Froðufellt í farsóttinni

Við setjumst gjarnan niður fjölskyldan á kvöldin og horfum saman á sænsku og íslensku Krakkafréttirnar. Ég hef gert grín að því að á meðan sænsku krakkafréttirnar segi ótæpilega margar fréttir af skíðaíþróttum – ekki síst skíðaskotfimi – þá séu krakkafréttirnar helst til mikið í upptalningum á því hvaða breytingar hafi orðið á samkomubanni. 20 manns mega nú koma saman í bíó, séu þrír metrar á milli þeirra, en 14 geta farið í sund, þó bara einn á hverri braut og bólusettir mega nú fara á ljóðaupplestra ef þeir eru með vottorð. Í stuttum fréttatíma virkar þetta einsog uppfyllingarefni.

En þetta eru auðvitað ýkjur. Ég held meira að segja stundum að þessar tíu sænsku mínútur og fimm íslensku séu besta fréttaefnið sem maður fær. Íslensku krakkafréttirnar segja manni svona það sem helst er á baugi og sænsku krakkafréttirnar, Lilla aktuellt, eru meira í fréttaskýringum. Þar eru oft skelfilegir hlutir ræddir af fullri alvöru – t.d. var á dögunum sagt frá flóttamannavandanum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó (með myndefni af einsömlum börnum sem sváfu í kös í bandarísku landamærafangelsi) og fylgst hefur verið með máli Georges Floyd frá upphafi.

Maður fær það líka á tilfinninguna að uppsetningin sé úthugsuð til þess að vekja mann til umhugsunar. Formið hvetur mann til þess að velta vöngum og efast um hið sjálfsagða. Þannig byrjaði einn þáttur á dögunum á því að krakkar voru spurðir hvað þeim þætti um mótmæli – hver afstaða þeirra væri til þess að alþýða manna mótmælti? Þótt nær engin þeirra sem spurð voru hefðu mótmælt neinu sjálf voru þau undantekningalaust hlynnt mótmælum sem slíkum.

Næst var fjallað um mótmæli gegn sóttvörnum í Stokkhólmi, þar sem stór hópur fólks hafði komið saman til þess að berjast gegn lokunum, grímum og jafnvel bóluefnum. Voru mótmæli þá alltaf góð?

Og svo sagt frá því að lögreglan hefði leyst upp mótmælin (vegna þess að þau brutu í bága við lögin sem þeim var ætlað að mótmæla – það mega ekki koma saman fleiri en átta). Ef mótmæli eru ekki alltaf góð, má þá stoppa þau?

Þar á eftir var rætt við ritstjóra Sydsvenskan sem gagnrýndi þessar aðgerðir lögreglunnar og benti á að það vildi enginn búa í landi þar sem hið opinbera hefði sjálfdæmi um hvenær mætti mótmæla stefnu þess og hvenær ekki. Við yrðum þess utan að standa vörð um borgaraleg réttindi okkar, jafnvel á neyðartímum. Fyrir þeim hefði verið barist og þau væru ekki sjálfsögð þótt mörg okkar þekktu ekkert annað.

Að síðustu var svo frétt um fólk sem trúir samsæriskenningum – einsog að bóluefni sé eitur. Einsog til að minna mann á að láta ekki vitleysuna glepja sig.

***

Þegar maður er orðinn vanur að fá sitt fréttaefni úr fullorðinsmiðlunum virkar þetta furðu þroskað. Sérstaklega – ef ég má gerast svo djarfur – ef maður hefur mikið verið að lesa íslenska miðla upp á síðkastið. Það leggur stækan nashyrningafnyk af þjóðinni.

Vinsælasti rappari landsins hefur boðað til mótmæla á sunnudag og ætlar að leggja bílnum sínum – sem ég reikna með að sé Range Rover á gullfelgum – þvert yfir Reykjanesbrautina til að mótmæla komu fólks til landsins. Fólks sem sennilega er margt hvert pólskt verkafólk sem hefur átt erindi til gamla landsins – sennilega brýnt, fæstir ferðast nema þeir þurfi þess, jarðarfarir og annað eins – og þeim verður hörkulega mætt af manni í hvítum bol með gullkeðju, sem hefur barasta fengið nóg af græðgi annarra.

Fyrrverandi þingmaður skrifaði langloku á Facebook nýlega þar sem hann sagði allt nýtt smit mega rekja til ónefndrar pólskrar verkakonu á Landspítalanum. Það vantaði einmitt bara að hann nafngreindi hana. Þetta var vel að merkja fyrir Jörfamálið.

Ítrekað er hamrað á því í fjölmiðlum að smitin „megi rekja til fólks af erlendum uppruna sem búsett er á Íslandi“ (af því maður segir ekki „eru helvítis pólverjunum að kenna“ upphátt – en það heyra allir sem vilja heyra). Þar með er ekki bara búið að sakfella innflytjendur á landinu – á nákvæmlega sama máta og Trump gerði við Kínverja þegar hann fór að tala um „Kínavírusinn“ – heldur  þess utan búið að sýkna sanna Íslendinga og túrista.

