Halldórsson rithöfundur spurði á dögunum um „gateway“-plötur twitter-fylgjenda sinna. Spurninguna orðaði hann svona:

Hver var \”gateway\” platan ykkar? Fyrsta platan sem lét ykkur taka harkalega beygju inn á ókannaðar slóðir á jaðrinum (hvað sem það nú er), þannig að þið áttuð aldrei afturkvæmt á beinu brautina?

Auðvitað eru milljón leiðir til þess að svara þessari spurningu. Sá sem hlustar á tónlist fer eðli málsins samkvæmt upp og niður alls kyns rangala. Fyrsti tónlistarmaðurinn sem ég man eftir því að hafa vitað hvað hét og „haldið upp á“ var Phil Collins – og um svipað leyti Elton John. Svo komu Elvis og rokkplötusafnið hans pabba – Bill Hailey, Buddy Holly, Chuck Berry. Þá er ég svona 7-8 ára líklega. Níu, tíu og ellefu voru Michael Jackson árin (ég var kallaður Eiki Jackson í barnaskóla). Svo kom Iron Maiden sirka 1990.  Unglingsárin hjá mér fóru í Maiden og yfir í annað þungarokk – mest Metallicu, AC/DC og Guns – þaðan í blúsrokk og hipparokk, þaðan í thrash og dauðarokk og úr dauðarokkinu beint í Robert Johnson, Wes Montgomery og Django, úr þeim í Sly Stone og svo George Clinton og fönk, svo í Rage, Public Enemy og Ice-ana T og Cube. Svo kom alltíeinu Waits og hertók allt í mörg ár. Svo Eminem – og með honum Dre og Snoop sem ég hafði lítið hlustað á. Árin þar á eftir – miður þrítugsaldurinn – var mjög skrítinn. Tók meðal annars rispu í „adult contemporary“ – John Cougar Mellencamp og svona. Blúsinn hefur svo smám saman orðið fyrirferðarmeiri á síðustu árum – og á hug minn allan þessi misserin.

Þegar ég hafði velt spurningu Björns fyrir mér í smástund mundi ég alltíeinu eftir plötu sem ég heyrði snemma í lífinu og innihélt bæði þvottekta blús og lag eftir Tom Waits. Og leiddi að einhverju leyti inn í þungarokkið líka. Ef það er ekki gateway-drug – njólareykingarnar sem enda í heróínfíkn – veit ég ekki hvað er það. 

Platan Freakshow með Bulletboys var nýkomin út þegar sveitin mætti á Brjótum ísinn tónleikana sem haldnir voru í Kaplakrika í júní 1991. Ég er þá tólf að verða þrettán og fékk að fara með litla bróður mínum, tíu að verða ellefu. Á tónleikunum léku auk Bulletboys, Quireboys, Slaughter, Artch (norsk þungarokkssveit með Eirík Hauksson í fararbroddi), Thunder og GCD. Poison átti að vera aðalatriðið en þeir beiluðu á síðustu stundu. Ég man ekki í smáatriðum neitt frá tónleikunum, annað en að það var fremur fámennt miðað við pláss – nokkur þúsund manns samt. Svo man ég að einhver gítarleikaranna benti eitthvað út í áhorfendahópinn og við Valur bróðir rifumst um hvorn okkar hann hefði verið að benda á. 

Ég var alveg á barmi þess að vera unglingur sjálfur en ekki orðinn og fannst skrítið að vera innan um mikið af krökkum á mínum aldri (eða aðeins eldri) sem voru augsjáanlega drukkin, reykjandi og í sleik út um allt. Mig langaði mikið í það allt og fannst ég mjög vandræðalega lítill og barnalegur – og með litla bróður í eftirdragi að auki. Svo var líka eitthvað um að unglingsstelpur væru að vippa fram júllunum framan í rokkstjörnurnar á sviðinu og ég hafði ekkert séð mikið af svoleiðis. Í sem stystu máli má segja að maður hafi bæði verið á viðkvæmu mótunarskeiði, á barmi fallsins, og alveg gersamlega upptjúnaður til að taka á móti. 

Ég man ekki hvort að ég eignaðist plötuna fyrir eða eftir tónleikana en ég á hana (á vínyl) og ég hlustaði mikið á hana þetta árið. Þótt ég kannist við öll lögin þegar ég heyri þau í dag get ég ekki sagt að ég „muni“ nema tvö þeirra og það vill til að það eru einu koverlögin á plötunni, fjórða og fimmta lag á hlið A. Ég hafði vel að merkja ekki hugmynd um að þetta væru koverlög og var ekkert að spá í það. Fyrir mér voru Hang on St. Christopher og Talk To Your Daughter bara Bulletboyslög. Það var enn hátt í áratugur þar til ég færi að hlusta eitthvað á Tom Waits (sem ég kannaðist bara við sem óhugsanlega hásan karl sem írskur kærasti stóru systur minnar hlustaði á) og nærri aldarfjórðungur þangað til ég færi að hlusta eitthvað á J.B. Lenoir. En þetta var áreiðanlega eitthvað gateway – hlið eitthvert út í bláinn. Fyrsta Tom Waits platan sem ég eignaðist var safnplatan Beautiful Maladies, 1998, og fyrsta lagið á henni er einmitt Hang on St. Christopher – sem er vel að merkja hreinn og beinn 12-bara-blús – og ég þekkti það auðvitað strax og ég heyrði það. Bulletboyslagið! 

Ég kynntist Talk To Your Daughter sennilega bara í gegnum útvarpið – það hlýtur að hafa verið Robben Ford útgáfan frá 1988. En þetta er líka eitt af þessum lögum sem maður bara þekkir. Blúsklassíker sem allir hafa koverað. Ég hélt að kannski hefðu Blues Brothers tekið þetta en ég finn það ekki. Ég heyrði ekki orginalinn fyrren eftir að ég fór að hlusta á J.B. Lenoir sem gerðist ekki fyrren ég sá Wim Wenders myndina Soul of a Man. Og hann er ein af þeim síðari tíma uppgötvunum sem ég held mest uppá. 

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png