top of page

Gangandi vegfarandi undir stýri


Ég keyri mjög lítið. Eiginlega aldrei nema ég sé annað hvort að fara úr bænum eða að flytja eitthvað þungt. Einu sinni silaðist ég um bæinn á hjóli en svo áttaði ég mig á því að með þessu var ég ekki að næla mér í aukahreyfingu – einsog hafði verið raunin þegar ég keypti hjólið í Västerås – heldur að spara mér hreyfingu. Það er tímafrekara að ganga en það er meiri hreyfing. Og hér fer ekki svo mikill tími í þessar samgöngur – eiginlega finnst mér þægilegra að það taki mig a.m.k. þrjár-fjórar mínútur að komast á milli. Ég stekk upp á hjólið ef ég er seinn eða ef ég þarf t.d. að skjótast eftir einsog einu steinseljubúnti í miðri eldamennskunni.


Bíllinn, Mitsubishi Outlander PHEV, er á nagladekkjum. Nokian Hakkapeliitta 9. Þetta voru þau dekk sem voru til á landinu og komu best út í prufum. Ég á líka harðkornadekk sem fylgdu með honum (og sumardekk auðvitað). Líklega hefði ég látið þau duga en Nödju leist ekkert á að sénsa með þetta. Ef við byggjum í Reykjavík liti það eðlilega öðruvísi út. En við búum hér og keyrum lítið – þegar allt kemur til alls skiptir það langmestu máli, hvort sem verið er að hugsa um slit á vegum, lýðheilsu eða annað. Að keyra lítið. Mér finnst það sjálfum mjög auðvelt vegna þess að mér finnst leiðinlegt að keyra stuttar vegalengdir. Ég get alveg gírað mig upp í langferðir – þegar við förum saman fjölskyldan styttum við okkur stundir við að búa til playlista og tala saman. Þá keyrir Nadja líka yfirleitt. Þegar ég fer einn vel ég mér einhverja góða hljóðbók. Bestu bækurnar eru svona sex tímar. Kannski rétt tæplega. Þá næ ég að klára þær áður en ég kem inn í borgarumferðina og missi einbeitinguna. En ég nenni ekki að stökkva upp í bíl til að hlusta á hálft samtal (um nagladekk, á Bylgjunni) og 5 auglýsingar (um nagladekk, á Bylgjunni) áður en ég hleyp inn í Bónus og næ svo hálfu samtali (um rafbíla, á Bylgjunni) og 5 auglýsingum (um rafbíla, á Bylgjunni) á leiðinni heim. Reyndar er ég á því að ég fari alltof lítið til nágrannabæjanna. Að ég ætti að fara oftar í sund í Bolungarvík og svona. En það er önnur saga.


Ég nota bílinn ekki síst þegar veðrið verður til þess að flug falla niður – og það er þá oft í óskemmtilegu veðri (stundum fellir Iceland Air reyndar niður flug við mjög góðar aðstæður – en það er líka önnur saga). Oftast rýk ég af stað út í veðurmókið vegna þess að ég þarf að ná millilandaflugi. Þá er ég voða þakklátur fyrir naglana. Ónegld harðkornadekk koma vel að merkja ágætlega út í prufum og mörg þeirra koma betur út en mörg nagladekk. Flestir þeirra sem eru á nagladekkjum gætu verið á betri vetrardekkjum sem eru ónegld. En bestu dekkin – þau sem eru best í allar mögulegar vetraraðstæður frá Ísafirði til Reykjavíkur, sköflum, bleytuhálku, slabbi – eru samt nagladekk. En ef ég þyrfti að keyra í Reykjavík meira en 2-3 daga á hverjum vetri myndi ég samt ekki vera á nagladekkjum. Það væri fantaskapur. En mestu munar samt alltaf um að keyra lítið.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page