Ríkisstjórnin gerði síðan heiðarlega tilraun þess að fangelsa stóran hóp fólks við komuna til landsins en gleymdi að setja það í lög. Frumvarpið sem var svo samþykkt, þegar dómstólar höfðu gert þau afturreka með erindið lagalaust, heitir því skemmtilega gegnsæja nafni „Frumvarp heilbrigðisráðherra um sóttvarnalög og lög um útlendinga“. Ég veit það segir ekki neitt og sennilega er þetta bara „rétta“ heitið – en það er eitthvað nánast kjánalega lýsandi við þetta samt.

Á sama tíma hefur Útlendingastofnun ákveðið að faraldurinn sé ekki ástæða til þess að fresta eða sleppa brottvísunum hælisleitenda. Það er sem sagt bara farsótt í heiminum þegar það hentar.

Kári Stefánsson hefur verið duglegur að tala um að Pólverjarnir valdi smitunum – en tekst gjarnan á sama tíma að tala um þá einsog hálfgerða aumingja, sem okkur hafi ekki tekist almennilega að siða. Það hafi „mistekist að byggja brú til pólska samfélagsins“. Hann var meira að segja með einhverjar kenningar – sem væntanlega eru algerlega úr lausu lofti gripnar, ég held það sé ekki haldið utan um svona tölur – um að stór hluti þeirra væri að þvælast milli landa til þess að sækja sér atvinnuleysisbætur. Að það sem sagt borgi sig að fljúga reglulega fram og til baka til Íslands, gista á hótelum og borga fyrir (rándýr) PCR próf – væntanlega af því íslenskar atvinnuleysisbætur eru svo háar. Þetta vildi hann takast á við „án þess að benda á þetta fólk sérstaklega“ – en gerði auðvitað ekkert sjálfur annað en að standa upp á kassanum sínum og benda, mjög áhyggjufullur og landsföðurlegur (hún er mjög hörð samkeppnin þessa dagana um hver sé áhyggjufyllsti landsfaðirinn).

Svo birtist hann í blöðunum í dag og sýtir mjög að hið nýja frumvarp um útlendinga flytji valdheimildir um of frá sóttvarnarlækni til ríkisstjórnarinnar. Lætur einsog það sé verið að hrækja í andlit vísindanna. Og ég spyr mig alveg einlæglega hvort fólk heyri í sjálfu sér tala? Það fer ábyggilega ágætlega á því að sóttvarnarlæknir hafi takmarkaðar heimildir – að hann þurfi ekki að spyrja Svandísi alltaf þegar hann skýst á klósettið – en hann er samt ekki lýðræðislega kjörið yfirvald og allar stærri ákvarðanir ætti að taka í ráðuneytinu.

Það kom upp smit á leikskólanum Jörfa sem sóttvarnaryfirvöld röktu fljótt til eins manns – pólsks verkamanns – sem hafði rofið sóttkví. Það fór beint í blöðin. Ekki undir nafni en svo gott sem – ég reikna ekki með að það tæki meðalslúðurkellingu nema 15 mínútur að hafa upp á honum. Maðurinn er núna sekur um að hafa komið af stað nýju smiti – hið pólska poster boy veirunnar – og ef einhver deyr þarf ekkert að spyrja að því hverjum popúlistarnir kenna um (þótt Svandís fái ábyggilega sinn skerf líka). Þar vantaði ekkert nema Þórólfur tæki að sér að tendra í kyndlunum fyrir fólk.


Varið land“, enda sé „sóttkví við landamæri ekki mannréttindabrot“ einsog það er orðað (en átt er við frelsissviptingu saklauss fólks fyrir glæp sem það hefur ekki framið: að rjúfa sóttkví – það fá allir aðrir, hvort sem þeir eru útsettir fyrir smiti eður ei, að fara í sjálfviljuga sóttkví heima hjá sér, og enginn hefur t.d. farið fram á að börnin af Jörfa eða foreldrar þeirra eða kennarar séu læst inni á hótelherbergjum þótt augljóslega sé líklegra að þau beri smit en einhver random ferðalangur á leið um Leifsstöð – enda væri það massíft mannréttindabrot að fangelsa alla sem gætu verið smitaðir). Þá er orðræðan meðal forystufólks flokksins alveg á hæsta snúningi popúlismans þessa dagana. Yfirleitt bíða flokkar með að komast til valda áður en þeir valda mér svo miklum vonbrigðum.

Allt er þetta vel að merkja að gerast í landi sem er svo gott sem veirufrítt. Og þessara róttæku aðgerða þótti ekki þörf þegar nýgengi smita á landamærunum var hærra.

