Gítarblogg – færsla 5

Ég fylgist með alls konar gítarnördum á YouTube – Justin Sandercoe, Andertons-genginu, Samurai Guitarist, Mary Spender, Eric Haugen, Crimson Guitars og stundum líka Paul Davids og Marty Schwartz. Nú er eiginlega allt þetta gengi á sama blettinum í Anaheim í Bandaríkjunum – NAMM, National Association of Music Merchants tónlistarmessan er í fullum gangi og YouTube hetjurnar allar að plögga sig og skoða nýtt dót. Mér sýnist helstu tíðindin vera frá Fender – Accoustasonic gítarinn, sem er rafmagns- og kassagítar, hrikalega ljótur og óspennandi eitthvað en hefur vakið mikla athygli – og Gibson, sem eru að hætta með alls konar framtíðardrasl á gítörunum sínum og einhenda sér í að gera klassíska Gibson-gítara í staðinn. Engar sjálfvirkar stilliskrúfur eða aðrar brellur (ég þekki reyndar bara einn sem á svoleiðis, Mugison, og hann er mjög ánægður með það). Man ekki hvort High Performance línan er alveg farin í ruslið. Fyrirtækið fór í einhvers konar gjaldþrot í fyrra og það var öllu stokkað upp.

Og heyrir í sjálfu sér held ég til tíðinda, núorðið, að helstu tíðindin séu af Gibson og Fender.

***

Af mínum gítar er eitt og annað að frétta. Ég hafði ekkert að gera á mánudeginum og tók mér því klukkutíma í að skipta um strengi og þrífa Djásnið og Gálknið. Setti líka nýjar stilliskrúfur í Djásnið.

Á þriðjudaginn fór ég í Fab Lab og skar út klórplötuna með aðstoð Dodda, sem þar vinnur. Það er ótrúlega mikill lúxus að geta komist í þetta Fab Lab og ég gæti gert miklu meira þar en ég ætla að gera – einfaldlega vegna þess að mig langar að gera mikið af þessu í höndum. Auk klórplötunnar skárum við út hring sem verður notaður sem lok aftan á þar sem hljóðdósarofinn er.


Sennilega tók ég því bara rólega á miðvikudeginum. Á fimmtudeginum kom ég svo aftur og skar út búkinn.


Heyr á endemi. #fablabisa

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jan 24, 2019 at 10:39am PST

//www.instagram.com/embed.js

Þegar heim var komið pússaði ég þetta svolítið og lagaði til með sporjárni – fræsarinn skilur eftir harða kanta sem maður þarf að laga sjálfur. Þetta er svo efnið fari ekki á flug í vélinni. Síðan teiknaði ég allt upp á búkinn, hvar allt á að vera staðsett. Svo handfræsti ég fyrir hljómbotninum (með skapalóni sem ég gerði fyrst) og gerði rásir fyrir snúrur og holu fyrir hljóðdósarofann, með kanti fyrir lokið. Ég gerði líka skapalón fyrir hljóðdósirnar. Og pússaði svolítið meira.


Heyr á endemi.

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jan 27, 2019 at 8:07am PST

//www.instagram.com/embed.js

Hlyntoppurinn fagri kom í pósti en það fór heldur illa með hann. Hann var 7 mm og mátti alls ekki vera meira en 6 mm, af því bindingin verður að fela hann á köntunum, og við Smári fórum með hann út í vík og mötuðum hefilinn á honum – svoleiðis að hann skemmdist allur og eitt hornið fór meira að segja af. Ég þurfti á öllum styrk mínum að halda til að fara ekki að grenja á öxlinni á Smára. (Það er alltílagi að grenja en maður á kannski ekki að grenja yfir veraldlegu drasli samt – það er líka alltílagi að hemja sig).

Ég pantaði mér tvær nýjar frá Króatíu strax og ég kom heim og þær ættu að koma innan tveggja vikna. Síðast tók það níu daga. Ég hélt hins vegar áfram með hinn toppinn og ætla að nota hann til að æfa mig. Ég pússaði niður mestu misfellurnar og límdi hann saman í gær. Á eftir sé ég svo hvernig til tókst.

Næst á dagskrá er að láta Adda frænda – eða mann Möggu frænku – bassaleikarann í Ég (í Mér? Í Sér?) og fleiri góðum sveitum – prenta á klórplötuna fyrir mig. Ég er að íhuga að fá gullsmiðinn hérna í bænum til að rista nafnið mitt í hálsplötuna – datt það bara í hug í morgun. Svo þarf ég að halda áfram að pússa bakið og hliðarnar. Ég ætla að fjárfesta í búrgundarlitu bæsi og gera tilraunir með að mála aðeins. Ég þarf að skrúfa eitthvað af götum – sennilega skrúfa ég ekki á klórplötuna samt fyrren ég er búinn að láta prenta á hana, af því götin eiga að flútta við prentið. Svo þarf á að skoða hvernig sé best að prenta á hausinn – kannski eitthvað svona decal-dæmi? Og ég ætla með skemmda hlyninn til Dodda í Fab Lab og skera hann út og leika mér eitthvað með hann.

***

Nýr liður. Gítarleikari vikunnar. Í sjálfu sér fáið þið hérna þrjá fyrir einn – en sá sem ég hef mestan áhuga á í þessu er Kingfish Ingram, risavaxni svarti maðurinn með Gibson gítarinn vinstra megin við Samönthu Fish, en auk hennar spilar Ty Curtis á gítar. Kingfish er nýorðinn 20 ára gamall, (17 þegar myndbandið er tekið), fæddur 19. janúar 1999 og hefur meðal annars flutt lag í þáttunum um Luke Cage, spilað fyrir Michelle Obama og tekið upp tónlist með Eric Gales. Ég kann mjög vel að meta svona gítarleikara sem spila svolítið einsog þeir meini það.  Gítarinn er ógnarlítill í hrömmunum á honum en skýtur eldingum. Hann byrjar tryllinginn á mín 4.12.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png