Fyrsta blúslagið: Crazy Blues

Crazy Blues með Mamie Smith og hljómsveitinni The Jazz Hounds er ekki fyrsta blúslagið og ekki heldur fyrsta blúslagið til að segjast vera blúslag – til að heita blús. Hið fræga Memphis Blues eftir WC Handy er ríflega tíu árum eldra og Dallas Blues eftir Hart Wand (sem er af þýskum ættum, ekki afrískum) er enn eldra en það. En það eru tæknilega séð ekki blúslög heldur einhvers konar ragtime, held ég – ég hef ekki beinlínis vit á því en blúsar eru þetta ekki, frekar en svo margt annað sem kallað er blús (ekki síst nútildags).

Blúsinn er þess utan nokkuð eldri en upptökutæknin og var að mestu leyti leikinn af tónlistarmönnum sem kunnu ekki að lesa eða skrifa nótur (eða höfðu ekki áhuga á að skrifa niður þessa alþýðutónlist sem þeim þótti í besta falli ómerkileg og dálítið ósiðleg skemmtan). Sennilega hafði einhver tegund blússins verið leikin alveg frá 1870 – og hann á auðvitað rætur sínar helst að rekja til vesturstrandar Afríku, bæði að formi til en þess utan er ákveðin áhersla á notkun strengjahljóðfæra sem bjóða upp á millinótur (kvartteygðar þríundir og sjöundir t.d. – og hækkaðar ferundir) sem er víst þekkt í tónlist þar um slóðir eitthvað lengur.

En hann á líka rætur að rekja til aðstæðna á baðmullarekrum í Bandaríkjunum. Þar kölluðu menn – sungu hátt – milli „akreina“ svo heyrðist í þeim og svöruðu svo aftur. Þetta „call and response“ einkennir allan blús og er jafnvel enn meira einkennandi en 12-bara hljómagangur með turnaround. Á baðmullarekrunum neyddust menn líka til að smíða sín eigin hljóðfæri, oft eftirlíkingar af afrískum hljóðfærum, af miklum vanefnum og tímaskorti (því unnið var allan daginn) – fyrst slide-gítararnir voru bara stálstrengir bundnir við hús sem leikið var á með vasahnífum.

Á baðmullarekrunum þurftu menn síðan líka að sjá um sína eigin skemmtun – halda sín eigin böll – og fyrstu atvinnutónlistarmenn svartra bandaríkjamanna flökkuðu á milli baðmullarekra sem skemmtikraftar (blústónlist er og hefur alltaf verið partítónlist – líka þegar hún er hæg og tregafull). Á baðmullarekrunum – fyrst og fremst eftir að þrælahald var afnumið – komust svartir suðurríkjamenn líka í kontakt við evrópskan verkalýð og þótt sá kontakt væri heilt yfir sjaldan náinn þá þar varð talsverð krossvíxlun í menningaráhrifum. Blúsinn fór að ríma, sem hann hafði lítið gert áður, og stundum varð hann jafnvel ballöðukenndur – hvað er Goodnight Irene eftir Leadbelly t.d. annað en írsk ballaða? – og þegar farið var að taka hann upp öðlaðist hann (eða var þvingaður í) ákveðinn strúktúr. Lögin urðu að hafa byrjun, miðju og endi og máttu ekki vera lengri en spólan náði – oftast þrjár mínútur.

Þá léku gömlu blúsararnir líka bara alls konar tónlist – kölluðu sig alla jafna „songsters“ frekar en hljóðfæraleikara og áttu sennilega mest skylt við partígítarleikara samtímans. Þeirra hlutverk var að kunna mikið af lögum og þeirra eigin lög voru oftar en ekki samsuða úr alls konar öðrum lögum. Þegar þeir voru svo teknir upp löngu seinna hafði enginn áhuga á að heyra þá spila eitthvað köntrí eða tin pan alley dót – heldur bara orginalblúsinn – og því eru litlar upptökuheimildir til um þetta. Hins vegar er talsvert vitað um svarta tónlistarmenn sem léku með hvítum og hvíta sem léku með svörtum – t.d. gítarleikarann Eddie Lang sem á óhikað skilið að vera talinn upp með frumkvöðlum blússins. En þeir gátu ekki alltaf spilað mikið saman opinberlega og þurftu stundum jafnvel að koma fram á plötum undir dulnefni (Eddie Lang kallaði sig Blind Willie Dunn á plötum Lonnies Johnsons). Þetta eru ótrúlegir gróskutímar í tónlist og allir að læra af öllu(m).

Það er merkilegt að þetta lag, fyrsti upptekni blúsinn, Crazy Blues, sver sig eiginlega alls ekki í ættina við þennan upprunalega blús, þennan köntríblús, þennan baðmullarekrublús. The Jazz Hounds er „lærð hljómsveit“ – fágaðir atvinnumenn – að frátaldri fiðlunni er ekkert hljóðfæri þarna sem ræður við míkróteygða tóna, og Mamie Smith syngur kannski hátt og kallar en hún er enginn köntríblúsari og hún er ekki heldur karlmaður – fyrstu „vinsælu“ blúsararnir voru allt konur og plötukaupendur þeirra voru aðallega svartir karlar. Á þessum tíma – the roaring twenties – keyptu þeir vel að merkja ofsalega mikið af plötum, þetta eru uppgangstímar fyrir plötubransann (sem fór ekki endilega vel með þessa tónlistarmenn, vel að merkja).

Það var síðan ekki fyrren seinna – í raun ekki af neinu viti fyrren hvítir menn fóru að hafa áhuga á blústónlist – sem farið var að taka upp og prómótera baðmullarekrublúsinn. Blúsinn byrjaði kannski á baðmullarekrunum en þegar farið var að taka hann upp var hann tekinn upp fyrir svarta var ekki snobbað fyrir fátæktinni eða hógværðinni – þessar konur sem sungu fyrstu blúslögin ferðuðust um með vaudeville-sjóum og voru gjarnan klæddar í glys og glamúr frá toppi til táar, pallíettur, fjaðrir og gimsteina.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png