top of page

Fulli kallinn í Norrköping


Ég rakst líka á vin Napóleons, Jean-Babtiste Bernadotte, sem kjörinn var kóngur í Svíþjóð 1818 og tók þá upp nafnið Karl Jóhann.

Ég leit við í Norrköping á helginni og ræddi bókmenntir – aðallega Illsku og hljóðaljóð – við gesti á Stadsbiblioteket. Þar var líka John Swedenmark sem flutti dæmalaust erindi um íslenskar bókmenntir frá upphafi til enda – eða allavega dagsins í dag – kvað og söng og lék almennt á als oddi. Í Norrköping var nýlokið óeirðum eftir að Rasmus Paludan leit þar við og hótaði að brenna kóraninn – á sama tíma og íslenska lögreglan var stöðugt að handtaka vitlausan mann í Reykjavík, og áttu þeir tveir víst ekki annað sameiginlegt en hörundslitinn.


Ég hitti fullan mann á bar í Norrköping sem hafði lítinn skilning á því að þótt ég hefði leyft honum að setjast við borðið mitt, enda ekki laust annars staðar, þá væri ég að lesa meistaraverk Andrejs Kúrkov, Dauðinn og mörgæsin, og nennti eiginlega ekki að láta trufla mig. Ég eiginlega vorkenndi honum samt. Ég hafði fyrr um daginn haft uppi gífuryrði um muninn á finnskum og sænskum fyllibyttum – það sæist yfirleitt ekkert á þessum sænsku – sem er auðvitað ekki alveg satt, frekar en svo margt annað sem ég segi í hita leiksins, en ég man að ég hugsaði að sennilega væri þetta raunverulegur munur á sænskum og finnskum drykkjumönnum (og kannski bara Svíum og Finnum almennt), að Finnum finnst ekki einsog heimurinn þurfi stöðugt að bera þeim vitni. Það er algengara að Finnar sitji einir á bar og þeir eru ekki endilega mikið í að heimta félagsskap. Það er ekki bara feimni – það er líka skortur á taugaveiklun, það er líka ró. Svíar birtast sjaldan einir á bar og eru þá fljótt farnir að pota í næsta mann. Þeir eru svo óstjórnlega áhugasamir um mannleg samskipti. Sennilega var þetta nú samt verra fyrir konurnar sem stóðu við barinn, en mig, því alltaf þegar hann fór og pantaði sér nýjan drykk – sem var mjög oft – kom hann sér fyrir fyrir aftan einhverja konu og greip svona „vinalega“ í axlirnar á henni eða beygði sig einhvern veginn undarlega yfir hana, svo henni brá. Þessi taktík skilaði honum ekki öðrum árangri en grettum og við þær dró hann nóg úr ágengninni til þess að illt yrði ekki verra.


Ég nefni hann nú samt aðallega af því hann fór að tala um óeirðirnar – fyrst spurði hann mig um það sem Ebba Busch hefði sagt. Ég fylgist afar lítið með fréttum og kom af fjöllum, rétt vissi af óeirðunum. Hann fór nú eitthvað ónákvæmt með það sem hún hafði sagt en ég sló því upp daginn eftir – og hún sagðist ekki skilja hvers vegna lögreglan hefði ekki skotið „skarpt“, sem ég skildi ekki almennilega hvað þýddi fyrst, en þá er hún að spyrja hvers vegna ekki hafi verið notaðar alvöru byssukúlur á mótmælendur. Ebba Busch er ekki Svíþjóðardemókrati, vel að merkja, hún er leiðtogi Kristilegra demókrata – ung kona, fædd 87, áberandi stjórnmálamaður í hægriblokkinni og líkleg til að enda í ríkisstjórn. Og hún vill sem sagt að lögreglan skjóti óeirðarseggi – bara inn í mannfjöldann, væntanlega. Lögreglan svaraði þessu nú reyndar af talsverðri hörku – sagði að það væri margsannað að slíkar aðgerðir ykju ekki á öryggi almennings eða drægju úr óeirðum heldur settu þær yfir á annað stig. Þar sem skotið væri á reitt fólk yrði reiða fólkið bara reiðara og færi að kveikja í húsum og bílum og vopna sig meira sjálft.


Við þetta má bæta að lögreglan skaut reyndar byssuskotum að mótmælendum, þótt það væru (að ég best veit) bara „viðvörunarskot“.


Nema hvað, fulli kallinn býsnaðist nú nokkuð yfir Ebbu, sem væri úti að aka. En svo fór hann að röfla voða mikið um að „við“ þyrftum nú samt að fara að „hugsa okkar ráð“ og „ákveða“ hvað „við“ ætluðum að gera. Ég reyndi heillengi að fá hann til að útskýra hvað hann ætti við með „við“ og „hugsa“ og „ákveða“ en það skilaði engri heillegri niðurstöðu – hann lét aldrei hanka sig beint á því að hann væri að tala um að við hvítu karlarnir þyrftum að ákveða hvað við ætluðum að gera við svörtu karlana (altso, taka hart á þeim – ég held hann hafi verið að meina það, ekki skjóta þá kannski í hita leiksins, en hugsanlega setja þá alla í fangelsi eða senda þá úr landi eða guð veit hvað, kannski var hann ekki með neinar lausnir aðrar en þennan óljósa fylleríisrasisma). En ég las honum svolítið pistilinn samt og reyndi að fá hann til að fara að lesa Jonas Hasssen Khemiri og kynna sér aðeins hvernig það væri að alast upp hörundsdökkur í Svíþjóð.


Svo sneri ég mér aftur að bókinni. Hann fann sér alltaf annað veifið eitthvað sem hann vildi brydda upp á við mig en þetta var lengsta samtalið sem við áttum. Á endanum hringdi einhver í hann og hann stóð upp og fór – án þess að kveðja, sennilega orðinn móðgaður af því hversu ítrekað ég sneri mér aftur að bókinni (þótt hann væri stöðugt að biðjast afsökunar á því að trufla mig, hann ætlaði alls ekki að trufla mig, hann þyrfti bara aðeins að spyrja að einu).


Dauðinn og mörgæsin var annars alveg jafn góð og hún var fyrir 20 árum.



natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page