Gítarblogg – færsla 2

Við komum heim frá Svíþjóð á laugardaginn. Eða – við komum til landsins á föstudag en gistum eina nótt á Dalakoti í Búðardal. Ég notaði gærdaginn til að taka til í bílskúrnum og gera örlitlar tilraunir. Annars vegar æfði ég mig aðeins á stingsögina og hins vegar límdi ég saman nokkra bjálka til að sjá hversu vel trélímið heldur. Það dugði á hausinn á Mola – slædgítarnum – og þau segja mér krakkarnir handan við google-algóritmana að venjulegt trélím eigi að duga til að festa saman spýturnar. En um þetta hafa einhverjir vina minna efasemdir.

Ég er búinn að ræða við Smára vin minn um að hjálpa mér að hefla spýturnar í rétta þykkt (hann á s.s. hefil) og hugsanlega fæ ég hann líka til að þverskera hlyntoppinn með mér með borðsöginni. Ég á ekkert nema stingsög og juðara – og er með fræsara í láni. Og þetta er fjári þunn spýta – 6,35 millimetrar.

Þá prentaði ég út þetta sniðmát fyrir sniðmátið. Ég klippi þetta sem sagt almennilega út – eða sker eftir útlínunum – og nota síðan til að saga spónaplötu í rétt sniðmát. Mér getur þá mistekist nokkrum sinnum án þess að það sé stórslys.

Sennilega byrja ég að vesenast með þetta á eftir. Hugsanlega fer þetta allt í hass og þá verð ég bara að byrja að hugsa þetta upp á nýtt. Ég er aðeins að velta því fyrir mér líka hvort mig langi að stækka boddíið aðeins.

Ég ætla líka að prófa að fræsa aðeins pikköppagöt í einhverja afgangsspýtu – og máta Seth Lover pikköpana sem komu með póstinum í dag, ásamt ýmsu öðru smálegu.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png