Ég á ekki við að ástandið geti ekki versnað – enn getur fólk veikst og dáið, það eru raunverulegar afleiðingar og þær ber að taka af fullri alvöru, þótt verið sé að bólusetja á fullu. En það er líka eitthvað sjúkt við þessa ofsafengnu öryggisþrá sem er vaxandi einkenni millistéttarinnar síðustu 15-20 árin. Við setjum á okkur öryggisbelti, hjólum með hjálm, bönnum reykingar inni og við innganga og jafnvel á útiborðum veitingahúsa o.s.frv. – við erum kvíðin með dauðann á heilanum allar vökustundir. Og þá er kannski ekki skrítið að við förum offari í faraldri – en ég þakka guði fyrir að sama fólki sé ekki ætlað að halda haus í heimsstyrjöld eða einhverjum verri hamförum en þessum.

Ég veit að það hljómar þannig, í heimi sem er bara læs á pólaríseringar, en ég vil sannarlega ekki gera lítið úr mikilvægi sóttvarna – eða því hvað lokanir og aðrar lýðræðislegri aðgerðir (les: sem bitna jafnar á öllum) geta íþyngt fólki. Áfram grímur, áfram prófanir, áfram spritt og áfram sóttkví og einangrun og takmarkanir. En ég segi einsog ritstjóri Sydsvenskan sagði við börnin í sænsku krakkafréttunum: aðgerðirnar mega ekki kosta hvað sem er. Neyðarástand kallar sannarlega á neyðaraðgerðir – en þau kalla líka á að við hugum að prinsippunum okkar frekar heldur en bara sjálfselskunni.

Í það minnsta mættum við fara að spyrja okkur af fullri alvöru hvað draumurinn um 100% veirufrítt land og „stuð innanlands í sumar“ megi kosta. Því skríllinn er að verða afar æstur, einsog má til dæmis sjá í athugasemdum við frétt um afstöðu Pawels Bartoszek til mótmæla Herra Hnetusmjörs (og þá má alveg hafa í huga að Pawel er ekki bara frjálshyggjumaður heldur líka eini stóri stjórnmálamaðurinn á Íslandi með almennilega innsýn í samfélag Pólverja – hann stendur á brúnni sem Kári talaði um). Ég tek undir með þeim sem segja að samlíkingin við að mótmæla komu hælisleitenda sé ekki smekkleg – en það gerir bara ekki aðgerðir Herra Hnetusmjörs (fáránlegar þessar setningar) ekkert minna ógeðfelldar.

Ef svarið er bara að allra aðgerða megi beita til þess að veiran drepi engan – einsog skilja má á sumum – þá verðum við líka að geta horfst í augu við þann harm, þann skaða og já, þann dauða, sem slíkar aðgerðir hafa í för með sér.  Það er hægt að halda í sér andanum til að verða ekki fyrir óbeinum reykingum og drepast úr krabbameini – en það er hætt við að það drepi mann eitthvað annað ef maður dregur ekki andann annað veifið.

Við lifum ekki enn í þjóðfélagi sem hefur afskrifað dauðann – við höfum ekki bannað reykingar með öllu (eða gert óbeinar reykingar ólöglegar). Við höfum ekki bannað bílaumferð. Við höfum verið að íhuga lögleiðingu eiturlyfja – ekki vegna þess að þau séu skaðlaus, heldur vegna þess að skaðinn sem bannið veldur er sennilega meiri en skaði neyslunnar sem slíkrar. Við vegum alltaf og metum kosti og galla – og í göllunum er oft fólgið ákveðið mannfall. Meira að segja við byggingu húsa og mannvirkja er formúla til þess að reikna út hversu margir muni látast. Ég veit þetta hljómar ískalt – við tölum ekki mikið um þetta upphátt, og ég myndi áreiðanlega þaga þunnu hljóði ef pestin hefði hitt mig illa heima fyrir sjálfan, það er eðlilegt – en við höfum (þegjandi) sammælst um að lífinu fylgi ákveðin dauði og að við látum hann ekki hamla öllum okkar gjörðum; á sama tíma og við gerum allt sem eðlilegt getur talist til þess að draga úr skaðanum (vinnulöggjöfin hefur t.d. stórlega dregið úr mannfalli við byggingastörf; umferðarreglur fækka dauðsföllum í umferðinni – vel að merkja alveg án þess að við séum öll með lögreglumann í bílnum til að fylgja þeim eftir).

Þetta er heldur vel að merkja ekki spurning um að hafa annað hvort opið í sund eða opið á landamærunum. Hvorutveggja er pólitísk ákvörðun – ekki vísindi. Það hljómar sennilega einsog einhver framúrstefnukenning, árið 2021 á Íslandi, en það er hægt að hafa bæði opið í sund og leyfa fólki að taka sóttkví heima hjá sér án frelsissviptingar. Það er jafnvel hægt að hafa opið í sund með takmörkunum. Og það er sannarlega hægt að gera allt þetta án þess að benda áhyggjufullur á tiltekna þjóðfélagshópa eða tiltekna einstaklinga í miðjum heimsfaraldri og gera þá ábyrga fyrir öllu saman – hvort sem maður gerir það froðufellandi eða yfirvegaður (og lætur aðra um að froðufella fyrir sig).

1 view0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png