Fjarlægur ómur kjörgengis


Það er fallegur vetrardagur á Ísafirði. Hundslappadrífa.


Næstu helgi eru kosningar. Ég veit svo sem hvað ég er að fara að kjósa – systir mín er í framboði fyrir Í-listann og nágrannar mínir líka, bæði beint á móti og við hliðina, og haugur af fólki sem ég kann vel við og treysti. Annars kæmu Píratar líka til greina.


Ég hef ekki orðið var við neina kosningabaráttu. Ég veit ekki hvort það er búið að bera út bæklinga í götunni minni en ef það var gert þá hafa flokkarnir litið á áróður sinn sömu augum og Húsasmiðjublaðið – það stendur víst á póstkassanum að ég vilji ekki ruslpóst. Það var einn hálftímalangur kosningaþáttur í útvarpinu þar sem alltof fátt kom fram. Mér vitanlega hafa engar skoðanakannanir verið gerðar svo maður hefur enga hugmynd um stöðuna, aðra en þá að það þurfi sennilega miklar sviptingar til þess að staðan í bæjarstjórn breytist – Í-listinn þurfi að bæta mjög mikið við sig til að ná næsta manni, Píratar að ná mjög miklu til að koma sínum fyrsta inn og líklega steli þeir hver af öðrum frekar en af Framsókn og Sjálfstæðisflokki, sem séu áreiðanlega jákvæðir um að halda áfram meirihlutasamstarfinu.


En þá er maður auðvitað að miða bara við stöðuna einsog hún var fyrir fjórum árum. Og það er erfitt að átta sig á því hversu mikið hún hefur breyst – Sjallarnir eru með eiginlega alveg nýtt lið og Í-listinn með Viðreisnarmann í fararbroddi, sem hefðinni samkvæmt ætti að höfða til flóttatendensana í Íhaldinu.


Ég fór að vísu í kosningakaffi hjá Í-listanum, þáði tvo kaffibolla, spjallaði við systur mína og hótaði þessum oddvita að ég myndi leka 20 ára gömlum spjallþráðum þar sem við tókumst á um pólitík – ég jafnrauður og í dag en hann alveg helblár. En það hefði gert út af við hann og Íhaldið unnið stór sigur svo ég lét það vera.


Sennilega er eitthvað líf á Facebook. Eða Twitter. En hérna í minni búbblu er hálfgerður kosningadoði. Kannski spilar veðrið líka rullu. Mikið hræðilega er veðrið deprímerandi.


Nadja er að fara að kjósa í fyrsta skipti á Íslandi – rétt missti af því síðast, vegna þess að norðurlandabúar þurfa að hafa verið búsettir á staðnum í þrjú ár og síðast vantaði einhverja örfáa daga upp á. De facto hefur það sem sagt tekið sjö ár að fá að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum. Hún fær svo ekki að kjósa í alþingiskosningum fyrren ríkisborgararétturinn er í höfn – það er að væflast í kerfinu einhvers staðar. Hvað um það. Fyrr í vikunni spurði hún stóran hóp af fólki hvaða tilfinningu þau hefðu fyrir úrslitunum á laugardag og fékk það svar að fyrst þyrftu Systur nú að ná upp úr undankeppninni. Sem þær gerðu auðvitað. Ekki að það hafi skýrt stöðuna neitt.

25 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png