top of page

Fréttir úr bókabunkernum


Í fréttum frá Ísafirði er þetta helst. Ég hef verið að díla við einhvers konar diet post covid – tek mig til og krassa svolítið hressilega einu sinni á dag, lognast bara út af, og er oftar með höfuðverk en höfuðverkjalaus. Annars bærilegur þegar ekki sækja á mig svartir hundar, sem mér sýnist helst gerast í takt við lægðirnar. Þegar brakar í húsinu í verstu hviðunum fyllist ég óstjórnlegri vanmetakennd – einsog ég hafi ekkert yfir sjálfum mér eða tilveru minni að segja. Svo kemur sólin og ... tja kannski finnst mér ég aldrei beinlínis hafa neina stjórn á þessu, en þá virðist mér allavega sem mig reki í rétta átt.


***


Ég les og les. Að telja upp á milljón eftir Önnu Hafþórs var síðust – fyrir nokkrum dögum las ég líka Stóru bókina um sjálfsvorkunn eftir Ingólf Eiríks. Báðar eru þær feykivel skrifaðar og sannar sínum samtíma. Áríðandi bækur, segi ég, einsog stundum er sagt. Og í báðum eru geðveilur til umfjöllunar. Hjá Önnu eru orsakirnar auðsjáanlegri, þótt þær séu ekki einfaldar, en hjá Ingólfi eru þær lúmskari. Líf Rakelar, söguhetju Önnu, er fullkomið rugl og hún hefur ekkert stuðningsnet – og ýtir því raunar frá sér þar sem það býðst. Líf Hallgríms, söguhetju Ingólfs, einkennist hins vegar af sterku fjölskyldulífi – hann á mjög góða að og ekkert sem bjátar á, annað en allt, auðvitað, það bjátar allt á, af því geðið býður honum ekki annað. Í báðum bókunum er samt gamalt sjálfsmorð í ættinni, sem einsog bergmálar í gegnum þær.


Báðar eru þær skrifaðar af mikilli fagmennsku. Ég veit ekki hvort Anna er lærð en Ingólfur er með einhverja gráðu í ritlist. Ég veit ekki alveg alltaf hvað mér finnst um þetta – á eina höndina er þetta grípandi og vel gert og kontrólerað og það glittir í snilld hér og þar. En á hina höndina er þetta líka mjög seif. Ég sækist svolítið eftir tilfinningunni að höfundurinn sé móður, sé að reyna mjög á sig, að honum gæti hvenær sem er skrikað fótur. Það er sennilega meira mitt vandamál en þeirra. Ég veit samt líka að þótt þetta virki auðvelt er það blekkingargaldur – eða a.m.k. blekkingariðn – þetta er ekki auðvelt. Hluti af mér öfundast líka út í þetta. Ég gæti ekki skrifað svona. Ég er alltaf móður. Finnst alltaf einsog ég sé ekki búinn að setja inn nógu mörg þankastrik og hvað þá semíkommur; maður getur alltaf bætt á sig semmíkommu eða troðið inn einhverjum óþarfa útúrdúr.


En sem sagt. Þetta átti allavega ekki að vera diss. Maður sogast inn í þessar bækur, þær hafa erindi og ná máli. Og ég mæli með báðum.


Las líka Þar verpir hvítur örn eftir Hagalín. Sem átti alveg góða spretti en var kannski ekki með hans bestu. Hún fjallar um Leirufjörð nálægt Tangakaupstað (Ísafirði Hagalíns) sem fær boð um nýjan sóknarprest, sem ku skoskur. Í fyrri hlutanum er mjög skemmtilegur fundur þar sem sóknarnefndin veltir því fyrir sér hvort það sé kostur eða galli að hann sé skoskur – útlendur maður og það allt, kann hann málið, hvaða siði boðar hann, og er hugsanlegt að hann geti útvegað þeim kynbótasauði frá skotlandi og jafnvel hvolpafulla tík? Það stendur sérstaklega aftan á bókinni að hér sé Hagalín ekki að predika og það er hann nú sosum víst að gera – hann lætur t.d. prestinn á endanum lemja drýgindalegan kommúnista sem reykir í kirkjunni. Það hefur nú Hagalín þótt bæði fyndið og maklegt.


Saga Borgarættarinnar er fyrsta skáldsaga Gunnars Gunnarssonar. Ef eitthvað er að marka söguna einsog hann segir hana í Fjallkirkjunni – sem er skáldsaga og maður ætti að taka takmarkað mark á, þótt hún sé sjálfsævisöguleg – þá kom hún út í þremur hlutum og gekk fyrsti hlutinn svo illa að það munaði minnstu að annar hlutinn kæmi ekki út. Sá gekk sennilega ekki mikið betur. En sá þriðji, Gestur eineygði, sló í gegn – and the rest is history. Sjálfum fannst mér annar hlutinn bera af. Fyrsti hlutinn er hálfgerður formáli og hann veður úr einu í annað og maður veit ekkert hvað neitt á að þýða – minnti mig svolítið á þegar ég var að kenna í sex ára bekk og það var strákur sem vildi segja brandara á skólaskemmtun og hann hélt bara áfram og áfram: Sko einu sinni var strákur og hann fór út í búð og í búðinni keypti hann appelsínu og svo fór hann með appelsínuna niður á strönd og kastaði henni í sjóinn og síðan velti hann við steini og undir steininum voru marflær og hann potaði í marflærnar og svo kom mamma hans og sagði að hann ætti að koma í mat en hann faldi sig á bakvið tré en tréð brotnaði og svo kom íkorni og íkorninn átti líka mömmu ... og eftir svona 10 mínútur þurfti bara að stoppa hann svo næsti maður gæti komist að. Annar hlutinn er svo fyrirtaks dallas – rosalegt melódrama, í fínu tempói og ágætlega skrifað. Gestur eineygði, gegnumbrotsbók Gunnars Gunnarssonar, er síðan eiginlega bara drasl. Þriðja skolvatn af vélstrokkuðu og þránu biblíusmjöri. Óskiljanlegt að hún hafi slegið í gegn.


