Gítarblogg – færsla 4

Það var verið að ræða dundursnautnir á Facebook. Ég hef talsverða þörf fyrir dundursnautn en kann illa við hana í bókmenntum – sérstaklega þeim sem ég skrifa sjálfur en líka þeim sem ég les. Þess vegna fæ ég útrás fyrir hana annars staðar. Til dæmis í þessari gítarsmíð – en líka í matseld og alls konar föndri sem hefur það eina markmið að virka, þjóna fegurðinni einni, nautninni, og leyfir enga vanlíðan.

Nú er ég að reyna að rifja upp hvað ég gerði í síðustu viku. Ég var búinn að gera búkinn. Við Smári fórum út í Bolungarvík á trésmíðaverkstæði og skárum dálítinn furubút í tvennt og hefluðum svo báða niður í sex millimetra.


Bútinn límdi ég síðan saman svo úr varð þunn spýta í topp. Hana sagaði ég fyrst út í rétta lögun, fræsti svo fyrir hljóðdósaholinu og gerði f-gatið fyrir hljómbotninn. Það gerði ég með því að bora holu fyrir kringlótta hlutann og saga svo útlínurnar með laufsög.


Síðan límdi ég þetta saman.

Og þá hef ég í raun og veru lokið mér af með þennan æfingabúk. Ég kastaði hryllilega til höndunum þegar ég byrjaði og staðsetti hljóðdósirnar algerlega tilviljunarkennt – og þótt ég hafi verið að daðra við að klára þetta sem heilan gítar (byrjaði meira að segja að saga út háls að gamni) held ég að það verði aldrei. Sú aftari er of aftarlega, það er ekki pláss fyrir brúna, og sú fremri svo framarlega að hálsinn kemst ekki með góðu móti fyrir.

Annars er þetta vonlaust orð. Hljóðdós. Mikið vildi ég að hljóðnemi væri ekki frátekið fyrir annað.

En sem sagt. Þá er ekkert eftir nema að byrja á hinum raunverulega gítar. Mér barst í vikunni mahóníspýta sem ég pantaði úr efnissölunni. Hana skar ég í tvennt – fékk svo Smára til að hefla beinan kant á hana og límdi hana saman. Í dag opnar svo Fab Lab eftir fæðingarorlof starfsmanns og mér því óhætt að líta við.

Fleira kom með póstinum. Efni í klórplötu, bindingar, skífur undir hálsinn og járnplata og skrúfur líka til að halda honum föstum líka, Bigsby tremolo-ið ásamt „rolling“ brú og grover stilliskrúfur með læsingu. Ég mun þurfa að panta mér a.m.k. eina sendingu í viðbót – til að fá sérstaka fræsitönn fyrir bindinguna – og svo bíð ég eftir hálsinum, sem gæti tekið allt að 4-5 vikur til viðbótar. Hugsanlega panta ég mér líka skapalón fyrir hálsvasann með fræsitönninni.

Ég gerði lista yfir þau mistök sem ég veit að ég gerði.

  1. Ég gleymdi að gera miðlínur og vissi því aldrei hvar miðjan á gítarnum var og gætti ekkert að því og hugsaði lítið út í það.

  2. Slumpaði á hljóðdósastaðsetningu og klúðraði illa.

  3. Slumpaði á stærð, lögun og staðsetningu pottahols og það var ekki gott (gera frekar rás að innputholi og hafa pottahol jafn stórt í botni og toppi).

  4. Passa rofahol – að staðsetning rofa og gatið á bakinu flútti saman.

  5. Þarf að eignast fleiri þvingur áður en ég lími alvöru toppinn á.

  6. Gera skapalón fyrir lögun hljóðdósa.

Vonandi geri ég svo engin katastrófal mistök við smíði alvöru gítarsins.

Ég leysti vandamálið með toppinn – sem við Smári snikkuðum sjálfir úr furunni í æfingaspýtuna – og keypti mér fallegan munstraðan hlyn frá Króatíu. Ég þarf þá ekkert að gera við hann nema að hefla hann úr 7 mm í 6 mm og saga hann í rétta lögun (sennilega í Fab Lab).

Annað er ekki að frétta í bili. En svona lítur s.s. mahóníbúturinn út. Þetta er mjög falleg spýta.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png