top of page

Fleipur


Ég fór með alls konar fleipur um Sterk Margrétar Tryggvadóttur hér í fyrradag. Sem ætti að kenna manni að tjá sig ekki um bækur sem maður hefur ekki lesið – að treysta ekki bara á lýsingar annarra.


Í fyrsta lagi er bærinn fyrir vestan alls ekki ótiltekinn, einsog ég hélt fram, heldur bara Ísafjörður undir sínu eigin nafni. Ég náði ekki alveg tímalínunni en ef ég misskildi ekki þá gengur aðalsöguhetjan, Birta, í grunnskóla á Ísafirði og byrjar svo í MÍ en hættir og fer suður í Tækniskólann, í kjölfar þess að bestu vinir hennar rjúfa trúnað og slúðra því út um allt að hún sé trans.


Í öðru lagi býr Birta ekki á Ísafirði heldur er hún sveitastelpa – mér fannst innanúr Djúpi en ég held það komi ekki fram. Selbjörg hljóma í öllu falli einsog þau gætu verið nálægt Hrafnabjörgum. Hún sækir skóla með skólabíl.


Í þriðja lagi eru Ísfirðingar eða Djúpmenn ekki allir drullusokkar þótt þeir séu sannarlega látnir gegna hlutverki „hins fordómafulla“ í þessari sögu – engum þeirra kynnumst við mikið en Birta er greinilega trámatíseruð af atlæti sínu í sveitinni og á Ísafirði, þar sem fólk slúðrar um hana annars vegar og sýnir henni fálæti eða kemur fram við hana einsog hún sé eitruð hins vegar.


Ekki virðist vera neitt kynsegin fólk í skólanum eða í bænum – sem auðvitað er í raunveruleikanum, sem og í grunnskólanum – heldur er Birta mjög ein. Kennararnir í Menntaskólanum á Ísafirði – þar sem Birta vill allt gera til þess að sækja aldrei tíma framar – eru líka rænulausir og virðast ekki frekar en nemendurnir vita neitt hvernig þeir eigi að taka henni. Ekki er heldur vikið orði að Veigu Grétarsdóttur, ísfirsku transkonunni sem var mjög áberandi í bæjarfélaginu (og landinu öllu) einmitt á sögutímanum og árunum þar fyrir – réri kajak rangsælis í kringum Ísland sumarið 2019 og var þá í öðrum hverjum fréttatíma.


Auk Birtu hittum við tvo Vestfirðinga í eigin persónu í bókinni. Annars vegar einn af æskuvinum Birtu, Geir, og hins vegar pabba hennar. Báðir eiga það sameiginlegt að „skilja þetta nú ekki“ og hafa brugðist illa við áður en virðast vera af vilja gerðir til þess að „mennta sig“ og gera betur í framtíðinni. Þeir eru kannski sveitalubbar en þeir eru með hjartað á réttum stað. Hið sama verður ekki sagt um móður Birtu og hinn æskuvin hennar, Pétur – sem virðast lítið vilja leggja á sig í þessum efnum – og áhugavert að þessi pör, pabbinn og mamman annars vegar og Geir og Pétur hins vegar, skuli spegla svona hvort annað.


Foreldrar Birtu slá mann reyndar sem miklu eldra fólk en þau eiginlega geta verið – ég held að aldur þeirra komi ekki fram. Þau eru á móti „fínum mat“ á veitingastöðum, drekka gallsúrt kaffi, éta þegjandi yfir útvarpsfréttum og hafa aldrei ferðast neitt nema einu sinni til Danmerkur. En ef Birta er fædd um það bil 2002 – sem mér sýnist að gæti verið raunin (bókin gerist í janúar-febrúar 2020) – þá gætu foreldrar hennar þess vegna verið milleníalar. Það verður í öllu falli enginn búmer af því einu að vera bóndi.


Það fólk sem Birta hittir í Reykjavík er ekki sama marki brennt – hvort sem þeir sem um ræðir eru foreldrar eða systkini vinkvenna og elskenda, pólskir sambýlismenn, erítreskar og rúmenskar sambýliskonur, vinnuveitendur, samnemendur eða aðrir. Meira að segja vondu kallarnir í bókinni virðast ekki tiltakanlega illa haldnir af transfóbíu sem slíkri – og eru þeir þó mjög vondir.


Annars er nóg af öðrum klisjum þarna líka. T.d. Reykjavíkurklisjum – það er viðstöðulaust slabb í bókinni. Og trans klisjum – Birta er auðvitað í forritun. Og stelpuklisjum – þær stöllurnar, Birta, Jóhanna og Blær eru alveg fáránlega fullkomnar, með 9,5 í öllu og þegar Jóhanna stingur upp á því að skrópa svo þær Birta geti farið í sleik segist Birta heldur bara vilja bíða og fara í sleik seinna. Þetta er í sjálfu sér ekki óviðeigandi í ungmennabók – eða bara reyfurum, og öllum bókum að einhverju marki – þar sem hið kunnuglega veitir ákveðna fró. Klisjur og alhæfingar eru líka haldreipi. Svo eru klisjur auðvitað ekki átomatískt réttar eða rangar – þær eru bara endurteknar.


Sterk er síðan vel að merkja eiginlega meiri unglingareyfari en hún er þroskasaga trans stúlku. Þunginn liggur ekki síst í glæpaplottinu og samfélagslýsingin er miklu breiðari en sem nemur málefnum trans fólks – bókin fjallar í raun ekki minna um aðstæður erlendra verkamanna á Íslandi. Og minnir um margt á gamaldags ævintýrabækur – Enid Blyton kemur upp í hugann – einsog Birta nefnir reyndar á einum stað í skemmtilegri athugasemd.


Loks ber að hafa í huga að Ísafjörður eða Vestfirðir koma ekki mikið við sögu – eru bara í bakgrunni – og fá bara þessa áherslu hér í mínum skrifum vegna þess að ég er sérstaklega að spekúlera í því hvernig Ísafjörður og nágrenni birtist í íslenskum bókmenntum almennt.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page