Fimm: Skelfing heimskunnar // Den hemska idiotin

Í fyrstu hélt sænski útgefandinn minn að Illska þýddi það sama á íslensku og sænsku – þ.e.a.s. „reiði“. Það gerir það auðvitað ekki og því heitir bókin Ondska á sænsku, sem var ekki heldur alveg vandkvæðalaust því Ondskan (með ákveðnum greini) eftir Jan Guillou er ein af frægari bókum Svía í seinni tíð*.


Á sænsku þýðir hemska – ætli maður að þýða það sem nafnorð – hræðileiki, ógn og skelfing, úff og æi. En orðið er ekki nafnorð, það er lýsingarorð – hemsk – den hemska mannen – skelfilegi maðurinn. Orðin hemsk og heimska eru skyld – einsog fram kom í síðustu færslu er orðið „heimska“ dregið af orðinu „heima“. Orðið „hemsk“ er svo auðvitað dregið af orðinu „heimsku“ (og þá ræður maður hvort maður lítur á íslenskuna sem vanþróaða orginalinn eða sænskuna sem úrkynjaða afritið).

Altso, fyrst þýddi orðið í raun heimakær. Svo þýddi það að þurfa ekki á utanaðkomandi áreiti að halda, að vera sáttur í eigin skinni. Svo sljór, viljalaus, dapurlegur, drungalegur, heimskur og loks skelfilegur. Birgitta Ernby, ritstjóri sænsku orðsifjabókarinnar, sagði í viðtali við DN að maður gæti vart hugsað sér fegurri lofsöng til ferðaþrárinnar. Það er samt áhugavert að velta því fyrir sér hversu langt að heiman sjálft orðið er komið – um hversu langan veg það hefur ferðast.

Kannski er ekki jafn mikið stökk frá heimskunni til skelfingarinnar og manni sýnist í fyrstu; heimska er alltaf eins konar myrkur og í myrkrinu þrífast myrkraöflin, einsog allir vita.** Því er iðulega haldið fram að þeir sem eru haldnir fyrirlitningu á öðru fólki – t.d. rasistar, kvenhatarar o.s.frv. – þjáist fyrst og fremst af ótta eða skelfingu sem sé drifin áfram af fáfræði eða heimsku. Og fyrir því má færa ágætis rök (þótt það sé auðvitað flóknara en svo).

Einhver staðar stendur líka skrifað að hugrekki sé að gera sér grein fyrir áhættu en taka hana samt – og þar eru heimskan og skelfingin aftur systkini. Ef maður gerir sér ekki grein fyrir áhættunni er maður ekki skelfdur og ef maður er ekki skelfdur er maður ekki hugrakkur, þarf ekki að taka á honum stóra sínum.

* Í Danmörku komu út tvær bækur sem hétu Ondskab í sömu vikunni – hin var spennutryllir. ** Auðvitað vita einmitt ekki allir að í myrkrinu þrífist myrkraöfl; ótti okkar er oft ástæðulaus og byggir oft á því sem við vitum ekki – skrímslum undir rúminu, því sem gerist bakvið luktar dyr þeirra sem „við“ upplifum sem öðruvísi, sem einhvers konar skelfilega leyndardóma, hvort sem það eru svefnherbergi transa eða moskur, kaffistofur bifvélavirkja eða málstofur akademíkera.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png