Frankensleikir var í gær tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka. Ég átti sjálfur ekki heimangengt en Elías Rúni fór og tók á móti tilnefningunni fyrir okkar hönd. Við börnin skáluðum fyrir þessu hér heima og svo fórum við Nadja út og fengum okkur jólasmurbrauð á Edinborgarhúsinu.
Það þarf varla að taka það fram hvað þetta er mikill heiður og ánægja. Ég er byrjandi í barnabókum – það er að mörgu leyti allt önnur list en að skemmta fullorðnum – og er einhvern veginn líka mjög langt frá skarkala jólabókaflóðsins að þessu sinni. Og það er því talsverð hughreysting að þessu sé svona vel tekið – og maður sé alltíeinu í félagsskap við jafn öfluga barnabókahöfunda og raun ber vitni, en auk okkar Elíasar voru tilnefndar þær Sigrún Eldjárn, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, Arndís Þórarinsdóttir og Elísabet Thoroddsen.
Umsögn dómnefndar var svohljóðandi:
Áhugaverð og nýstárleg saga sem sýnir jólasveinana í nýju og óvæntu ljósi. Persónusköpunin er forvitnileg en við sögu koma uppátækjasamir krakkar, kassalaga foreldrar og niðurbútaðir jólasveinar. Í verkinu fléttast listavel saman kímni, fantasía og hrollvekja þannig að úr verður frásögn sem er allt í senn fyndin, óhugnanleg og grípandi.
En dómnefndina skipuðu Guðrún Steinþórsdóttir, formaður dómnefndar, Gunnar Björn Melsted og Helga Ósk Hreinsdóttir.
Commentaires