Fjögur: Heimska er hugsanlega staður

Í gærkvöldi spurði Nadja mig hvort að við myndum alltaf tengja Víetnam við sjónvarpsþættina 24, sem við höfum horft á í vetur, og í kjölfarið fórum við að ræða hvaða seríur við hefðum horft á hvar. Síðan við byrjuðum saman, trúlofuðum og giftum okkur árið 2007 – á fáeinum mánuðum – höfum við, auk Hoi An, búið í Helsinki, Oulu, Stykkishólmi, Rejmyre, á tveimur heimilum í Västerås og tveimur á Ísafirði. Og hverju heimili fylgja nýjar sjónvarpsþáttaseríur. Það er prójekt nútildags að horfa á heila seríu – sérstaklega ef serían er öll búin þegar maður byrjar að horfa og maður kannski sökkvir sér í Sopranos í hálft ár kvöld eftir kvöld. Seríurnar sem maður horfir á jafn óðum og þær eru sýndar renna meira saman við árin – Game of Thrones er t.d. alls staðar og hvergi.*

Öllu mikilvægari lífspóstar eru bækurnar sem ég hef skrifað á ólíkum stöðum. Í Helsinki átti ég það til að fara á fætur um miðja nótt til að rímixa Tímann og vatnið eða skrifa niður eitthvað sem suðaði í hausnum á mér, því það væri nauðsynlegt að það gerðist strax, og eyddi stundum heilu vikunum í að tvíka til einhver smáatriði í ljóðavídjói, á milli þess sem ég skrifaði Gæsku. Ég hef sjálfsagt aldrei unnið jafn mikið á ævinni og þetta fyrsta ár sem ég var í fullu starfi sem rithöfundur. Í Grimmakoti á Ísafirði engdist ég yfir ritgerðarsmíðum og á Jakobsbergsgatan flúði ég húsið svefnvana eftir nýfæddan Aram og settist á kaffihúsið Kalla á Spönginni til að skrifa fyrstu síðurnar í Illsku – sem fylgdi mér síðan til Tiedonkaari í Oulu, með mikilvægum vinnulotum í Visby á Gotlandi, Norðurtanganum á Ísafirði og Jurbarkas í Litháen. Ég gerði síðustu breytingar í Rejmyre og las próförk í Vatnasafninu á Stykkishólmi.

Og staðir: Þegar ég var að skrifa kaflann um unglingsár Ómars, í þriðja hluta Illsku, sat ég á háskólabókasafninu í Oulu og sló því upp hvað forritin hétu sem maður notaði til að komast inn á IRCið – sem Ómar notaði til að koma sér í vandræði – og rak mig á að IRCið var fundið upp í Oulu. Í tölvudeildinni í háskólanum. Sem var á hæðinni beint fyrir ofan mig.

Staðir skipta bækur máli og bækur skipta staði máli. Þegar Eitur fyrir byrjendur kom út á sænsku bjó ég í Oulu í Norður-Finnlandi og tók rútuna niður til Umeå í Svíþjóð á Littfest og las nýútkomna þýðinguna á leiðinni. Og það rifjaðist svo margt upp fyrir mér – alls kyns díteilar úr lífi mínu einsog það var þegar ég skrifaði bókina fimm árum áður. Matur sem ég borðaði, fólk sem ég tók eftir á götu, greinar úr blöðunum, hugsanir sem sóttu á mig, samræður og svo framvegis – og margt er líka ómögulegt að vita hvort voru raunverulegar minningar eða tilbúnar (maður bullar svo mikið í sjálfum sér um eigin minningar). Í einhverjum skilningi var þetta einsog að lesa dagbók þótt frásögnin gæti varla verið ólíkari mínu eigin lífi.

Fyrstu fjögur handritin að Heimsku skrifaði ég ýmist á ferðalagi – ég var meira en hálft árið 2013 á faraldsfæti – eða við púltið sem bróðir minn smíðaði handa mér á Ísafirði. Fimmta handritið skrifaði ég í Jonsered og sjötta í Västerås. Sjöunda og áttunda handrit skrifaði ég svo við Le Hong Phong númer 32 í Hoi An, þar sem ég er enn, í dálitlu eirðarleysi. ** Það sjöunda var alveg jafn vonlaust og hin sex á undan en það áttunda einfaldlega small. Ég veit ekki hvað gerði herslumuninn, nákvæmlega, en það hvarflar að mér að eftirlitsdystópían hafi kannski gengið upp vegna staðsetningarinnar, vegna þess að ég er í einræðisríki langt að heiman – að ég hafi kannski fattað eitthvað hérna sem ég fattaði ekki almennilega áður, eitthvað sem ég kannski skildi einhverjum bókstafsskilningi en fann ekki til í beinum mér.

Þar kemur að minnsta kosti tvennt til.

Hið fyrra: Einhvern tíma í janúar skrifaði ég tölvupóst til kunningja míns í Bandaríkjunum og það sló mig að hugsanlega væri pósturinn færður til bókar á báðum endum. Ég held manni sé alveg óhætt að reikna með því að víetnömsk yfirvöld geymi að minnsta kosti lýsigögn um allar tölvupóstsendingar úr landinu – og líklega líka textann sjálfan. Og bandarísk yfirvöld gera áreiðanlega slíkt hið sama við allan póst sem kemur frá Víetnam. Það er merkileg tilfinning.