There but for the eftir Ali Smith er meistaraverk að a.m.k. tveimur þriðju hlutum. Ég las hana hreinlega í andköfum, lengst af – en svo er einsog hún dofni í lokin. Hún fjallar í sem skemmstu máli um mann sem kemur í matarboð hjá fólki sem hann þekkir ekkert – með manni sem þekkir gestgjafana lítið. Á milli aðalréttar og eftirréttar bregður hann sér frá og læsir sig inni í gestaherbergi – sem er „en suite“, einsog heitir, með sérbaðherbergi. Þar hefst hann svo bara við. Við fáum í raun lítið að vita hvers vegna hann gerir þetta en bókin lýsir uppnáminu í kringum hann, hvernig hann verður hreinlega frægur, og alls konar fólki sem á snertifleti við hann og við gestgjafana – og svo er sagt frá matarboðinu sjálfu, sem er dásamlega kvikindisleg lýsing á efri millistéttar-bretum. Sennilega dofnar hún einmitt vegna þess að hún leysir svo ekki úr hnútunum sem hún sýnir okkur – svolítið einsog galdramaður sem lætur mann draga spil og hugsa um tölu og fer svo bara að tala um eitthvað annað áður en hann þakkar fyrir sig og býður góða nótt. En Ali Smith náði samt alveg að vera nýi uppáhaldshöfundurinn minn í 200 síður og það er bara nokkuð vel af sér vikið. Og ég hlýt að lesa fleiri bækur eftir hana fljótlega.


***


Talandi um geðdeyfð. Ég kom inn í gamla menntaskólann minn á dögunum til að lesa upp hljóðaljóð í frímínútum. Vegna covid var svolítið kaos – stelpan sem bókaði mig var komin í einangrun og það var enginn til að taka á móti mér svo ég stóð bara á ganginum og ráfaði svolítið í svona 10-15 mínútur.


Á veggjunum eru sömu tilkynningatöflurnar og voru þegar ég var í menntaskóla og plaköt á svipuðum stöðum. En það sló mig að það voru engar auglýsingar um neitt félagslíf eða yfir höfuð neitt gleðilegt. Þegar ég var þarna var taflan aðallega til að auglýsa tónleika og böll og sýningar og fundi í félögum – ekki síst í miðri Sólrisuviku. Og þá hefði auk sérstakra auglýsinga fyrir hvern viðburð verið stórt plakat með allri dagskránni. En ég varð ekki var við eina einustu þannig auglýsingu. Þess í stað voru allar auglýsingar fyrir heilsu- og öryggismál – hjálparlínur fyrir ofbeldisþolendur, stór plaköt um geðrækt, endómetríósu, tóbaksnotkun, kynferðislega áreitni, mörk í samskiptum og svo framvegis.


Ég er eitthvað búinn að vera að brjóta heilann um þetta upp á síðkastið. Auðvitað hefur verið lítið félagslíf síðustu árin og mikið af tilkynningunum um það hlýtur að vera kominn á internetið – þeir sem hengja upp auglýsingar eru þeir sem eru með fjárráð til þess að láta prenta stór plaköt í lit og væntanlega hanga sömu tilkynningarnar allan veturinn (að því gefnu að það finnist ekki lækning við þunglyndi, endómetríósu og kynferðisofbeldi úreldast þau ekkert). En þetta var samt í miðri sólrisuviku. Og ef maður leyfir sér að sálgreina tilkynningartöflu stofnunar einsog hún væri IDið í manneskju er eitthvað sárt að sjá áhersluna færast af gleðinni – eins taumlaus og hún getur verið – yfir í það hvernig fólk geti náð stjórn á harminum í lífi sínu.


En svo er þetta áreiðanlega spurning líka hvað maður velur að sálgreina. Ef maður skoðaði tónlistina sem ég er alinn upp á – byrjaði kannski í þungarokkinu („darkness, imprisoning me! all that I see! absolute horror!“) dauðarokkinu (Suicide Machine) og færi yfir í grungeið (Rape Me) og ég tala nú ekki um ef maður héldi svo áfram í emóið (sem ég er saklaus af að hafa hlustað á reyndar) – þá liti mín kynslóð kannski ekki út fyrir að vera neitt sérstaklega happy go lucky. Sakleysislegasta söngstjarna æsku minnar reyndist líka snargeðveikur barnaníðingur. Og heima hjá honum ríkti gleðin ein, a.m.k. á tilkynningatöflunum.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page