Hið síðara: Maður sleppur aldrei lengur. Það er alveg sama hvað maður fer langt út í heim, maður tekur allan farangurinn með sér – gamla skólafélaga, fjölskylduna, kollegana, debattana, skandalana, upphrópin og andvörpin. Mér fylgir Ísland og að hluta til Svíþjóð, alla daga jafnt, í krafti þess eins að þau geta fylgt mér og ég get ekki annað en fylgt þeim. Ég slökkti á Facebook á mikilvægasta sprettinum – af nokkrum ástæðum.*** Og þegar maður slekkur á Facebook notar maður Twitter meira, sem er svolítið einsog að reykja meira hass svo maður þurfi ekki að vera fullur alla daga; og netnotkun manns, eftirlit manns með heiminum, verður passífara – en það er enn til staðar, maður sér ennþá út þótt ekki sjáist jafn mikið inn, maður er enn með farangurinn á bakinu, ennþá með staðina sína í farteskinu. Maður er bara búinn að læsa sig inni í herbergi til að fá smá frið.

Hið fyrra er panoptikanska tilfinningin – þar sem maður er eiginlega alveg viss um að yfirvöld fylgjast með manni og gerir sér grein fyrir því að hugsanlega geti alls konar hegðun komið í bakið á manni af þeim sökum. Hið síðara er synoptíkanska tilfinningin þar sem allir fylgjast með öllum, þar sem maður er viðstöðulaus þátttakandi í eftirlitsnetinu og meðvitaður um að maður kemst aldrei alveg út úr því sjálfur. Þar eru líka alls kyns refsingar – útskúfun, afhjúpun og einelti þar á meðal – þótt þær séu annars eðlis. Panoptikon – bygging Benthams – er alræðisfangelsið; synoptikon er þægilega stofufangelsið. Við njótum þess líka að refsa öðrum, njótum þess að benda, hía og finna til valdsins sem synoptikon gæðir okkur.

Í gær póstaði ég búti af Wikipediu um heimsku þar sem fram kom að orðið „heimska“ væri skylt orðinu „heima“ og merkti þá að maður væri „ósigldur“, hefði ekki séð heiminn (sem er annað orð sem hlýtur eiginlega að vera skylt bæði „heima“ og „heimskur“ ****). Ég póstaði bútnum aðallega af því mér fannst fyndin athugasemdin um að fólk væri ósammála um hvort heimska væri þrálátt ástand eða hvort maður gæti losnað við hana – en hitt, sem ég hafði þó oft heyrt áður, hefur sótt svolítið á mig síðan. Og í sambandi við þetta hérna að ofan þá hvarflar að mér að maður komist ekki lengur að heiman – það sé ekki hægt, það skipti engu máli hversu langt maður fer maður sé alltaf líka heima. Í heiminum og heima. Og það verður fljótt dálítið angistarhlaðið – og hreinlega ofhlaðið. Ég er ekki viss um að maður ráði við nema takmarkað mikinn veruleika; og að þótt maður aðlagist þá þýði það ekki að maður aðlagist sér (eða samfélaginu) að kostnaðarlausu.

Það slær mig líka núna að orðið útópía – sem systurhugtak dystópíunnar, og einhvers konar andheiti hennar – þýðir bókstaflega „staðleysa“. Og andheiti staðleysu er væntanlega staður? Ísafjörður? Framtíðin? Internetið? Er fjarlægðin líka staður? Er heimska staður?

Þegar ég hef spurt mig að því hvaða merkingu það hafi að Heimska skuli gerast á þeim eina stað sem ég kalla blygðunarlaust „heima“ – þ.e.a.s. á Ísafirði – og sé skrifuð úr fjarlægðinni, hef ég aðallega verið að velta því fyrir mér hvort að mínir heimamenn, mitt heimafólk, taki því illa, einsog ég sé að segja að þeir séu heimskir (sem er ekki meiningin). En ég ætti kannski fyrst og fremst að spyrja hvað þetta segi um sjálfan mig? Hvort ég ætti ekki að taka þessu illa? Það stendur til að flytja til Ísafjarðar næsta sumar eða haust – fjárfesta í húsi, búa til framtíð (sem verður vonandi önnur en sú í bókinni). En svo er kannski ekkert sem tryllir mann jafn örugglega og að beita sínar eigin bækur „ævisögulegu aðferðinni“ – og það áður en þær eru einu sinni komnar út! Þá er maður áreiðanlega fastur í einhvers konar solipsískri vítahringsmartröð.

* Reyndar hlustaði ég svo mikið á fyrstu 2-3 bækurnar á hljóðbók, sumarið 2013, þegar ég þurfti að keyra mikið á milli Ísafjarðar og Keflavíkur, að veröldin – einsog framleiðsla þáttanna – fór að renna saman við landslagið og ég hugsa núorðið um allt ofan við Hólmavík sem „north of the wall“, en það er önnur saga og hallærislegri ** Og að leita mér að launuðum verkefnum, ekki síst þýðingum, ef einhver veit um slíkt má skrifa mér). *** Ein verandi sú að einsog það er ekki hægt að skrifa um Ísafjörð þegar maður er á Ísafirði er ekki hægt að skrifa um eftirlit á meðan maður sinnir því alla daga – það þarf ákveðinn distans; önnur verandi að félagsmiðlar eru tímasvarthol sem er auðvelt að fá þráhyggju fyrir ef maður er þannig stemmdur, það rænir mann hugarrónni að þurfa að „leiðrétta allt fólkið á internetinu“, einsog fram hefur komið í skrípateikningum; þriðja verandi að víetnamski kommúnistaflokkurinn er með filter á netinu svo maður þarf að fara krókaleið inn á félagsmiðla, svona einsog maður þarf að gera til að lesa íslenskar rafbækur í kindli **** Sló því upp, það stendur „heima“.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png